Að pissa eins og maður meini það

Flesta fimmtudagsmorgna í Pipar\TBWA eru fyrirlestrar um eitthvað áhugavert. Stundum eitthvað sem við erum að vinna að og stundum koma utanaðkomandi fyrirlestrar um áhugaverð umræðuefni. Þegar ég er staddur á Íslandi reyni ég að ná þessum fyrirlestramorgnum. Um daginn var þar fyrirlestur um breytingaskeið kvenna. Ég hlustaði af áhuga enda erum ég og Silja konan mín á þeim aldri að þetta umræðuefni kemur okkur talsvert við. Fyrirlesturinn var góður og varpaði betri sýn og skilningi á margt. T.d. skil ég núna að breytingaskeið kvenna hefst ekki við það að konur hætti á blæðingum. Það hefst mun fyrr.

Einnig var þar minnst á breytingaskeið karla sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Ég var því forvitinn og spurði meira út í það. Fyrirlesarinn sagðist einungis sérfræðingur í breytingaskeiði kvenna og henni vitandi væri ekki til sérfræðingur á Íslandi um breytingaskeið karla.

Ég fór þá að kynna mér málið sjálfur, því margt í mínu lífi hefur verið að breytast og ég vildi skilja þær breytingar betur.

„Breytingaskeið karla“ eða „Andropause“ er hugtak sem lýsir aldurstengdri minnkun testósteróns í karlmönnum. Líkami karla, sem eru fæddir karlar (MAAB), getur byrjað að upplifa breytingar í hormónastyrk yfirleitt eftir 50 ára aldur, þar sem testósterón-framleiðsla minnkar. Breytingaskeiðið er breyting á hormónaframleiðslu. Minni testósterón-framleiðsla getur haft alls kyns afleiðingar. Sú framleiðsla er mismunandi milli manna, hjá þeim sem hún helst betur hjá og lengur hefur hún áhrif á orkustig, getu í íþróttum og í svefnherberginu en getur líka haft afleiðingar á öðrum sviðum. 

Þetta er fyrsta greinin þar sem ég velti fyrir mér breytingaskeiði karla og hvernig það kemur við mig sem einstakling. Ástæðan er sú að það sem ég ætla að ræða hér er eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt neinn tala um en þegar ég fann fyrir hlutunum og byrjaði að ræða það við fólk, þá virtist mér ótalmargir kannast við svipaða hluti en halda þeim fyrir sig. Ég trúi því að með því að ræða hluti þá líði okkur betur. Breytingaskeyð karla er umdeilt fyrirbæri og á engan hátt samræmanlegt við breytingaskeið kvenna ásamt því að það fyrsta sem ég ræði er ekki beint tengt breytingaskeiðinu í læknisfræðilegum skilningi.

Blöðruhálskirtill stækkar stöðugt með aldrinum og testósterón-framleiðsla og erfðir hafa áhrif á stækkunina. 50% karla yfir 50 ára eru með einhvers konar vandamál í blöðruhálskirtli. Ég hef vitað í talsverðan tíma að ég sé með stækkun í blöðruhálskirtli sem hefur verið þreifað á reglulega. Fyrir talsverðu síðan var ég farinn að taka eftir því að ég pissaði oftar og minna í einu. Einnig var bunan orðin slappari. Þessar breytingar gerast hægt svo maður tekur ekki eftir þeim fyrr en allt í einu að maður áttar sig. Sonur minn segir reglulega við son sinn að það eigi að pissa eins og maður meini það. Ég var hættur að geta pissað eins og ég meinti það. Svo gerðist það síðasta sumar að ég vaknaði með mikinn verk og alveg í spreng. En sama hvað ég reyndi, þá gat ég ekki pissað nema nokkrum dropum. Við vorum á leið norður í Hrísey þennan dag og þurfti ég að byrja daginn á því að athuga með að komast að á heilsugæslu. Það var ekki hægt fyrr en eftir nokkra daga. Ég fór því á bráðamóttökuna en þar var nokkurra klukkustunda bið. Mér datt þá það snjallræði í hug að keyra bara norður og fara á heilsugæsluna á Dalvík. Bíltúrinn var verulega erfiður. Þegar þangað var komið hitti ég lækni sem tók blóðprufu og þvagprufu. Ég var síðan sendur í ómskoðun á sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar var ég rannsakaður og ákveðið var að prufa lyfið Tamsulosin. Ef það virkaði þá væri ljóst hvað væri að. Innan við 30 mínútum frá inntöku lyfsins gat ég pissað nokkurn veginn eðlilega að mér fannst. Þvílíkur léttir. Nokkrum dögum síðar fékk ég símtal um að PSA-gildi mín væru í lagi svo ekki var um krabbamein að ræða en að ég þyrfti að hitta þvagfærasérfræðing.

Í kjölfarið fékk ég tíma hjá þvagfæraskurðlækni sem tók mig í frekari rannsókn. Læknirinn var ekki eins ánægður og ég með bununa mína og tæminguna. Hann útskýrði fyrir mér að stækkunin á blöðruhálskirtlinum þrengdi að þvagrásinni og að lyfið sem hjálpaði mér að opna fyrir dygði bara til að losa smáhluta og að það væru að staðaldri um 350 ml í blöðrunni. Við ákváðum að sjá hvort hægt væri að hægja á þessu ferli og ná að tæma meira og hélt ég því áfram á lyfinu þar til það gerði ekki lengur sitt gagn.

Ég flýg mikið vegna vinnunnar og þetta hefur verið einstaklega bagalegt því þrýstingsbreytingarnar auka á vanlíðan. Á tímabili var ég að pissa u.þ.b. fimm sinnum í flugferð sem tekur um 2,5 tíma. Eftir flug var ég svo nokkra daga með mikla erfiðleika. Eftir þrjá mánuði ákváðum við að auka skammtinn upp í tvær töflur sem bætti stöðuna talsvert. Aukaverkun með því var svimi til að byrja með sem svo hætti ásamt því að sáðvökvi varð nánast enginn.

Svo kom að því að tvær töflur á dag hjálpuðu ekki lengur. Einnig ef ég gleymdi mér og tók pillurnar seinnipart í stað þess að gera það um morgun, þá gat tekið nokkra daga á ná takti aftur. Læknirinn minn gaf mér þá nokkra kosti: 1) að halda áfram svona þar til ég gæti ekki meir og taka þá ákvörðun. 2) að minnka testósterón-framleiðslu líkamans og þar með stækkun kirtilsins. 3) möguleika um þrjár mismunandi tegundir af aðgerðum.

Sú aðgerð sem ég valdi er leiseraðgerð þar sem skorið er innan úr kirtlinum til að auka rýmið fyrir þvagrásina. Fylgikvillar sem geta fylgt slíkri aðgerð eru þvagleki og risvandamál. Einnig að eftirleiðis færi sáðvökvi í þvagblöðruna og kæmi eftir það út með þvagi. Vegna þess að ég er frekar ungur og hraustur (m.v. að þurfa þessa aðgerð) þá voru líkur á fylgikvillum aðeins um 20%. En það er samt talsvert. En að geta ekki pissað er líka hræðileg líðan. Einnig spurði ég um þann möguleika að halda áfram á lyfinu og fara seinna í aðgerð. Niðurstaðan: Ég myndi hugsanlega geta haldið áfram í 5–10 ár en þyrfti þá að fara í aðgerð. Þá hefðu líkur á fylgikvillum eftir aðgerðina aukist verulega. Ég ákvað því að drífa í þessu og byrjaði að gera grindarbotnsæfingar á fullu.

Ég fór í aðgerðina á föstudegi og var með þvaglegg fram á þriðjudag. Það var mikið ævintýri að pissa aftur á eðlilegan hátt eftir að þvagleggurinn var tekinn. Það svíður svakalega og maður verður talsvert smeykur við það til að byrja með. En einu hafði ég gleymt. Það var tilfinning sem ég hafði ekki fundið í mörg ár. Tilfinningin þegar maður tæmir þvagblöðruna algjörlega. Hún er góð.

Mjög fljótlega kom í ljós að fylgikvilli er varðar risvandamál var ekki til staðar. En um mánuði eftir aðgerð hófst þvagleki. Það er mjög óþægilegt að finna fyrir að það dropi hjá manni í buxurnar. Ég þurfti því að fara í apótek í Noregi og fá innlegg fyrir karlmenn. Það var ekki í hillu frammi og þurfti ég að útskýra fyrir apótekaranum hvað ég þyrfti. Út gekk ég með innlegg í laginu eins og pungbindi og er límt er inn í nærbuxurnar. Í kjölfarið tók við mikil vinna við að ná tökum á grindarbotnsvöðvanum til að loka almennilega fyrir til að losna úr þessari vanlíðan. Á nokkrum dögum náði ég aftur stjórn og gat hætt að nota innleggið.

Það sem gerist er að þegar þrengir svona mikið að þvagrásinni þá verður minna að gera hjá grindarbotnsvöðvanum sem slappast. Hin stöðuga spenna sem við lærum sem börn að hafa á lokun þvagrásarinnar er ekki lengur nauðsynleg og því slakar hann á. Maður þarf að læra upp á nýtt að halda þessari spennu og til að byrja með þarf að gera það meðvitað. Eitthvað sem maður hefur aldrei pælt í. Ég gekk með innlegg í nokkra daga á meðan þetta var að lagast.

Einnig lendir maður í einhverju sem kallast bráðapiss. Það virðist gerast þegar maður kemur heim, heyrir í vatni renna eða er í guðsgrænni náttúrunni. Þá þarf að hafa hraðann á. Um daginn var ég nýkominn úr flugi frá Bergen til Osló og frá lestarstöðinni er um 10 mínútna gangur heim. Þegar ég nálgaðist heimilið fór heilinn að hlakka til að losa um og tæma blöðruna en við það fór allt í gang og ég fékk bráðapisstilfinningu. Þegar u.þ.b. tvær mínútur voru eftir að heimilinu gat ég ekki haldið lengur og hljóp bak við vörubíl sem var í hliðargötu og lét fara. Þvílík buna og þvílíkur léttir. Ég þurfti því að vinna í þessum þætti, því ekki er hægt að hlaupa hvar sem er og láta gossa. Um tvær vikur hefur tekið núna að kenna líkamanum hver stjórnar. Það er ekki enn komið, en gengur vel. Mestu máli skiptir þó að ég var að koma frá lækninum þar sem var mælt hversu mikið var eftir í blöðrunni þegar ég var búinn að pissa. Niðurstaðan var: 0 ml.

 

 


Er heimurinn kominn á hvolf?

Hvað gerist þegar heimurinn fer á hvolf? Bandaríkin standa allt í einu fyrir eitthvað allt annað en þau hafa staðið fyrir. „Disruption“ er orðið sem hægt væri að nota á ensku yfir það sem er að gerast. Og það eru ekki bara Bandaríkin sem eru að breytast, þær breytingar hafa bara mest áhrif.

Það sem virðist gerast fyrst er að lækkanir verða á mörkuðum. Óróleiki er aldrei góður í viðskiptum. Óvissa er enn verri og nú fer óróleiki og óvissa saman, sem er yfirleitt mjög slæm blanda.

Fyrir okkur Íslendinga skiptir, held ég, mestu máli að halda ró okkar og muna að öskur á samfélagsmiðlum gerir ekkert. Getum við haft áhrif á það sem er að gerast? Eða þurfum við frekar að setja orkuna okkar í að velta fyrir okkur: Hvernig ætlum við að bregðst við þessum breytingum? Það er nefnilega þannig að aðlögunarhæfni og snöggt viðbragð er okkar helsti kostur. Heimurinn hefur oft farið á hvolf síðustu 100 ár og í hvert sinn hefur Ísland breyst á undrahraða. Einnig hefur það oft verið þannig að Ísland hefur grætt á slíku í alþjóðlegu samhengi.

Síldin kom og fór margsinnis á 20. öldinni. Alltaf aðlöguðum við okkur að því hvort hún var eða var ekki.

Eftir efnahagshrunið þá losnaði um mikið af mjög hæfileikaríku fólki úr bankageiranum sem þurfti að gera eitthvað nýtt. Þetta fólk hafði mikla reynslu úr fjárfestingum og af því að hugsa stórt. Á sama tíma var gengi gjaldmiðils okkar lágt og Eyjafjallajökull breytti flugsamgöngum í Evrópu. Ísland var í öllum fréttatímum og ekki fyrir það hvað hér er frábært að vera og fallegt. Nei, fyrir eldgos sem lokaði á allar flugleiðir og olli hræðslu fólks við landið. „I hate Iceland“, varð að þekktum frasa. Mitt í þessu ati þá er tekin sú ákvörðun að fjárfesta sérstaklega í ferðaþjónustu og vekja athygli á landinu alþjóðlega, Inspired by Iceland varð til og íslenska þjóðin sameinaðist um að senda myndband með laginu Jungle drum á alla sem þau þekktu erlendis. Ferðaþjónustufyrirtækin voru ótrúlega fljót að aðlagast auknu streymi fólks og mikil fjárfesting varð í ferðaþjónustu. Niðurstaðan: Ferðaþjónustan er núna sú atvinnugrein sem skaffar mestan gjaldeyri inn í landið og ný stoð varð til undir hagkerfi Íslands. Snöggt viðbragð, samstaða og aðlögunarhæfni þjóðarinnar gerði þetta að verkum.

Sama gerðist í og eftir Covid. Ég þurfti að ferðast talsvert á þeim tíma og hvergi í heiminum var jafn gott skipulag á því hvernig fólk færi í gegnum flugvöll eins og á Íslandi, fengi covid próf, niðurstöður og slíkt. Hagkerfið náði sér svo mjög hratt og fullhratt á meðan mörg hagkerfi voru mjög lengi að komast í gang og ferðamennskan hefur einnig í flestum löndum og ekki enn komist á sama stað og fyrir Covid.

Núna stöndum við frammi fyrir því að heimurinn er að snúast á hvolf. Þá höfum við valið um að væla eða gera. Við höfum sögulega verið meira í að gera en væla og því held ég að við getum verið viss um að Ísland mun finna leið til að aðlagast hratt. En mörg lönd munu lenda í mikilli kreppu þar sem viðskiptabreytingar verða miklar og aðlögunarhæfnin er lítil.

Fljótlega verðum við að hugsa hluti á allt annan hátt en fyrir nokkrum vikum. Það sem okkur þótti rétt þá er ekki endilega rétt lengur. Þeir sem voru vissir um að Evrópusambandið væri ekkert fyrir okkur þurfa hugsanlega að skipta um skoðun eða öfugt. Hugsanlega þurfa Evrópusinnar að endurhugsa hvort það sé rétta leiðin fyrir Ísland núna. En næstu vikur og mánuðir leiða í ljós hvort borgar sig. Að ná að sigla á milli skers og báru og nýta ástand viðskiptastríðsins og geta átt vini í báðar áttir eða hvort það borgar sig að halla sér algjörlega í aðra áttina. Mun ofuráhersla Bandaríkjanna á að komast yfir Grænland búa til einhver tækifæri fyrir Ísland með auknum umsvifum á Grænlandi? Mun nánara samstarf Grænlands og Íslands geta fært báðum þjóðum tækifæri sem verða verðmæti báðum megin Atlantshafs? Eða munum við þurfa að endurhugsa okkar helstu útflutningsgreinar og finna nýja lykilmarkaði? Hugsanlega í Austur-Asíu? Sama hvað verður, þá borgar sig að ana ekki að neinu fyrr en ljóst er hvernig hin nýja heimsmynd lítur út. Það mun líklega ekki taka nema nokkrar vikur í viðbót eins og hraðinn á þessu er núna. Á þeim tímapunkti er ljóst að hvað sem sagt var áður þá verður það líklega ekki viðeigandi þá og við þurfum að aðlagast hratt að nýjum veruleika. Sem betur fer fyrir Ísland er það einmitt það sem við, veiðimannaþjóðin, Íslendingar erum best í.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband