Að vera með sjálfum sér

Þar sem bý að hluta til í Oslo og vinn þar er ég oft einn á kvöldin. Silja konan mín, börnin og barnabörnin búa öll á Íslandi. Ég varð smám saman háðari símanum og iPad-inum. Í hvert sinn sem ég var einn í þögn, tók ég upp annaðhvort tækið og tékkaði hvort eitthvað hefði breyst á fréttamiðlunum, LinkedIn og Snapchat. Ég er sem betur fer ekki til á Facebook og Instagram og hef aldei verið. En venjulega hafði ekkert breyst frá því ég kíkti síðast, 2–3 mínútum fyrr. Ég setti á podcast eða fór í tölvuleik. Í flugi (ég flýg mikið) var ég kominn með mynd á skjáinn um leið og ég gat. Allt til að vera ekki einn með sjálfum mér í þögninni.

 

Ég hitt fyrir nokkrum árum Martin Lindstrom. Martin er einn mesti snillingur heimsins í markaðsrannsóknum og mannlegri hegðun. Hann var á Íslandi að halda fyrirlestur á vegum Jóns Gunnars Geirdal sem bauð okkur báðum í læri heim til mömmu sinnar. Við áttum saman kvöldstund þar sem við töluðum um margt og ég tók eftir því að hann var með gamlan Nokia takkasíma. Hann sagði að hann hefði fyrir löngu lagt snjallsímanum sínum þar sem öll sköpun hefði horfið um leið og hann fór að nota þannig tæki. Nú notar hann símann aðeins til að tala í. „Okkur verður að leiðast til að fá hugmyndir. Ef okkur leiðist aldrei, þá fáum við aldrei neinar hugmyndir,“ sagði hann og nú mörgum árum seinna áttaði ég mig á því að ég var orðinn smeykur við að láta mér leiðast.

Ég byrjaði að setja sjálfum mér mörk og venja mig af þessu. Allavega að hætta að kíkja endalaust á netið. Ég byrjaði á að hafa ekkert í eyrunum í strætó eða þegar ég var að labba eða hjóla í vinnuna (almenningssamgöngur eru mjög góðar í Oslo, sem er líklega efni í aðra grein). Strax við það þá byrjaði heilinn í mér að virka öðruvísi. Ég var einn með hugsunum mínum og hugmyndir byrjuðu að flæða. Ég meira að segja geng svo lagt hér í Oslo að ég er ekki með sjónvarp í íbúðinni, Silju til mikillar mæðu þegar hún kemur í heimsókn. En við þetta breyttist ansi margt. Ég byrjaði aftur að skrifa pistla og dægurlagatexta (svo má deila um hvort það hafi verið til góðs). Hugmyndir fyrir viðskiptavini Pipar\TBWA fæddust á öllum tímum og mér leið mun betur. Bara í göngutúr í gærkvöldi fæddust tvær góðar hugmyndir fyrir viðskiptavini og þennan pistil er ég að skrifa í flugvél í stað þess að horfa í þátt.

Á nokkrum vikum eftir breytingar, geng ég og hjóla enn meira þar sem sumarið er komið í Oslo. Það eru ansi margir aðrir úti að ganga í góða veðrinu og eflaust nokkrir eins og ég sem vilja ná af sér einu eða fleiri kílóum. Þá hef ég tekið eftir því að nánast allir sem ég mæti eru með eitthað í eyrunum, talandi við einhvern eða starandi á símann sinn. Það fékk mig til að hugsa um að líklega eru allir stöðugt að forðast sjálfan sig. Við kunnum ansi mörg ekki lengur að vera ein með hugsunum okkar. Við eru alltaf í stöðugu sambandi, sama hvar við erum eða hvað við erum að gera. Fólk keyrir á milli staða og hringir í einhvern á meðan. Það situr í strætó og talar við einhver á messanger og þeir sem enn reykja skreppa í smók og hringja í einhvern á meðan til að reykja ekki einir.

Nú síðustu viku hef ég mætt einni manneskju úti að ganga sem ekki var með neitt í eyrunum eða að nota símann sinn á einhvern hátt á meðan. Nema sú manneskja sé að ganga með einhverjum öðrum.

En er það svo leiðinlegt að vera einn með hugsunum sínum? Mín reynsla er sú að það er alls ekki þannig, en það getur verið óþægilegt að sitja einn innan um fullt af fólki sem er með í eyrunum og stara út í loftið. Það er líka miklu auðveldara að grípa í hækjuna sem síminn er og ná sér í smá fjarveru. Þó ekki nema í eina mínútu sem maður á óráðstafað. En ef maður hefur það af og lætur hugann reika, þá líða ekki nema nokkrar sekúndur áður en heilinn fer á flug og allt fjörið byrjar.


Ég vorkenni Einari?

 Ég hef nú í mörg ár fylgst með borginni okkar að sökkva dýpra og dýpra í skuldir, þjónustuna versna og verða óskipulegri. En ef þú heldur að hér sé á ferðinni enn ein pólistíska greinin um það hvað Dagur sé lélegur borgarstjóri og að skipta þurfi um meirihluta, þá verðurðu fyrir vonbrigðum,

 

 Að reka borg er ekkert smámál. Reykjavíkurborg, Landspítalinn og Icelandair eru þrír stærstu vinnustaðir Íslands. Borgin er flókinn vinnustaður með miklar áskoranir ásamt því að það er atvinnufólk til staðar í að benda á hvað fer úrskeiðis, þar sem pólitík virkar þannig. En ef við veltum fyrir okkur hvað hefur fólk eins og Dagur, Jón Gnarr, Ingibjörg Sólrún, Davíð Oddsson og fleiri góðir einstaklingar fram að færa sem forstjórar í svona stóru og flóknu fyrirtæki? Þau eru hvert um sig snillingar. Davíð Oddsson; lögfræðingur, með skýra sýn, ritsnillingur og húmoristi. Hann hefur mikinn sjarma og guð hjálpi þeim sem lendir upp á kannt við Davíð. Ingibjörg Sólrún; frábær í að svara fyrir sig og fékk fólk með sér í ferðalag sem enginn hefði trúað á án hennar og Sjálfstæðisflokkurinn var felldur eftir áratuga áskrift að borgarstjórastólnum. Jón Gnarr; hugsjónarmaður með skrítinn en einlægan sjarma. Hann hefur umfram alla stjórnmálamenn þann hæfileika að segja satt, þó það sé honum ekki til góðs. Hann svarar bara hlutum sem hann veit og segist ekki vita aðra hluti. Líklega það besta sem hann gerði var að hann lét fagfólkið um reksturinn og ákvarðanir aðrar en stefnumótandi ákvarðanir. Dagur; Læknir og algjör sjarmör og tungulipur með eindæmum. Hann er vinsamlegur og mjög sleipur í leiknum. Hann er eins og köttur nema með enn fleiri líf. Það má aldrei vanmeta Dag sem stjórnmálamann. En ekkert af þessu fólki eru sérfræðingar í rekstri, hvað þá að snúa við mjög erfiðum rekstri hjá stórfyrirtæki.

 Hversu mikill stjórnmálamaður og sjarmör sem Dagur er, þá er hann greinilega ekki góður rekstrarmaður. Enda er það að vera góður rekstrarmaður ekki endilega það mikilvægasta sem borgarstjóri þarf að hafa. En hann þarf þá að hafa sér við hlið góðan rekstrareinstakling til að vega það upp, það er nauðsynlegt. Einhvern sem gefur þér upplýsingar um hvað er hægt að gera og hvað ekki. Það er ekki bara hægt að elta drauma sína úr í bláinn og standa svo uppi með gjaldþrota borg og skilja ekkert í því hvað gerðist.

 Ef við hugsum málið aðeins betur. Icelandair var ekki í ósviptaðri stöðu í Covid faraldrinum og Reykjavíkurborg er nú í. Mikið tap og skuldir sem erfitt var að yfirstíga. Hefðu eitthvað af þessum miklu borgarstjórum sem ég taldi upp hér á undan verið ráðin sem forstjóri Icelandair á þeim tímapunkti? Væru þau með réttu reynsluna til að valda því starfi og bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti og snúa því við? Þið sem svöruðuð játandi í huganum eruð annað hvort að örga mér og öðrum eða jafn mikið draumórafólk og Dagur. Nei, það myndi aldrei gerast.

 Borg gengur ekki út á mjög marga hluti í grunninn. Þetta er okkar sameiginlegi rekstur og snýst um að hafa göturnar opnar, leikskólana í gangi, grunnskóla, sækja ruslið og vinna með það, hugsa um gamla fólkið og fatlaða. Svo þarf að skipuleggja og úthluta lóðum fyrir húsnæði og sjá um allskyns skráningar og skjölun. Svo er hægt að bæta við ýmsum verkefnum sem hver meirihluti setur oddinn hverju sinni. En grunninn tökum við aldrei í burtu. Hann verður að vera í lagi. Þetta er bara rekstur í rauninni. Rekstur á okkar sameiginlegu hlutum. Fólk getur haft skoðun á mikilvægisröðinni en þetta er samt bara rekstur. Í ríkismálum getur verið vinstri og hægri pólitík, en í borg er þetta aðallega bara rekstur.

 En hvernig snúum við rekstri sem tapar 15,6 milljörðum á einu ári? (En það var tap á rekstri borgarinnar árið 2022, sama hvaða umbúðum einhverjir reyna að pakka niðurstöðunni í. Aðrar tölur eru bara rekstrarárangur dótturfyrirtækja eins og Orkuveitunnar og fleirri.) Tapið er svo mikið og vaxtakostnaðurinn svo svakalegur að borgin er stödd á mjög hættulegum stað. Það þarf annaðhvort að auka tekjurnar eða minnka kostnaðinn, nema hvort tveggja sé. Það eru engar aðrar töfralausnir til. Ef Icelandair væri að tapa 15,6 milljörðum á ári myndu þau gera breytingar? Svarið er já, því annars færi fyrirtækið á hausinn. Það yrði ráðinn einstaklingur í brúna sem væri mikill rekstareinstaklingur, sem þorir að taka óvinsælar ákvarðanir hvað kostnað varðar og hefði hugmyndir um hvernig hægt væri að auka tekjurnar. Einstaklingur sem þyrfti að velja hvað er nauðsynlegt að hafa og hvað er gott að hafa (must have vs nice to have). Svo er bara spurning um hvað af því sem er gott að hafa yrði látið víkja á meðn rekstrinum yrði snúið við.

 Einar Þorsteinsson má eiga það að hann kemur vel fyrir og var mjög góður að spyrja spurninga í Kastljósinu. En hefur hann rekið stórfyrirtæki? Nei. Hefur hann tekið við rekstri á gjaldþrota stórfyrirtæki? Nei. Er hann rétti maðurinn til að snúa þessum rekstri? Líklega ekki. Ég vorkenni Einari, sem hélt að hann væri að fara í mjög áhugavert starf en endar í starfi sem hann að öllum líkindum ræður á engan hátt við. Starf þar sem hann mun þurfa að velja á milli þess að verða óvinsæll fyrir óvinsælar ákvarðanir eða óvinsæll fyrir að safna skuldum.

 Vandamálið er að pólitíkusar í dag taka ekki óvinsælar ákvarðanir. Hvernig er þá hægt að snúa rekstri borgarinnar við? Það er bara ein leið sem ég sé; að ráða forstjóra í verkið, rekstrareinstakling með reynslu af slíkum verkefnum. Pólitíkusarnir geta séð um að hugsa um stefnumótandi ákvarðanir en eins og staðan er núna verður reksturinn að vera í höndum atvinnumanneskju sem veit hvað hún er að gera. Slík manneskja er aldrei að fara í framboð til að verða borgarstjóri. Hana þarf að ráða í vinnu. Þannig manneskja getur valið úr störfum og fer ekki í atvinnuviðtal við alla borgarbúa til að láta draga sig upp úr drullupolli.

 Ég er búinn að taka ákvörðun um það að ef einhver flokkur ákveður að bjóða fram næst með það sem kosningaloforð að ráða borgarstjóra í stað þess að enn ein manneskjan sem kemur vel fyrir eigi allt í einu að verða rekstrarmanneskja, þá mun ég kjósa þann flokk, hvað sem flokkurinn heitir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband