Ekki skrítið að fólk verði reitt

Margir hlutir hafa áhrif á líðan fólks en fjárhagslegar áhyggjur og óöryggi í fjálmálum ristir þar mjög djúpt. Bæði getur fólk orðið dofið og langþreytt, sem hefur áhrif á getu þeirra til að koma sér út úr aðstæðunum eða þá að fólk fær aukna orku til að gera eitthvað í málunum – og svo er það reiðin í báðum tilfellum.

Ég hef gaman að því að tala við ungt fólk. Þannig fær maður orku en líka skilning á því hvernig er að vera ungur í dag. Það er ekki eins og þegar ég var á sama aldri. Við afarnir ólumst upp í annari veröld. En margt er samt eins og meðal annars hversu erfitt er að eignast húsnæði, að lifa þá fjárfestingu af fjárhagslega og ekki síður andlega. Þegar við hjónin vorum að byggja vann maður tvöfalda vinnu og svo í húsinu eftir kl 22:00 á kvöldin. Eftir að við náðum að flytja inn tók það 2-3 ár þar til ég gat horft á verkfæri án þess að líða illa.

Ég man að þegar við Silja konan mín vorum að koma okkur upp okkar fyrstu íbúð þá var það mög erfitt. Vextir voru mjög háir og vanskilin söfnuðust upp. Greiðsluseðlar og reikningar hengu í klemmu á ísskápnum, bunkinn stækkaði og ég varð stöðugt stressaðari. En svo komur vaxtabætur í ágúst, ásamt barnabótum fjórum sinnum á ári. Þá var hægt að losa um vanskilin og svo koll af kolli. Smám saman batnaði okkar staða. Tekjurnar hækkuðu, börnin stækkuðu og við vorum komin í þá stöðu að við þurftum ekki lengur á bótunum að halda.

Sem betur fer er enn til kerfi á Íslandi til að jafna hlut þeirra sem eru að koma sér upp húsnæði og þeirra sem eru búnir að koma sér yfir þann hjalla. Einnig kerfi sem passar upp á að fólk með lægri tekjur og eignir eigi betri möguleika á að mæta þeim kostnaði sem fylgir því að ala upp börn. Vaxtabætur og barnabætur.

Ég var að tala við ungt fólk um daginn um það hvernig þetta væri í dag. Í stuttu máli þá brá mér við að heyra þær miklu breytingar sem orðið hafa bara á þessu ári. Hækkun á fasteignamati mun þurrka út stóran hluta af þeim sem eiga rétt á vaxtabótum.

Ef við tökum raundæmi: Ung kona sem ég ræddi við er einstæð móðir og er í Eflingu. Hún er með um 7 milljónir í árstekjur. Hún á íbúð og skuldar í henni 36,5 milljónir. Árið 2022 var fasteignamatið 42.600.000,- og fékk hún vaxtabætur sem voru 44.746. Það var í lágvaxtaumhverfi, í vöxtum eins og þeir eru í dag væri upphæðin mun hærri. Núna, árið 2023 er fasteignamatið orðið 50.500.000,- og fer því eignastofninn hennar úr því að vera 6,1 milljón í 14,6 milljónir sem er hátt í 140% hækkun. Það ættu að vera góðar fréttir en þetta nýtist henni ekki neitt fyrr en hún hugsanlega selur íbúðina síðar. Vextir eru mun hærri og greiðslubyrði hennar hefur farið úr kr. 150.000 í kr. 218.000 á mánuði, en vaxtabæturnar fóru niður í núll. Þannig situr hún uppi með hærri vaxtabyrði og greiðslubyrði, en enga hjálp á móti vaxtabyrðinni eins og áður, sem var þó mun lægri. Ef fasteignamatið hefði ekki hækkað þá hefði þessi manneskja fengið kr. 430.000 í vaxtabætur. Þá hefðu bæturnar hjálpaði verulega til í þessu vaxtaumhverfi.

Á sama tíma og þessi gríðalega hækkun fasteignamats á sér stað breytast skerðingarmörk fyrir vaxtabótum frá því að neðri mörkin voru 5 milljónir og fara í 7,5 milljónir og efri mörk úr 8 milljónum í 12 milljónir. Ef maður leikur sér með prósentureikning þá er þetta há prósentuhækkun og í takt við hækkun á fasteignamati. En málið er að fasteignamatið hækkar í krónum og allar þær krónur koma beint inn í eignastofninn. Svo ef fasteignamat á íbúð hækkar um 10 milljónir þá hækkar eingarstofninn um 10 milljónir. Fáir búa í íbúðum í Reykjavík sem hækkuðu um minna en 7 milljónir. Svo nánast allir eru að hækka það mikið í eignarstofni að vaxtabætur þeirra eru úr sögunni, á sama tíma og greiðslubyrði hækkar um allt að 50%.

Barnabætur og skerðingarreglur í kringum þær fylgja heldur ekki launaþróun svo stór hluti fólks sem fékk barnabætur í fyrra áekki rétt á þeim í ár, þó svo að launin þeirra í dag dugi skemur en launin fyrir ári síðan.

Ef við tökum þetta saman: Ráðstöfunartekjur eftir skatta og greiðslubyrði á mánuði. Einnig tökum við vaxtabætur og barnabætur og deilum þeim niður á mánuði:
 
                                           2022      2023       innkomubreyting
Útborguð laun                    435.000   465.000    +30.000
Vaxtabætur (deilt á mán).      3.729         0        -3.729
Barnabætur (deilt á mán)    27.156      26.048     -1.108
Greiðslubyrði láns               218.000   253.000    -35.000 
---------------------------------------------------------------------------
Til að lifa                          247.885   238.048       -9.837
 
Hún fær duglega launahækkun í kjölfar miðlunartillögunnar. En það dugar ekki fyrir þessu áfalli. Því raunverulega áfallið hefur lítið með kjarasamningana að gera. Það hefur með greiðslubyrði og skerðingar á bótum að gera. Svo ofan á það verðbólguna sem gerir það að verkum að verðmæti þessara 238.000 króna sem hún á til að lifa er 10% minna en raunverðmæti sömu upphæðar ári síðan. Því er þessi minnkun ráðstöfunartekna mun meiri en 9.837, sem samt er mjög mikið. Einnig má hafa í huga að greiðslubyrði lána var kr. 150.000 á mánuði árið 2021 og eingöngu greiddi hún í hálft ár. Samt dugar það til vaxtabóta sem hún fékk 2022.
 
Ef fasteignamat hefði ekki hækkað hefðu vaxtabætur í þessu háa vaxtastigi verið kr 430.000,- til greiðslu 2023, sem gerir kr. 35.833 á mánuði. Það hefði vegið á móti hækkun greiðsubyrðar og launahækkunin hefði ekki gufað upp. En nú hafa útborguð laun hækkað um kr. 30.000 en en samt hefur hún kr. 10.000 minna til að lifa í veröld þar sem allt kostar a.m.k. 10% meira.

Það er því ekki skrítið að fólk verði reitt. En hvernig á það að haga sér? Beita reiði sinni í næstu kosningum. En hvað eiga þau að kjósa í staðinn? Reykjavíkurborg er stjórnað af vinstri flokkum og þar virðist ekkert hugsað út í þetta. Ríkinu er stjórnað af vinstri og hægri sem virðist ekki heldur skilja þessar afleiðingar af breyttum veruleika. Sólveig Anna berst við atvinnurekendur til að ná til stjórnvalda. Með þessari aðgerð að hækka fasteignamat svo mikið án þess að taka tillit til þess að flestir fasteignaeigendur missi möguleika á vaxtabótum hefur allur kostnaðurinn við vaxtahækkunina verið færður yfir á skuldarann.

Nú mun stór hluti ungs fólks sjá við gerð skattskýrslu sinnar að það á ekki lengur rétt á vaxtabótum á sama tíma og það ræður varla við lánin sín eftir miklar vaxtahækkanir. Ég spái því að ef ekki verður leyst úr þessu verði næstu kjarasamningar mjög erfiðir og dýrir þjóðfélaginu. Mun dýrari en það myndi kosta að hækka skerðingarmörkin svo fólkið sem þarf á vaxtabótunum og barnabótunum sínum að halda fái þær.

Kredithirðir eða ekki?

Í síðasta pistli var ég að velta fyrir mér egói og hvernig það þvælist fyrir fólki í samskiptum. En það eru fleiri hliðar á peningnum. Til eru nokkrar gerðir af fólki; það er fólkið sem getur ekki tekið heiðurinn af neinu sem það gerir og finnst það bara vera fyrir í samfélaginu. Það er týpan sem oft er gert grín fyrir að byrja á að afsaka sig með orðum eins og fyrirgefið hvað þetta er nú lítið hjá mér…. eða ég veit að þetta er nú líklega einhver vitleysa en…

Svo er það manngerðin sem tekur heiðurinn af öllu og öllum. Þetta fólk byrjar allar setningar á ég var að… eða vegna þess að ég….. eða ég sagði allan tímann að…. Þessi manngerð er oft nefnd kredithirðir.

Svo er til fólk sem gefur öðrum heiður. Það hefur setningar á orðum eins og við vorum að….. og „hjá okkur…..“ eða „það er vegna þessa frábæra teymis sem….”. Það tekur sérstaklega fram ákveðna einstaklinga sem riðu baggamuninn í tilteknu verkefni. Þetta fólk stækkar aðra og sjálft sig í leiðinni.

Í stjórnun er sú týpa sem stækkar fólk í kringum sig og gefur fólki kredit fyrir sitt innlegg mun æskilegri en sú sem eignar sér heiðurinn og talar um sjála sig út í eitt. Persónulega hef ég margoft lent í þeim pytti að hefja setningar á Ég….. eða segja sérstaklega frá mínum þætti í verkefnum og gleyma af gefa fólki heiðurinn sem það á skilið. Það er mikill lærdómur að leggja egóið til hliðar og átta sig á styrknum sem felst í því að gefa öðrum sviðsljósið og passa sig á að muna eftir þætti annarra í því að hlutir gangi vel. Því það er sjaldnast þannig að verk gangi vel vegna eins einstaklings. Yfirleitt er niðurstaðan góð vegna samspils og aðkomu margra einstaklinga. Þess vegna er mikilvægt að muna eftir þeim sem leggja lóð sín á vogarskálarnar. Þannig aukast líkurnar á því að aukin gæði skapist í framtíðinni. Það er fátt eins svekkjandi og að vita sinn þátt í verkefni og heyra svo einvern tala opinberlega eða á fundi um verkefnið eins og hann eða hún hafi gert allt ein(n).

Fyrir mörgum árum var ég minntur all illilega á að ég væri á rangri leið, þegar Þráinn Steinsson á Bylgjunni uppnefndi mig Valli Gort en á þeim tíma var ég jafnan kallaður Valli Sport. Ég vil því nota tækifærið og þakka Þráni fyrir. Án þess hefði tekið mig lengri tíma að átta mig á hlutunum. Ekki það að ég hafi orðið fullkominn eftir uppnefnið. Það varð ég ekki og það er ég ekki enn og verð líklega aldrei. Einnig eru fleiri í gegnum tíðina sem hafa sem betur fer verið hreinskilnir og bent mér á ef ég hef verið of sjálfhverfur. Enn á ég það til að gleyma mér og þarf því reglulega að minna mig á að ég er bara hluti af stóru mengi. 

Að sjá Ástráð Haraldsson, settan ríkissáttasemjara, kyssa Heimi Pétursson fréttamann fyrir hans innlegg í að sættir náðust í deilu Eflingar og SA er klárt merki um hversu stór einstaklingur Ástráður er. Vel gert.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband