Reiði fólks í hlutfalli við stýrivexti

Ég hef verið hugsi yfir reiði fólks í samfélaginu undanfarið og því hve orðræðan verður sífellt harðari og harðari. Fyrir nokkrum árum voru nettröllin nokkur og þau röfluðu út í eitt og enginn hafði miklar áhyggjur af því. Þetta fólk dæmdi sig bara sjálft. En núna virðist stór hluti þjóðarinnar hafa breyst í einhvers konar nettröll. Það eru góðu nettröllin og vondu nettröllin. Þau góðu hika ekki við að drulla yfir fólk sem ekki er á sömu skoðun og það og þau vondu smætta minnihlutahópa. Eftir stendur þögla miðjan sem fer minnkandi. 

Ég átti spjall við rafvirkja sem viðraði áhyggjur sínar af þessu og hann hélt því fram að með því að fjölmiðlar hafi sameinast góðu nettröllunum sé verið að sameina ölll vondu nettröllin í reiði og fjölga þeim. Við þetta æsast góðu nettröllin enn meira upp og þá erum við komin með pólaríseringu sem sé hættuleg. Þetta þótti mér áhugaverð og góð skýring. Eiginlega ágætis lýsing á því sem er að gerast í Bandaríkjunum þar sem gjá myndaðist á milli valdhafa/fjölmiðla og stórs hluta almennings sem ákvað þá að maður eins og Trump væri góð hugmynd.

En svo átti ég spjall við Mörtu Maríu sem oft hefur verið mjög nösk á að taka hitastigið á samfélaginu. Hún var með þá kenningu að stýrivextir hafi valdið því að fólk hafi ekki haft efni á „fixinu“ sínu. Þetta þótti mér áhugavert. Því við erum flest einhvers konar fíklar. Fíkn okkar getur verið Tene-ferð tvisvar á ári. Kaupa skó reglulega. Eða kaupa fallega hluti fyrir heimilið og setja mynd á Instagram. Eða endurnýja bílinn á 2ja ára fresti, nú eða bara fara reglulega á gott fyllerí. Hjá mér er „fixið“ að hreyfa mig. En þegar fólk verður þunglynt yfir því að eiga ekki fyrir afborgunum af húsinu sínu er erfitt að skreppa bara í ræktina og vera hress. Það þekki ég frá því í 90´s þegar ég var í slíkri stöðu. Hver hefur sitt „fix“.

Það er nefnilega þannig að þegar „fixið“ er tekið af okkur, sama hvað það er, þá byggist upp pirringur og á endanum brjálumst við. Og þegar fíkillinn brjálast þá veit hann ekki alveg af hverju hann er brjálaður. Hann veit bara að hann er brjálaður og að það er glatað að vera brjálaður út í ekki neitt. Þess vegna þarf maður að finna eitthvað til að verða brjálaður út í. Þar liggur hundurinn grafinn. Allir fíklar sem eru með uppsafnaðan pirring yfir því að fá ekki „fixið“ sitt gera annað af þessu tvennu: Fara á AA fund til að ná spennunni út eða finna eitthvað til að rífast yfir til að réttlæta reiðina og síðan að detta í það. Og við sem fáum ekki fixið okkar en teljum okkur ekki fíkla við höfum engan stað til að losa út spennuna og lyklaborðskast á netinu er ein leið.

Nú er því netið fullt af reiðu fólki sem í mörgum tilfellum áttar sig ekki á hvaðan reiðin kemur. Vandamálið er oft bara að það hefur ekki efni á „fixinu“ sínu, áhyggjur af vanskilum, minnkandi kaupmáttur. Það finnur því reiðinni útrás á lyklaborðinu og hendist út á stafrænan vígvöll til að berjast og fá útrás fyrir uppsafnaða reiði. Þetta magnast svo upp og áður en við vitum af geisar stríð á netinu.

Svo erum við með bergmálshellana sem efla fólk enn frekar í að segja hvað sem er því þar virðast allir vera sammála. Þá fær fólk kjark til að segja sínar skoðanir opinberlega þó svo að það sé að segja hluti um aðra sem það myndi aldei segja með viðkomandi viðstadda í raunheimum.

Til viðbótar vorum við öll mikið heima og í netheimum í tvö ár og margir hafa haldið áfram að lifa meira í netheimum en raunheimum eftir það. Þarna hætti fólk að tilheyra fjölbreyttum hópum og fór að tilheyra sér líkara fólki og þeir sem hafa aðrar skoðanir eru bara óvinir þínir. Það er okkur nefnilega svo mikilvægt að tilheyra. 

Hvað er til ráða? Fyrir einstaklinginn sem er reiður gæti verið hugmynd að hugsa fyrst og pikka svo. Eða byrja í jóga, hreyfa sig, fara niður í fjöru og öskra. Taka sér frí á samfélagsmiðlum eða hugsa þegar maður sér einhvern segja einhverja vitleysu. Hugsanlega líður þessum einstaklingi bara illa og þessvegna er þessi fullyrðing svona hart orðuð. Svo þurfum við að muna að það er ekkert rifrildi nema a.m.k. tveir rífist og að það þarf ekki að svara öllum nettröllum. Því ef við gerum það ekki þá verða þau að steini og gleymast.


Vald fjölmiðla

Ég hef verið hugsi yfir því hvernig fjölmiðlar hafa talað um Söngvakeppnina síðustu viku. Allar fréttir hafa snúist um kosningaklúður, reiði á samfélagsmiðlum og að Ísland sé í „frjálsu falli“ í veðbönkum. Rasisma í garð Bashar og árásir á Heru Björk.

Enginn fjölmiðill hefur skrifað um að kona á sextugsaldri hafi verið að vinna Söngvakeppnina og sé á leiðinni að syngja á stærsta sjónvarpsviðburði veraldar. Þar sem hún er ekki að fara að syngja gamaldags ballöðu, hún er að fara að syngja danspopp. En konur verða gjarnan fyrir meiri aldursfordómum en karlar.

Enginn minnist á hversu merkilegt það sé að ung poppstjarna eins og Ásdís ákveði að Hera Björk sé rétta manneskjan til að skila laginu til áhorfenda og enginn minnist á það hvernig Hera skein skært á sviðinu í þessari erfiðu baráttu undir erfiðum kringumstæðum þar sem tæknimistök urðu í lokaflutningnum.

Enginn fjölmiðill virðist velta því fyrir sér að fólk hafi kosið hana vegna þess að hún gerði þetta frábærlega og sýndi að hún á eftir að gera okkur stolt enn eitt skiptið. Ekki heldur er skrifað um að ferill Heru Bjarkar er að taka nýjar hæðir svo seint á ævinni.

Ferill hennar hófst fyrir alvöru um fertugt þegar hún steig út úr bakröddum á stóra sviðinu árið 2009 þar sem hún keppti í dönsku undankeppni Eurovision og lenti í 2. sæti með lagið Someday. Ári síðar keppti hún svo fyrir hönd Íslands í rauðum kjól sem allir muna eftir. Síðan þá hefur hún farið um allan heim að syngja, sigrað stærstu söngvakeppni Suður-Ameríku og nú hefst enn einn nýr kafli.

Ég er að vísu ekki að segja satt og rétt frá, því einn fjölmiðill hefur gert þetta. Sá óvæntasti af þeim öllum. Það var fótboltaþátturinn Dr. Football sem valdi Heru sem mann vikunnar fyrir að „valdefla allar eldri konur landsins með þau skilaboð að allt sé hægt“.

Það vekur líka furðu mína að hinir keppendur úrslitanna fá heldur ekki umfjöllun um hvað þau stóðu sig vel. Ungu bræðurnir í VÆB eru stórkostlegar nýjar stjörnur með orku sem ekki oft hefur komið á sjónarsviðið, Sigga Ózk stórglæsileg með frábært lag eftir sig sjálfa og mætt í úrslit svo ung, annað árið í röð, og svo Aníta sem er nýfarin að syngja og kemur fram eins og Beyoncé á sviðinu full af orku. Meira að segja Bashar hefur bara fengið umfjöllun um það að hann hafi orðið fyrir rasima (sem er hræðilegt) en ekki hvað hann stóð sig vel og hveru skemmtilegur hann var þegar hann tók Rólegur kúreki með Einari Stefánssyni. Hversu hæfileikaríkur þessi maður er og hve heppin við erum að hafa fengið að kynnast honum í þessari keppni.

Það er eitt að fólk á samfélagsmiðlum taki afstöðu. Haldi með sínum og missi sig í lyklaborðskasti og dónaskap á netinu. En þegar fjölmiðlar sveiflast með með stórorðum yfirlýsingum og gleyma hlutverki sínu, þá er erfitt að ætlast til þess að umræðan á netinu verði viturleg. Því fólk veit að umræða á netinu er ábyrgðarlaus en það telur að fjölmiðlar séu ábyrgir og tekur það sem þar stendur trúanlegt og rétt.Ef enginn bendir á það sem er jákvætt og fallegt þá verður allt ljótt. Því „perception is reality“.

Þegar ég var ungur fjölmiðlamaður fór ég ekki alltaf vel með það vald sem fjölmiðlafólki er gefið. Svo fékk ég símtal frá konu sem tók mig á beinið í símanum yfir því hversu illa ég hafði farið með vald mitt sem fjölmiðlamaður. Ég byrjaði eins og allir hrokafullir ungir menn á því að réttlæta það sem ég gerði með því hversu vinsælt það var. En eftir nokkra umhugsun áttaði ég mig á því að ég var að skekkja raunveruleikann og valda skaða. Á þeim árum þegar ég rak fjölmiðla brýndi ég því ávallt fyrir þeim sem þar unnu að misnota ekki vald fjölmiðlanna og sýna öllum virðingu.

Ég skora á fjölmiðla núna, þegar rykið er fallið eftir ofsakeppni og dónaskap á samfélagsmiðlum um hver ætti að fara fyrir Ísland í Eurovision, að skoða niðurstöðuna með nýjum gleraugum. Gæti verið að það sé í þessu einhver önnur frétt en hefur verið að birtast? Er á ferðinni fallegt ævintýri sem skemmtilegt væri að fylgjast með þar sem drottning Eurovision er snúin aftur 14 árum síðar til að hrífa Evrópu með sér.

Höfundur er ekki hlutlaus og hefur ferðast með Heru um allan heim frá því 2010.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband