Reiður úti á plani

Stoltið og réttsýnin geta verið skrítin systkin, sérstaklega þegar við upplifum að eitthvað hafi verið gert á okkar hlut. Við eigum erfitt með að kyngja stoltinu þó að það sé augljóslega okkur í hag. Við mætum hörðu með hörðu af því að við lítum hlutina með okkar augum og eigum rétt á því. 

Hver kannast ekki við manninn sem mætir reiður inn í verslun með bilaðan hlut og rausar um hvað þetta sé mikið drasl. Hann sé nýbúinn að kaupa hlutinn og hann virki ekki. Eftir augnablik kemur í ljós að hann hafði bara gleymt að kveikja á hlutum eða setja hann í samband eða gert einhver einföld mistök. Svokölluð BÍN-villa, það er „bilun í notanda.“ Þegar viðkomandi er svo bent á þessi einföldu litlu mistök sín þá kemur rúsínan: „Já, en þetta er samt drasl!“ Því viðkomandi getur ekki viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér og í raun haft sig að fífli með rausi um hvað hluturinn sé lélegur þegar það var í raun bara hann sem var vitlaus. Svo strunsar viðkomandi út.

En þessi hegðun einskorðast ekki við nokkra skapstygga eldri karla. Þetta er í okkur öllum, í einhverjum mæli. Við æðum kannski ekki brjáluð inn í verslun, en þegar brotið er á rétti okkar eða við teljum að svo sé, þá leyfum við reiðinni stundum að taka stjórnina. Flautum á fávitana í umferðinni, til dæmis. Við mætum tilbúin með svör ef við höldum að einhver muni setja út á okkur. Við þurfum að halda andliti.

Ég man eftir einni sögu af mér sjálfum sem lýsir þessu vel. Fyrir nokkrum árum var ég að leita að stæði við Höfðabakka og þar var bara eitt stæði laust. Vandamálið var að bíllinn í stæðinu við hliðina var svo illa lagður að hann var hálfur inn í stæðinu sem var laust. En þar sem ekkert annað stæði var í augsýn þá ákvað ég að reyna að troða mér inn í þetta stæði og komast út úr bílnum. Þessi aðgerð heppnaðist og ég náði að koma mér inn. Ég hugsaði með mér að sá sem lagði svona illa gæti bara farið inn farþegamegin og troðið sér yfir í bílstjórasætið til að komast burtu, því nóg var plássið þeim megin við bílinn. Að svo búnu fór ég inn í húsið og upp á 6. hæð, þangað sem ég átti erindi. Þegar ég sat þar í fundarherbergi hringdi hjá mér síminn. Þar kynnti sig maður frá bílaleigunni sem sem átti bílinn. „Sæll, getur verið að þú sért staddur á Höfðabakka?“ spurði maðurinn og ég fann hvernig pirringurinn fór af stað inn í mér. „Já, ég er það,” svaraði ég. „Það hringdi í mig maður í vandræðum með að komast inn í bílinn sinn og spyr hvort það sé möguleiki að þú færir þig svo hann komist inn í bílinn.” Ég svaraði með þjósti: „Hann hefði þá kannski átt að leggja betur en ekki vera hálfur inn á stæðinu við liðina,” sagði ég og ætlaði bara að sitja kyrr og láta hann finna fyrir því úti á stæðinu. „Ég veit nú ekkert um það en hann hringdi bara hér í vandræðum,“ svaraði maðurinn frá bílaleigunni.
Ég ákvað að sitja kyrr og klára það sem ég var að gera og fara svo niður, hann það skilið fyrir að leggja svona eins og ansi og taka tvö stæði. Á leðinni niður undirbjó ég mig undir það sem koma skyldi þegar maðurðinn myndi láta mig heyra það fyrir að loka sig úti úr bílnum. Ég myndi segja. „Þú lagðir svona illa og þá geturðu bara farið inn farþegamegin og klifrað yfir. Af hverju er það mitt vandamál að þú kunnir ekki að leggja?”
Þegar ég gekk að bílnum fann ég hvernig hjartslátturinn jókst og ég varð betur og betur tilbúinn í rifrildið sem var að koma. Ég sá mannin standa fyrir framan bílinn sinn og horfa í áttina að mér. Þetta var mjög breiður maður og þegar ég nálgaðsiðst spurði ég hvort hann væri sá sem kæmist ekki inn í bílinn sinn. „Já, ég er maðurinn. Fyrirgefðu hvað ég lagði eins og asni. Þetta er allt mér að kenna. Ég er líka svo feitur að ég næ ekki að fara inn farþegamegin og klifra yfir. Annars hefði ég bara gert það. En því miður gat ég það ekki. Ég vona að ég hafi ekki truflað þig of mikið. Ef þú gætir bakkað út, þá gæti ég farið.“ Ég stóð og hofði á hann í smá stund og allt sem ég hafði undirbúið í huganum varð að engu. Ég fékk ekki að rífast, eins tilbúinn og ég var. Rifrildið var tekið af mér. „Já, ekkert mál,“ svaraði ég og færði bílinn. Ég náði að setja smá pirring og lítilsvirðingu í málróminn svo ég fengi eitthvað út úr þessu.
En þegar ég var að bakka bílnum mínum úr stæðinu hugsaði ég með mér: „Hvaða fáviti er ég að byggja upp alla þessa spennu og eyða orku í eitthvað sem ekkert varð. Af hverju varð ég núna allt í einu pirraður yfir því að fá ekki rifrildið sem ég hafði samt engan áhuga á?“
Ég vinn við samskipti og er stöðugt að hjálpa fólki hvernig best er að haga samskiptum á alla vegu. Oft þegar stjórnendur eru í krísu þá hjálpa ég við að hafa samskiptin yfirveguð og skipuleg til að risaeðluheilinn yfirtaki ekki aðstæður og eyðileggi, í stað þess að laga. Því þegar risaeðluheilinn okkar tekur við stjórninni þá búum við til spíral vondra samskipta sem aldrei enda vel. Samt féll ég í þessa gildru, sem enginn lagði fyrir mig nema ég sjálfur. En sá sem lagði bílnum sínum svona illa afvopnaði mig með besta vopninu í vopnabúri samskiptanna. Hann tók sökina á sig og baðst afsökunar. Hann kyngdi stolti sínu til að ná sínum markmiðum. Hann þurfti bara að komast inn í bílinn sinn.

Til að ná samkomulagi um hvað sem er, þá er það alltaf kostur að setja egóið til hliðar. Ef það er ekki hægt þá er alltaf hætta á því að það þvælist fyrir og samkomulag náist ekki þó svo að báðir aðilar kunni að hafa verulegan hag af því. Eingöngu vegna þess að þverir einstaklingar þurfa að halda andliti. Eftir að hafa fylgst með núverandi kjaradeilu eins og boxkeppni í beinni, þá fór ég að velta þessu fyrir mér.


Er ferðaþjónustan bara fyrir láglaunafólk?

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við HÍ og fráfarandi meðlimur í peningastefnunefnd, skrifaði nýverið grein þar sem hann segir að ferðaþjónustan sé láglaunagrein í hálaunalandi og að það sé dæmi sem gangi ekki upp. Einnig heldur hann því fram að ferðaþjónustan sé góð aukagrein, góð byggðastefna en afleit grein til að búa til verðmæt störf og lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni.

Ég rak upp stór augu þegar ég las þessa grein Gylfa.

Ég hugsaði: Hvað er maðurinn að meina? Er hann að hugsa svo þröngt að ferðaþjónusta skapi eingöngu störf við að flytja fólk, hýsa það og gefa því að borða? Eins og ef við myndum skoða sjávarútveginn eingöngu út frá því að veiða fiskinn og vinna hann, eða háskólasamfélagið eingöngu út frá þeim sem kenna og þeim sem læra. En þó maður skoði ferðaþjónustuna svona þröngt eins og mér sýnist hann gera, þá held ég að maður sjái strax að störfin í greininni veiti blandaðar tekjur, frá lágum launum upp í mjög há laun.

Það er hægt að setja sér hvaða forsendur sem er og skrifa rökfærslur út frá því og komast að niðurstöðu í samræmi við þær, en það þýðir ekki að maður hafi rétt fyrir sér. Stór atvinnugrein er innspýting inn í allt atvinnulífið og í kringum grein eins og ferðaþjónustuna spretta ótrúlegustu greinar aðrar sem sannarlega skapa hálaunastörf og það sem mikilvægast er; draumastörf.

Í kringum ferðaþjónustuna hafa þannig skapast mikil tækifæri í hugbúnaðargerð, auglýsinga- og markaðsvinnu, nýsköpun í afþreyingu, nýsköpun í veitingaþjónustu, fjölbreyttari tækifæri fyrir menningu og fræðistörf eins og sagnfræði, mannfræði og jarðfræði. Og þarna tel ég bara upp það sem mér dettur í hug í fljótu bragði.

Gylfi telur að ferðaþjónusta sé góð byggðastefna. Þar erum við algjörlega sammála enda eru loksins orðin til störf í mörgum byggðarlögum sem ekki ganga út á sjávarútveg eða landbúnað, auk opinberra starfa og þjónustu við það fólk og þau fyrirtæki sem starfar við þær greinar.
Störf í mörgum byggðarlögum voru mjög einhæf áður. Með ferðafólkinu hefur skapast tækifæri til að gera menningu, afþreyingu og veitingamennsku að fyrirmyndaratvinnugreinum í þessum byggðarlögum. Um allt land hafa orðið til störf sem eru draumastörf hjá mörgu ungu fólki, sem annars hefði aldrei haft áhuga á að búa á viðkomandi stað. Þannig hafa til dæmis skotið upp kollinum ótalmörg sprotafyrirtæki í matvælaframleiðslu og bjórgerð um allt land. Þessi fyrirtæki hefðu aldrei hefðu litið dagsins ljós án ferðamennskunnar.

Ég er algjörlega ósammála Gylfa í þeirri nálgun hans að skoða ekki allar þær hliðargreinar sem blómstra vegna tækifæranna sem ferðaþjónustan hefur fært okkur. Stór hluti þeirra sem vinnur við vefmál og alls kyns hugbúnaðargerð vinnur til að mynda beint fyrir ferðaþjónustuna og annar stór hluti vinnur óbeint fyrir hana. Kvikmyndageirinn, sem hefur blómstrað undanfarin 15–20 ár með ótrúlegum árangri, gæti það ekki nema vegna innviðanna sem orðið hafa til þökk sé uppbyggingu í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustyrirtækin eru mjög fyrirferðamikil í markaðssetningu á erlendri grundu. Við það hefur byggst upp þekking innan fjölda markaðs- og auglýsingafyrirtækja í alþjóðlegri markaðssetningu, sem hafa síðar farið að selja sínar lausnir á alþjóðlegum markaði. Og nú eru afþreyingafyriræki sem spruttu fyrst upp sem nýsköpunarfyriræki á íslenskum markaði fyrir erlenda ferðamenn byrjuð að flytja út sínar hugmyndir, tæknilausnir og þekkingu til annarra landa og búa þannig til mikil verðmæti.

Til dæmis fyrirtækið sem ég vinn fyrir, Pipar\TBWA, og dótturfyrirtæki þess The Engine eiga mikið undir ferðaþjónustunni. The Engine byggði upp stóran hluta sinnar þekkingar í samstarfi við ferðaþjónustuna og nú erum við með skrifstofur í Reykjavík, Osló, Kaupmannahöfn og Budapest, ásamt því að við munum opna í Helsinki síðar á árinu. Án þekkingar og tækifæra sem ferðaþjónustan gaf okkur hefði slík uppbygging aldrei orðið. Nú í dag er ferðaþjónusta ekki eins stór hluti veltunnar og áður, en hún var grunnurinn sem skipti öllu máli fyrir okkur á sínum tíma.

Það sama gerðist í sjávarútveginum á árum áður. Sú atvinnugrein hefur byggt upp gríðalega tækniþekkingu og fræðavinnu sem hefur nú í tugi ára verið mjög fyrirferðamikil á alþjóðavettvangi, svo eftir því er tekið. Mörg af fremstu fyrirtækjum heims í tækniþjónustu fyrir sjávarútveg eru íslensk. Þessi þekking hefur svo þróast út fyrir sjávarútveginn og nú þjónusta íslensk tækni- og þekkingarfyrirtæki matvælaiðnaðinn um allan heim.

Hvergi í heiminum er sjávarútvegur og vinnsla sjávarafurða talin til hálaunagreina. En samt hefur sú atvinnugrein skapað gríðalegan fjölda hálauna- og þekkingarstarfa á Íslandi. Ef prófessor í hagfræði hefði skoðað sjávarútveginn árið 1985 með sömu gleraugum og Gylfi skoðar ferðaþjónustuna núna hefði inntakið verið: „Sjávarútvegur er góð aukagrein, góð byggðastefna en afleit grein til að búa til vermæt störf og lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni“.

Snilldin er að þegar grein með mikið af láglaunastörfum er í hálaunalandi, þá kemur einmitt hugvitið til skjalanna og finnur lausnir á því. Þess vegna þróaðist öll þessi tækniþekking í sjávarútvegi til að leysa það vandamál og störfin breyttust og þróuðust. Sú tækni og þekking varð síðar verðmæt um allan heim.

Ég hef eina bón til þín Gylfi, ef þú lest þetta: Að þú beitir þér fyrir rannsókn hjá Háskóla Íslands á því hversu mikil verðmæti ferðaþjónustan hefur í afleiddum störfum í íslensku samfélagi. Og hve hátt hlutfall þeirra eru þekkingar- og/eða hálaunastörf. Ég hlakka til að mæta á fyrirlestur um það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband