Færsluflokkur: Bloggar

Ég vorkenni Einari?

 Ég hef nú í mörg ár fylgst með borginni okkar að sökkva dýpra og dýpra í skuldir, þjónustuna versna og verða óskipulegri. En ef þú heldur að hér sé á ferðinni enn ein pólistíska greinin um það hvað Dagur sé lélegur borgarstjóri og að skipta þurfi um meirihluta, þá verðurðu fyrir vonbrigðum,

 

 Að reka borg er ekkert smámál. Reykjavíkurborg, Landspítalinn og Icelandair eru þrír stærstu vinnustaðir Íslands. Borgin er flókinn vinnustaður með miklar áskoranir ásamt því að það er atvinnufólk til staðar í að benda á hvað fer úrskeiðis, þar sem pólitík virkar þannig. En ef við veltum fyrir okkur hvað hefur fólk eins og Dagur, Jón Gnarr, Ingibjörg Sólrún, Davíð Oddsson og fleiri góðir einstaklingar fram að færa sem forstjórar í svona stóru og flóknu fyrirtæki? Þau eru hvert um sig snillingar. Davíð Oddsson; lögfræðingur, með skýra sýn, ritsnillingur og húmoristi. Hann hefur mikinn sjarma og guð hjálpi þeim sem lendir upp á kannt við Davíð. Ingibjörg Sólrún; frábær í að svara fyrir sig og fékk fólk með sér í ferðalag sem enginn hefði trúað á án hennar og Sjálfstæðisflokkurinn var felldur eftir áratuga áskrift að borgarstjórastólnum. Jón Gnarr; hugsjónarmaður með skrítinn en einlægan sjarma. Hann hefur umfram alla stjórnmálamenn þann hæfileika að segja satt, þó það sé honum ekki til góðs. Hann svarar bara hlutum sem hann veit og segist ekki vita aðra hluti. Líklega það besta sem hann gerði var að hann lét fagfólkið um reksturinn og ákvarðanir aðrar en stefnumótandi ákvarðanir. Dagur; Læknir og algjör sjarmör og tungulipur með eindæmum. Hann er vinsamlegur og mjög sleipur í leiknum. Hann er eins og köttur nema með enn fleiri líf. Það má aldrei vanmeta Dag sem stjórnmálamann. En ekkert af þessu fólki eru sérfræðingar í rekstri, hvað þá að snúa við mjög erfiðum rekstri hjá stórfyrirtæki.

 Hversu mikill stjórnmálamaður og sjarmör sem Dagur er, þá er hann greinilega ekki góður rekstrarmaður. Enda er það að vera góður rekstrarmaður ekki endilega það mikilvægasta sem borgarstjóri þarf að hafa. En hann þarf þá að hafa sér við hlið góðan rekstrareinstakling til að vega það upp, það er nauðsynlegt. Einhvern sem gefur þér upplýsingar um hvað er hægt að gera og hvað ekki. Það er ekki bara hægt að elta drauma sína úr í bláinn og standa svo uppi með gjaldþrota borg og skilja ekkert í því hvað gerðist.

 Ef við hugsum málið aðeins betur. Icelandair var ekki í ósviptaðri stöðu í Covid faraldrinum og Reykjavíkurborg er nú í. Mikið tap og skuldir sem erfitt var að yfirstíga. Hefðu eitthvað af þessum miklu borgarstjórum sem ég taldi upp hér á undan verið ráðin sem forstjóri Icelandair á þeim tímapunkti? Væru þau með réttu reynsluna til að valda því starfi og bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti og snúa því við? Þið sem svöruðuð játandi í huganum eruð annað hvort að örga mér og öðrum eða jafn mikið draumórafólk og Dagur. Nei, það myndi aldrei gerast.

 Borg gengur ekki út á mjög marga hluti í grunninn. Þetta er okkar sameiginlegi rekstur og snýst um að hafa göturnar opnar, leikskólana í gangi, grunnskóla, sækja ruslið og vinna með það, hugsa um gamla fólkið og fatlaða. Svo þarf að skipuleggja og úthluta lóðum fyrir húsnæði og sjá um allskyns skráningar og skjölun. Svo er hægt að bæta við ýmsum verkefnum sem hver meirihluti setur oddinn hverju sinni. En grunninn tökum við aldrei í burtu. Hann verður að vera í lagi. Þetta er bara rekstur í rauninni. Rekstur á okkar sameiginlegu hlutum. Fólk getur haft skoðun á mikilvægisröðinni en þetta er samt bara rekstur. Í ríkismálum getur verið vinstri og hægri pólitík, en í borg er þetta aðallega bara rekstur.

 En hvernig snúum við rekstri sem tapar 15,6 milljörðum á einu ári? (En það var tap á rekstri borgarinnar árið 2022, sama hvaða umbúðum einhverjir reyna að pakka niðurstöðunni í. Aðrar tölur eru bara rekstrarárangur dótturfyrirtækja eins og Orkuveitunnar og fleirri.) Tapið er svo mikið og vaxtakostnaðurinn svo svakalegur að borgin er stödd á mjög hættulegum stað. Það þarf annaðhvort að auka tekjurnar eða minnka kostnaðinn, nema hvort tveggja sé. Það eru engar aðrar töfralausnir til. Ef Icelandair væri að tapa 15,6 milljörðum á ári myndu þau gera breytingar? Svarið er já, því annars færi fyrirtækið á hausinn. Það yrði ráðinn einstaklingur í brúna sem væri mikill rekstareinstaklingur, sem þorir að taka óvinsælar ákvarðanir hvað kostnað varðar og hefði hugmyndir um hvernig hægt væri að auka tekjurnar. Einstaklingur sem þyrfti að velja hvað er nauðsynlegt að hafa og hvað er gott að hafa (must have vs nice to have). Svo er bara spurning um hvað af því sem er gott að hafa yrði látið víkja á meðn rekstrinum yrði snúið við.

 Einar Þorsteinsson má eiga það að hann kemur vel fyrir og var mjög góður að spyrja spurninga í Kastljósinu. En hefur hann rekið stórfyrirtæki? Nei. Hefur hann tekið við rekstri á gjaldþrota stórfyrirtæki? Nei. Er hann rétti maðurinn til að snúa þessum rekstri? Líklega ekki. Ég vorkenni Einari, sem hélt að hann væri að fara í mjög áhugavert starf en endar í starfi sem hann að öllum líkindum ræður á engan hátt við. Starf þar sem hann mun þurfa að velja á milli þess að verða óvinsæll fyrir óvinsælar ákvarðanir eða óvinsæll fyrir að safna skuldum.

 Vandamálið er að pólitíkusar í dag taka ekki óvinsælar ákvarðanir. Hvernig er þá hægt að snúa rekstri borgarinnar við? Það er bara ein leið sem ég sé; að ráða forstjóra í verkið, rekstrareinstakling með reynslu af slíkum verkefnum. Pólitíkusarnir geta séð um að hugsa um stefnumótandi ákvarðanir en eins og staðan er núna verður reksturinn að vera í höndum atvinnumanneskju sem veit hvað hún er að gera. Slík manneskja er aldrei að fara í framboð til að verða borgarstjóri. Hana þarf að ráða í vinnu. Þannig manneskja getur valið úr störfum og fer ekki í atvinnuviðtal við alla borgarbúa til að láta draga sig upp úr drullupolli.

 Ég er búinn að taka ákvörðun um það að ef einhver flokkur ákveður að bjóða fram næst með það sem kosningaloforð að ráða borgarstjóra í stað þess að enn ein manneskjan sem kemur vel fyrir eigi allt í einu að verða rekstrarmanneskja, þá mun ég kjósa þann flokk, hvað sem flokkurinn heitir.


Nýtum tímann

Það er aldrei tími
en samt er ég alltaf að bíða
Það er aldrei tími
en samt kemur nýr dagur
Eftir hverju er ég að bíða,
það er kominn nýr dagur.

Það skrítna við tímann er hvað hann er afstæður. Sundum er hann ótrúlega lengi að líða en stundum er hann allt í einu bara búinn. Stundum myndum við vilja getað spólað áfram og stundum til baka. Það er ansi oft sem ég væri til í að geta spólað til baka en það er því miður, eða sem betur fer, ekki búið að finna upp leið til að spóla fram og til baka í tíma.

Við erum alltaf að mæla tímann sem einingu til verðmæta en verðmætin sem koma út úr því eru ekki mæld í tíma. Einn af snillingum Íslands, Gísli Rúnar heitinn, átti eitt sinn fleyga setningu þegar hann var að skrifa grín fyrir Bylgjuna. Þar var verið að þræta um hversu mikið ætti að borga fyrir grínið og reynt að setja skrifin í tímaeiningar. „Grín er ekki mælt í metrum,“ sagði Gísli Rúnar, því grín er annað hvort fyndið eða ekki. Sama hversu langan eða stuttan tíma tekur að semja það. Björn Jörundur var einnig að velta fyrir sér þessum mælieiningum í laginu Verðbólgin augu (íslenska krónan) og hvernig hún væri mæld í metrum og pundum. En tímakaupið væri svo misjafnt, þannig að sumar krónur væru lengri en aðrar: „eru mínar því lengri en hans?“

En einhvern veginn verðum við að mæla þessi verðmæti. Tíminn er nefnilega svo skrítinn að það er nóg til af honum en hvert og eitt okkar fær bara ákveðið mikið. Við fáum öll 24 klukkustundir á sólarhring og ráðum hvað við gerum við þær. Við bara vitum ekki hversu marga sólarhringa við fáum. Það er svo bara val hvers og eins hvað hann gerir við sólarhringana sína.

Þegar ég var 27 ára var ég í starfi sem ég elskaði ekki en borgaði vel. Á þeim tíma vorum við hjónin að byggja og þurftum á peningunum að halda. En þegar morgnarnir urðu þyngri og þyngri og dagurinn í þessu starfi lengri og lengri, þá á endanum varð ég að taka ákvörðun. Ég sagði upp og ákvað í leiðinni að vinna aldrei aftur peninganna vegna, heldur að þeir yrðu afleiðing af því sem ég gerði. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt, en alltaf skemmtilegt.
Það er nefnilega þannig að tíminn er skrítin eining, en gleði er önnur skrítin eining. Ef tíminn færir þér ekki gleði, þá er tímanum illa varið.

Ég þekki marga sem hafa varið ævinni í að safna peningum og gengið mjög vel í því. Það hefur fært sumum þeirra gleði. En fyrir mig, þá skiptir meira máli að safna minningum. Það færir mér gleði.

Ég hef því aldrei séð eftir þeirri ákvörðun að hætta að vinna peninganna vegna. Það eina sem þarf að passa er að hafa ekki of mikla greiðslubyrði. Því þá ræður fólk ekki við hvað það vinnur og verður að velja peninga umfram gleðina þegar það velur sér starf. Þannig að til að hafa efni á að geta sagt nei við leiðinlegri vinnu, sama hvað hún borgar, þá þarf að hafa lága greiðslubyrði.

Gamalt kínverskt máltæki segir: „Það er bara ein leið til að verða ríkur, það er að eyða minna en þú aflar.“ Það er mjög gaman að velta fyrir sér þessari setningu. Margir halda að þeir þurfi háar tekjur til að eignast hluti og lifa góðu lífi. En það er líka hægt að skoða það hinum megin frá og skoða hvernig maður ráðstafar fénu og stilla það af út frá tekjunum.

Trixið er að ná nógu góðum ballans í því hvernig við nýtum tímann til að færa okkur sem mesta gleði. Það felst í því að hafa markmið og tilgang.

Fyrir mörgum árum síðan hætti ég að fresta hlutum sem ég get afgreitt strax. Það hefur virkað mjög vel. En stundum gleymi ég mér og hlutir safnast upp. Þá þarf ég að taka mér tak og rjúka í hlutina. Ókláruð verkefni veita mér enga gleði.

Að gleðja aðra veitir mikla gleði, sem og að hugsa um nærumhverfi sitt. Þar þarf líka að finna ballans í því hversu mikið maður hugsar um aðra og hversu mikið sjálfan sig. Því það er svo rétt sem sagt er í flugvélunum. „Settu grímuna fyrst á þig og svo á barnið.“ Þeir sem hugsa ekki um sjálfan sig geta ekki hugsað um aðra.

Hvert fór tíminn?
Hann var hér í gær
Hann var hér í magni
Það gengur betur næst
Er eitthvað næst?

Það er bara nú og þá
Næst er uppselt
Og jæja,
þar fór það.


Ekki skrítið að fólk verði reitt

Margir hlutir hafa áhrif á líðan fólks en fjárhagslegar áhyggjur og óöryggi í fjálmálum ristir þar mjög djúpt. Bæði getur fólk orðið dofið og langþreytt, sem hefur áhrif á getu þeirra til að koma sér út úr aðstæðunum eða þá að fólk fær aukna orku til að gera eitthvað í málunum – og svo er það reiðin í báðum tilfellum.

Ég hef gaman að því að tala við ungt fólk. Þannig fær maður orku en líka skilning á því hvernig er að vera ungur í dag. Það er ekki eins og þegar ég var á sama aldri. Við afarnir ólumst upp í annari veröld. En margt er samt eins og meðal annars hversu erfitt er að eignast húsnæði, að lifa þá fjárfestingu af fjárhagslega og ekki síður andlega. Þegar við hjónin vorum að byggja vann maður tvöfalda vinnu og svo í húsinu eftir kl 22:00 á kvöldin. Eftir að við náðum að flytja inn tók það 2-3 ár þar til ég gat horft á verkfæri án þess að líða illa.

Ég man að þegar við Silja konan mín vorum að koma okkur upp okkar fyrstu íbúð þá var það mög erfitt. Vextir voru mjög háir og vanskilin söfnuðust upp. Greiðsluseðlar og reikningar hengu í klemmu á ísskápnum, bunkinn stækkaði og ég varð stöðugt stressaðari. En svo komur vaxtabætur í ágúst, ásamt barnabótum fjórum sinnum á ári. Þá var hægt að losa um vanskilin og svo koll af kolli. Smám saman batnaði okkar staða. Tekjurnar hækkuðu, börnin stækkuðu og við vorum komin í þá stöðu að við þurftum ekki lengur á bótunum að halda.

Sem betur fer er enn til kerfi á Íslandi til að jafna hlut þeirra sem eru að koma sér upp húsnæði og þeirra sem eru búnir að koma sér yfir þann hjalla. Einnig kerfi sem passar upp á að fólk með lægri tekjur og eignir eigi betri möguleika á að mæta þeim kostnaði sem fylgir því að ala upp börn. Vaxtabætur og barnabætur.

Ég var að tala við ungt fólk um daginn um það hvernig þetta væri í dag. Í stuttu máli þá brá mér við að heyra þær miklu breytingar sem orðið hafa bara á þessu ári. Hækkun á fasteignamati mun þurrka út stóran hluta af þeim sem eiga rétt á vaxtabótum.

Ef við tökum raundæmi: Ung kona sem ég ræddi við er einstæð móðir og er í Eflingu. Hún er með um 7 milljónir í árstekjur. Hún á íbúð og skuldar í henni 36,5 milljónir. Árið 2022 var fasteignamatið 42.600.000,- og fékk hún vaxtabætur sem voru 44.746. Það var í lágvaxtaumhverfi, í vöxtum eins og þeir eru í dag væri upphæðin mun hærri. Núna, árið 2023 er fasteignamatið orðið 50.500.000,- og fer því eignastofninn hennar úr því að vera 6,1 milljón í 14,6 milljónir sem er hátt í 140% hækkun. Það ættu að vera góðar fréttir en þetta nýtist henni ekki neitt fyrr en hún hugsanlega selur íbúðina síðar. Vextir eru mun hærri og greiðslubyrði hennar hefur farið úr kr. 150.000 í kr. 218.000 á mánuði, en vaxtabæturnar fóru niður í núll. Þannig situr hún uppi með hærri vaxtabyrði og greiðslubyrði, en enga hjálp á móti vaxtabyrðinni eins og áður, sem var þó mun lægri. Ef fasteignamatið hefði ekki hækkað þá hefði þessi manneskja fengið kr. 430.000 í vaxtabætur. Þá hefðu bæturnar hjálpaði verulega til í þessu vaxtaumhverfi.

Á sama tíma og þessi gríðalega hækkun fasteignamats á sér stað breytast skerðingarmörk fyrir vaxtabótum frá því að neðri mörkin voru 5 milljónir og fara í 7,5 milljónir og efri mörk úr 8 milljónum í 12 milljónir. Ef maður leikur sér með prósentureikning þá er þetta há prósentuhækkun og í takt við hækkun á fasteignamati. En málið er að fasteignamatið hækkar í krónum og allar þær krónur koma beint inn í eignastofninn. Svo ef fasteignamat á íbúð hækkar um 10 milljónir þá hækkar eingarstofninn um 10 milljónir. Fáir búa í íbúðum í Reykjavík sem hækkuðu um minna en 7 milljónir. Svo nánast allir eru að hækka það mikið í eignarstofni að vaxtabætur þeirra eru úr sögunni, á sama tíma og greiðslubyrði hækkar um allt að 50%.

Barnabætur og skerðingarreglur í kringum þær fylgja heldur ekki launaþróun svo stór hluti fólks sem fékk barnabætur í fyrra áekki rétt á þeim í ár, þó svo að launin þeirra í dag dugi skemur en launin fyrir ári síðan.

Ef við tökum þetta saman: Ráðstöfunartekjur eftir skatta og greiðslubyrði á mánuði. Einnig tökum við vaxtabætur og barnabætur og deilum þeim niður á mánuði:
 
                                           2022      2023       innkomubreyting
Útborguð laun                    435.000   465.000    +30.000
Vaxtabætur (deilt á mán).      3.729         0        -3.729
Barnabætur (deilt á mán)    27.156      26.048     -1.108
Greiðslubyrði láns               218.000   253.000    -35.000 
---------------------------------------------------------------------------
Til að lifa                          247.885   238.048       -9.837
 
Hún fær duglega launahækkun í kjölfar miðlunartillögunnar. En það dugar ekki fyrir þessu áfalli. Því raunverulega áfallið hefur lítið með kjarasamningana að gera. Það hefur með greiðslubyrði og skerðingar á bótum að gera. Svo ofan á það verðbólguna sem gerir það að verkum að verðmæti þessara 238.000 króna sem hún á til að lifa er 10% minna en raunverðmæti sömu upphæðar ári síðan. Því er þessi minnkun ráðstöfunartekna mun meiri en 9.837, sem samt er mjög mikið. Einnig má hafa í huga að greiðslubyrði lána var kr. 150.000 á mánuði árið 2021 og eingöngu greiddi hún í hálft ár. Samt dugar það til vaxtabóta sem hún fékk 2022.
 
Ef fasteignamat hefði ekki hækkað hefðu vaxtabætur í þessu háa vaxtastigi verið kr 430.000,- til greiðslu 2023, sem gerir kr. 35.833 á mánuði. Það hefði vegið á móti hækkun greiðsubyrðar og launahækkunin hefði ekki gufað upp. En nú hafa útborguð laun hækkað um kr. 30.000 en en samt hefur hún kr. 10.000 minna til að lifa í veröld þar sem allt kostar a.m.k. 10% meira.

Það er því ekki skrítið að fólk verði reitt. En hvernig á það að haga sér? Beita reiði sinni í næstu kosningum. En hvað eiga þau að kjósa í staðinn? Reykjavíkurborg er stjórnað af vinstri flokkum og þar virðist ekkert hugsað út í þetta. Ríkinu er stjórnað af vinstri og hægri sem virðist ekki heldur skilja þessar afleiðingar af breyttum veruleika. Sólveig Anna berst við atvinnurekendur til að ná til stjórnvalda. Með þessari aðgerð að hækka fasteignamat svo mikið án þess að taka tillit til þess að flestir fasteignaeigendur missi möguleika á vaxtabótum hefur allur kostnaðurinn við vaxtahækkunina verið færður yfir á skuldarann.

Nú mun stór hluti ungs fólks sjá við gerð skattskýrslu sinnar að það á ekki lengur rétt á vaxtabótum á sama tíma og það ræður varla við lánin sín eftir miklar vaxtahækkanir. Ég spái því að ef ekki verður leyst úr þessu verði næstu kjarasamningar mjög erfiðir og dýrir þjóðfélaginu. Mun dýrari en það myndi kosta að hækka skerðingarmörkin svo fólkið sem þarf á vaxtabótunum og barnabótunum sínum að halda fái þær.

Kredithirðir eða ekki?

Í síðasta pistli var ég að velta fyrir mér egói og hvernig það þvælist fyrir fólki í samskiptum. En það eru fleiri hliðar á peningnum. Til eru nokkrar gerðir af fólki; það er fólkið sem getur ekki tekið heiðurinn af neinu sem það gerir og finnst það bara vera fyrir í samfélaginu. Það er týpan sem oft er gert grín fyrir að byrja á að afsaka sig með orðum eins og fyrirgefið hvað þetta er nú lítið hjá mér…. eða ég veit að þetta er nú líklega einhver vitleysa en…

Svo er það manngerðin sem tekur heiðurinn af öllu og öllum. Þetta fólk byrjar allar setningar á ég var að… eða vegna þess að ég….. eða ég sagði allan tímann að…. Þessi manngerð er oft nefnd kredithirðir.

Svo er til fólk sem gefur öðrum heiður. Það hefur setningar á orðum eins og við vorum að….. og „hjá okkur…..“ eða „það er vegna þessa frábæra teymis sem….”. Það tekur sérstaklega fram ákveðna einstaklinga sem riðu baggamuninn í tilteknu verkefni. Þetta fólk stækkar aðra og sjálft sig í leiðinni.

Í stjórnun er sú týpa sem stækkar fólk í kringum sig og gefur fólki kredit fyrir sitt innlegg mun æskilegri en sú sem eignar sér heiðurinn og talar um sjála sig út í eitt. Persónulega hef ég margoft lent í þeim pytti að hefja setningar á Ég….. eða segja sérstaklega frá mínum þætti í verkefnum og gleyma af gefa fólki heiðurinn sem það á skilið. Það er mikill lærdómur að leggja egóið til hliðar og átta sig á styrknum sem felst í því að gefa öðrum sviðsljósið og passa sig á að muna eftir þætti annarra í því að hlutir gangi vel. Því það er sjaldnast þannig að verk gangi vel vegna eins einstaklings. Yfirleitt er niðurstaðan góð vegna samspils og aðkomu margra einstaklinga. Þess vegna er mikilvægt að muna eftir þeim sem leggja lóð sín á vogarskálarnar. Þannig aukast líkurnar á því að aukin gæði skapist í framtíðinni. Það er fátt eins svekkjandi og að vita sinn þátt í verkefni og heyra svo einvern tala opinberlega eða á fundi um verkefnið eins og hann eða hún hafi gert allt ein(n).

Fyrir mörgum árum var ég minntur all illilega á að ég væri á rangri leið, þegar Þráinn Steinsson á Bylgjunni uppnefndi mig Valli Gort en á þeim tíma var ég jafnan kallaður Valli Sport. Ég vil því nota tækifærið og þakka Þráni fyrir. Án þess hefði tekið mig lengri tíma að átta mig á hlutunum. Ekki það að ég hafi orðið fullkominn eftir uppnefnið. Það varð ég ekki og það er ég ekki enn og verð líklega aldrei. Einnig eru fleiri í gegnum tíðina sem hafa sem betur fer verið hreinskilnir og bent mér á ef ég hef verið of sjálfhverfur. Enn á ég það til að gleyma mér og þarf því reglulega að minna mig á að ég er bara hluti af stóru mengi. 

Að sjá Ástráð Haraldsson, settan ríkissáttasemjara, kyssa Heimi Pétursson fréttamann fyrir hans innlegg í að sættir náðust í deilu Eflingar og SA er klárt merki um hversu stór einstaklingur Ástráður er. Vel gert.


Reiður úti á plani

Stoltið og réttsýnin geta verið skrítin systkin, sérstaklega þegar við upplifum að eitthvað hafi verið gert á okkar hlut. Við eigum erfitt með að kyngja stoltinu þó að það sé augljóslega okkur í hag. Við mætum hörðu með hörðu af því að við lítum hlutina með okkar augum og eigum rétt á því. 

Hver kannast ekki við manninn sem mætir reiður inn í verslun með bilaðan hlut og rausar um hvað þetta sé mikið drasl. Hann sé nýbúinn að kaupa hlutinn og hann virki ekki. Eftir augnablik kemur í ljós að hann hafði bara gleymt að kveikja á hlutum eða setja hann í samband eða gert einhver einföld mistök. Svokölluð BÍN-villa, það er „bilun í notanda.“ Þegar viðkomandi er svo bent á þessi einföldu litlu mistök sín þá kemur rúsínan: „Já, en þetta er samt drasl!“ Því viðkomandi getur ekki viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér og í raun haft sig að fífli með rausi um hvað hluturinn sé lélegur þegar það var í raun bara hann sem var vitlaus. Svo strunsar viðkomandi út.

En þessi hegðun einskorðast ekki við nokkra skapstygga eldri karla. Þetta er í okkur öllum, í einhverjum mæli. Við æðum kannski ekki brjáluð inn í verslun, en þegar brotið er á rétti okkar eða við teljum að svo sé, þá leyfum við reiðinni stundum að taka stjórnina. Flautum á fávitana í umferðinni, til dæmis. Við mætum tilbúin með svör ef við höldum að einhver muni setja út á okkur. Við þurfum að halda andliti.

Ég man eftir einni sögu af mér sjálfum sem lýsir þessu vel. Fyrir nokkrum árum var ég að leita að stæði við Höfðabakka og þar var bara eitt stæði laust. Vandamálið var að bíllinn í stæðinu við hliðina var svo illa lagður að hann var hálfur inn í stæðinu sem var laust. En þar sem ekkert annað stæði var í augsýn þá ákvað ég að reyna að troða mér inn í þetta stæði og komast út úr bílnum. Þessi aðgerð heppnaðist og ég náði að koma mér inn. Ég hugsaði með mér að sá sem lagði svona illa gæti bara farið inn farþegamegin og troðið sér yfir í bílstjórasætið til að komast burtu, því nóg var plássið þeim megin við bílinn. Að svo búnu fór ég inn í húsið og upp á 6. hæð, þangað sem ég átti erindi. Þegar ég sat þar í fundarherbergi hringdi hjá mér síminn. Þar kynnti sig maður frá bílaleigunni sem sem átti bílinn. „Sæll, getur verið að þú sért staddur á Höfðabakka?“ spurði maðurinn og ég fann hvernig pirringurinn fór af stað inn í mér. „Já, ég er það,” svaraði ég. „Það hringdi í mig maður í vandræðum með að komast inn í bílinn sinn og spyr hvort það sé möguleiki að þú færir þig svo hann komist inn í bílinn.” Ég svaraði með þjósti: „Hann hefði þá kannski átt að leggja betur en ekki vera hálfur inn á stæðinu við liðina,” sagði ég og ætlaði bara að sitja kyrr og láta hann finna fyrir því úti á stæðinu. „Ég veit nú ekkert um það en hann hringdi bara hér í vandræðum,“ svaraði maðurinn frá bílaleigunni.
Ég ákvað að sitja kyrr og klára það sem ég var að gera og fara svo niður, hann það skilið fyrir að leggja svona eins og ansi og taka tvö stæði. Á leðinni niður undirbjó ég mig undir það sem koma skyldi þegar maðurðinn myndi láta mig heyra það fyrir að loka sig úti úr bílnum. Ég myndi segja. „Þú lagðir svona illa og þá geturðu bara farið inn farþegamegin og klifrað yfir. Af hverju er það mitt vandamál að þú kunnir ekki að leggja?”
Þegar ég gekk að bílnum fann ég hvernig hjartslátturinn jókst og ég varð betur og betur tilbúinn í rifrildið sem var að koma. Ég sá mannin standa fyrir framan bílinn sinn og horfa í áttina að mér. Þetta var mjög breiður maður og þegar ég nálgaðsiðst spurði ég hvort hann væri sá sem kæmist ekki inn í bílinn sinn. „Já, ég er maðurinn. Fyrirgefðu hvað ég lagði eins og asni. Þetta er allt mér að kenna. Ég er líka svo feitur að ég næ ekki að fara inn farþegamegin og klifra yfir. Annars hefði ég bara gert það. En því miður gat ég það ekki. Ég vona að ég hafi ekki truflað þig of mikið. Ef þú gætir bakkað út, þá gæti ég farið.“ Ég stóð og hofði á hann í smá stund og allt sem ég hafði undirbúið í huganum varð að engu. Ég fékk ekki að rífast, eins tilbúinn og ég var. Rifrildið var tekið af mér. „Já, ekkert mál,“ svaraði ég og færði bílinn. Ég náði að setja smá pirring og lítilsvirðingu í málróminn svo ég fengi eitthvað út úr þessu.
En þegar ég var að bakka bílnum mínum úr stæðinu hugsaði ég með mér: „Hvaða fáviti er ég að byggja upp alla þessa spennu og eyða orku í eitthvað sem ekkert varð. Af hverju varð ég núna allt í einu pirraður yfir því að fá ekki rifrildið sem ég hafði samt engan áhuga á?“
Ég vinn við samskipti og er stöðugt að hjálpa fólki hvernig best er að haga samskiptum á alla vegu. Oft þegar stjórnendur eru í krísu þá hjálpa ég við að hafa samskiptin yfirveguð og skipuleg til að risaeðluheilinn yfirtaki ekki aðstæður og eyðileggi, í stað þess að laga. Því þegar risaeðluheilinn okkar tekur við stjórninni þá búum við til spíral vondra samskipta sem aldrei enda vel. Samt féll ég í þessa gildru, sem enginn lagði fyrir mig nema ég sjálfur. En sá sem lagði bílnum sínum svona illa afvopnaði mig með besta vopninu í vopnabúri samskiptanna. Hann tók sökina á sig og baðst afsökunar. Hann kyngdi stolti sínu til að ná sínum markmiðum. Hann þurfti bara að komast inn í bílinn sinn.

Til að ná samkomulagi um hvað sem er, þá er það alltaf kostur að setja egóið til hliðar. Ef það er ekki hægt þá er alltaf hætta á því að það þvælist fyrir og samkomulag náist ekki þó svo að báðir aðilar kunni að hafa verulegan hag af því. Eingöngu vegna þess að þverir einstaklingar þurfa að halda andliti. Eftir að hafa fylgst með núverandi kjaradeilu eins og boxkeppni í beinni, þá fór ég að velta þessu fyrir mér.


Er ferðaþjónustan bara fyrir láglaunafólk?

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við HÍ og fráfarandi meðlimur í peningastefnunefnd, skrifaði nýverið grein þar sem hann segir að ferðaþjónustan sé láglaunagrein í hálaunalandi og að það sé dæmi sem gangi ekki upp. Einnig heldur hann því fram að ferðaþjónustan sé góð aukagrein, góð byggðastefna en afleit grein til að búa til verðmæt störf og lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni.

Ég rak upp stór augu þegar ég las þessa grein Gylfa.

Ég hugsaði: Hvað er maðurinn að meina? Er hann að hugsa svo þröngt að ferðaþjónusta skapi eingöngu störf við að flytja fólk, hýsa það og gefa því að borða? Eins og ef við myndum skoða sjávarútveginn eingöngu út frá því að veiða fiskinn og vinna hann, eða háskólasamfélagið eingöngu út frá þeim sem kenna og þeim sem læra. En þó maður skoði ferðaþjónustuna svona þröngt eins og mér sýnist hann gera, þá held ég að maður sjái strax að störfin í greininni veiti blandaðar tekjur, frá lágum launum upp í mjög há laun.

Það er hægt að setja sér hvaða forsendur sem er og skrifa rökfærslur út frá því og komast að niðurstöðu í samræmi við þær, en það þýðir ekki að maður hafi rétt fyrir sér. Stór atvinnugrein er innspýting inn í allt atvinnulífið og í kringum grein eins og ferðaþjónustuna spretta ótrúlegustu greinar aðrar sem sannarlega skapa hálaunastörf og það sem mikilvægast er; draumastörf.

Í kringum ferðaþjónustuna hafa þannig skapast mikil tækifæri í hugbúnaðargerð, auglýsinga- og markaðsvinnu, nýsköpun í afþreyingu, nýsköpun í veitingaþjónustu, fjölbreyttari tækifæri fyrir menningu og fræðistörf eins og sagnfræði, mannfræði og jarðfræði. Og þarna tel ég bara upp það sem mér dettur í hug í fljótu bragði.

Gylfi telur að ferðaþjónusta sé góð byggðastefna. Þar erum við algjörlega sammála enda eru loksins orðin til störf í mörgum byggðarlögum sem ekki ganga út á sjávarútveg eða landbúnað, auk opinberra starfa og þjónustu við það fólk og þau fyrirtæki sem starfar við þær greinar.
Störf í mörgum byggðarlögum voru mjög einhæf áður. Með ferðafólkinu hefur skapast tækifæri til að gera menningu, afþreyingu og veitingamennsku að fyrirmyndaratvinnugreinum í þessum byggðarlögum. Um allt land hafa orðið til störf sem eru draumastörf hjá mörgu ungu fólki, sem annars hefði aldrei haft áhuga á að búa á viðkomandi stað. Þannig hafa til dæmis skotið upp kollinum ótalmörg sprotafyrirtæki í matvælaframleiðslu og bjórgerð um allt land. Þessi fyrirtæki hefðu aldrei hefðu litið dagsins ljós án ferðamennskunnar.

Ég er algjörlega ósammála Gylfa í þeirri nálgun hans að skoða ekki allar þær hliðargreinar sem blómstra vegna tækifæranna sem ferðaþjónustan hefur fært okkur. Stór hluti þeirra sem vinnur við vefmál og alls kyns hugbúnaðargerð vinnur til að mynda beint fyrir ferðaþjónustuna og annar stór hluti vinnur óbeint fyrir hana. Kvikmyndageirinn, sem hefur blómstrað undanfarin 15–20 ár með ótrúlegum árangri, gæti það ekki nema vegna innviðanna sem orðið hafa til þökk sé uppbyggingu í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustyrirtækin eru mjög fyrirferðamikil í markaðssetningu á erlendri grundu. Við það hefur byggst upp þekking innan fjölda markaðs- og auglýsingafyrirtækja í alþjóðlegri markaðssetningu, sem hafa síðar farið að selja sínar lausnir á alþjóðlegum markaði. Og nú eru afþreyingafyriræki sem spruttu fyrst upp sem nýsköpunarfyriræki á íslenskum markaði fyrir erlenda ferðamenn byrjuð að flytja út sínar hugmyndir, tæknilausnir og þekkingu til annarra landa og búa þannig til mikil verðmæti.

Til dæmis fyrirtækið sem ég vinn fyrir, Pipar\TBWA, og dótturfyrirtæki þess The Engine eiga mikið undir ferðaþjónustunni. The Engine byggði upp stóran hluta sinnar þekkingar í samstarfi við ferðaþjónustuna og nú erum við með skrifstofur í Reykjavík, Osló, Kaupmannahöfn og Budapest, ásamt því að við munum opna í Helsinki síðar á árinu. Án þekkingar og tækifæra sem ferðaþjónustan gaf okkur hefði slík uppbygging aldrei orðið. Nú í dag er ferðaþjónusta ekki eins stór hluti veltunnar og áður, en hún var grunnurinn sem skipti öllu máli fyrir okkur á sínum tíma.

Það sama gerðist í sjávarútveginum á árum áður. Sú atvinnugrein hefur byggt upp gríðalega tækniþekkingu og fræðavinnu sem hefur nú í tugi ára verið mjög fyrirferðamikil á alþjóðavettvangi, svo eftir því er tekið. Mörg af fremstu fyrirtækjum heims í tækniþjónustu fyrir sjávarútveg eru íslensk. Þessi þekking hefur svo þróast út fyrir sjávarútveginn og nú þjónusta íslensk tækni- og þekkingarfyrirtæki matvælaiðnaðinn um allan heim.

Hvergi í heiminum er sjávarútvegur og vinnsla sjávarafurða talin til hálaunagreina. En samt hefur sú atvinnugrein skapað gríðalegan fjölda hálauna- og þekkingarstarfa á Íslandi. Ef prófessor í hagfræði hefði skoðað sjávarútveginn árið 1985 með sömu gleraugum og Gylfi skoðar ferðaþjónustuna núna hefði inntakið verið: „Sjávarútvegur er góð aukagrein, góð byggðastefna en afleit grein til að búa til vermæt störf og lífskjör fyrir Íslendinga í framtíðinni“.

Snilldin er að þegar grein með mikið af láglaunastörfum er í hálaunalandi, þá kemur einmitt hugvitið til skjalanna og finnur lausnir á því. Þess vegna þróaðist öll þessi tækniþekking í sjávarútvegi til að leysa það vandamál og störfin breyttust og þróuðust. Sú tækni og þekking varð síðar verðmæt um allan heim.

Ég hef eina bón til þín Gylfi, ef þú lest þetta: Að þú beitir þér fyrir rannsókn hjá Háskóla Íslands á því hversu mikil verðmæti ferðaþjónustan hefur í afleiddum störfum í íslensku samfélagi. Og hve hátt hlutfall þeirra eru þekkingar- og/eða hálaunastörf. Ég hlakka til að mæta á fyrirlestur um það.


Refsingar virka öfugt

Ég er búinn að vera að velta fyrir mér refsingum og hvort refsingar virka. Heimurinn er fullur af refsingum og við erum því alin upp í skólakerfinu og lífinu sjálfu við það að ef við högum okkur ekki eins og við eigum að gera þá sé okkur refsað. Þannig eigum við að læra af reynslunni og láta af þeirri hegðun.

Fáum punkta fyrir mætingu, í umferðinni, látin sitja eftir, gera armbeygjur, borga sektir, einangruð í skammakrók, ekki boðið með, tölvan tekin og svo mætti lengi telja.

En hvað gerir þetta fyrir okkur? Bregðast allir eins við refsingunum og breyta, brosa og bæta sig? Nei það er nefninlega ekki þannig. Sumir eru þannig gerðir að þeir taka hlutina meira inná sig en aðrir. Taka hlutunum persónulega og refsingin er persónuleg árás á þá. Þessir einstaklingar sýna refsingunni mótþróa og koma sér í sífelt verri stöðu þar til þeir verða algjörlega utanveltu í samfélaginu. Samt höldum við áfram að refsa þeim meira til að þeir læri örugglega af reynslunni.

Nú hef ég engin vísindi fyrir mér í þessu en með reynslunni af stjórnun stórra fyrirtækja, sem foreldri, þjálfari og í hópavinnu með fjölda fólks er maður farinn að þekkja þessi persónueinkenni. Þetta er fólkið sem oft er sagt sjálfu sér verst. En er það þannig? Erum við hin kanski bara vond við þetta fólk, því það er á skjön við okkur hin.

Mín reynsla er að fólk með þessi karaktereinkenni er oft mikið hæfileikafólk sem sér heiminn oft frá annari hlið en flestir. Næmt fólk. Oft með áfallasögu. Þróar oft með sér alkahólisma. Ekki veit ég hvað kemur á undan hinu. Hvað sé afleiðing og hvað orsök? En þessu hef ég tekið eftir og eflaust eru til fræði um þetta.

Það eina sem ég veit fyrir víst er að refsingar og hótanir virka öfugt á þetta fólk. Hvorki sá sem refsar né sá sem er refsað nær árangri með þeirri aðferð. Fangelsin eru full af fólki með nákæmlega þessi einkenni. Byrjuðu í æsku að vera á skjön og var refsað, brugðust illa við og var aftur refsað. Svona verður til vítahringur fólks sem upplifir sig óvelkomið í samfélaginu. Ekki elskað og upplifir sig bara fyrir. Þessu fólki refsum við svo endanlega með því að setja það í öryggisfangelsi á Hólmsheiðinni.

Um daginn hitti ég manneskju sem á einmitt áfallasögu og tók út tímabil í mikilli drykkju og annari neyslu. Hún var ítrekað tekin undir áhrifum við akstur og hún var á endandum dæmd til fangelsisvistar í 6 mánuði. Eftir dómin tók hún sig á í lífinu og beið eftir að fara í fangelsið. Breytti um líferni, kláraði stúdentspróf með vinnu og fór svo í háskólanám. En í maí í fyrra (mörgum árum eftir dóminn) varð inngrip í hennar líf á sama tíma og hún var í miðjum prófum í háskólanum. Fyrningartími á fangelsisdóminn var alveg að renna út svo hún var sótt af lögreglu með engum fyrirfara og stungið í öryggisfangelsið á Hólmsheiði. Og ofan á það þá var hún sett í einangrun í 14 daga. Það úrræði hefur hingað til verið notað sem refsing fyrir fanga sem haga sér mjög illa en í þessu tilfelli var það vegna Covid reglna. Hún sá því sólarljós í 1 klukkutíma á sólarhring í 14 daga. Hún þurfti svo að dúsa í fangelsi fram til september. Skólaárið ónýtt, leiguskuld vegna íbúðarinnar orðin ill yfirstíganleg og vinnan farin. Þá fékk hún að fara á Vernd þar sem hún hafði útivistatíma frá 8:00 til 20:00. Þar sem hún hefur unnið sem þjónn með skólanum. Þá mátti hún ekki vinna við það vegna útivistatímans. Nú er þessi manneskja að koma aftur út í lífið sem fullgidlur samfélagsþegn sem má t.d. fara í leikhús og hitta annað fólk eftir kl. 20.00 á kvöldin og má vinna í veitingageiranum aftur. En hvað kom út úr þessu öllu? Ætli hún hagi sér betur eða er búið að brjóta hana og traust hennar til samfélagsins. Mun hún sjá tilgang í því að fylgja straumnum eða kemur upp mótþrói og Fuck it hugsun? Hefði kannski verið betra að bjóða þessari manneskju hjálp á sínum tíma frekar en refsingu? Hefði verið sniðugra að skoða tímann sem hún beið og meta hvort refsingin væri nauðsynleg? Hvað kostaði þetta samfélagið og hana?

Er kannski kominn tími til að hugsa málið upp á nýtt og breyta þessu refsiblæti í eitthvað sem virkar? Er þetta ekki frekar spurning um að hjálpa fólki út í lífið frekar en að refsa því til hlíðni? Ef fólk misstígur sig. Eigum við að halda áfram að berja á því eða eigum við að hjálpa þeim á fætur?

Væri kannski mál að heilbryggðiskerfið liti á t.d. alkahólisma sem sjúkdóm en léti ekki bara áhugasamtökum um þann hluta kerfisins þar sem bara ákveðið margir megi fá lækningu á ári, sama hversu margir eru veikir. Þar er einmitt líka komið upp refsikerfi til að hægt sé að úthluta þessum fáu plássum á þá sem haga sér best. En þeir sem eru veikastir eru einmitt þeir sömu og halda endalaust áfram að fá refsingar. Refsingu fyrir að mæta of seint í meðferð og refsingu fyrir að sjúkdómurinn tekur sig upp aftur. En það er partur af sjúkdómnum. Hér er nefninlega um andlegan sjúkdóm að ræða sem ekki fer í sumarfrí eða er bundinn við kvóta ríkisins. Heldur eru 10% fólks haldið þessum sjúkdómi og við höldum áfram að reyna að refsa fólk til að fá þau til að hætta að vera með sjúkdóminn. Það bara virkar ekki.


Afi í Palestínu

Ég fæddist frjáls

en kvarta samt

ég fæddist í friði með allt sem ég þarfnast

en kvarta samt

kvarta yfir veðrinu, vöxtunum og verðinu

 

En hvað ef ég fengi steikjandi hita,

engar afborganir og lægra verð?

Yrði ég þá ánægður?

Eins og landlausi maðurinn sem brosti til mín í Palestínu.

Ég flýg heim til að kvarta yfir veðrinu.

Ég var svo heppinn að vera í Ísrael og Palestínu nýlega þar sem ég var að aðstoða Heru Björk við að flytja tónlist tengt Eurovision hátíðinni og að heimsækja S.O.S. barnaþorp báðum megin landamæranna. Þessar heimsóknir snertu mig mikið. Börnin sem voru svo spennt að hitta okkur, skoða myndavélarnar hjá mér, fara í grettukeppni, fá þau í fangið og borða með okkur pizzu. Ég er nýlega orðinn afi og því með með hjartað opið og móttækilegt og lagði mig því mikið fram við að tengjast og skilja veruleikann sem börnin þarna alast upp við. Einnig hvernig fullorðna fólkið er að reyna að búa þeim líf og framtíð í óviðunandi aðstæðum og stríði.

Heimssýn þessa fólks er önnur en okkar. Viðmið um hvað sé gott líf er ekki það sama og þarfir ekki heldur. Kúgað fólk sem þarf að sækja um sérstakt leyfi til að fara yfir landamærin. Er meinað að keyra bíl röngu megin landanæranna og er stöðugt meðhöndlað sem glæpamenn í eigin heimalandi. Fólk sem þráir bara frið og mannréttindi. Veggur hefur verið reistur á milli landshluta þar sem íbúarnir mega ekki fara á milli, hvorki Ísraelar né Palestínufólk nema með undantekningum. Undir niðri kraumar reiðin, beggja vegna landamæranna. Flest fólk er þreytt á stríðinu og skilur hvað þarf að gera. En ef stoltir íhaldssamir leiðtogarnir geta hvorkið bakkað né fyrirgefið, mun ekkert gerast. Þegar annar þjóðfélagshópurinn er æðri hinum, þá er ekki von á góðri útkomu. Flestir sem ég hitti Ísraelsmegin skammast sín fyrir ástandið og álit heimsins á ástandinu. En þessi áratugadeila liggur djúpt í sál þeirra sem eru eldri. Eldra fólkið man eftir skærunum þar sem sprengjum var varpað á fjölskyldur sem óku um þjóðveginn frá Tel Aviv til Jerúsalem. Bílhræin standa þar enn frá því á sjöunda áratugnum til minningar um þá sem létust á þessum árum.

Það sem snart mig best í þessum heimsóknum í S.O.S. barnaþorpin var hversu mikil áhersla var lögð á að fræða og ala börnin upp í umburðarlyndi, samvinnu, víðsýni og jafnrétti beggja vegna landamæranna. Sérstaklega var Palestínumegin lögð áhersla á að ala börnin upp í jafnrétti kynjanna. Til að brjóta niður það mein að karlmenn drottni yfir konum í ákveðnum þjóðfélagshópum. Einnig að umgjörð til stuðnings er til 23ja ára aldurs, svo einstaklingarnir eigi betri möguleika á að fóta sig í fullorðinslífi með stuðningsneti.

Þarna voru börn sem höfðu misst annað foreldri eða bæði eða þá að foreldrarnir eru ófærir um, tímabundið, eða til framtíðar, að hugsa um bornin sín. Börn sem höfðu orðið fyrir miklum áföllum, vanrækslu og/eða ofbeldi. Án þess að fá þá aðstoð sem S.O.S. Barnaþorpin veita þeim, væru þessi börn mjög líkleg til að alast upp sem reiðir, þröngsýnir einstaklingar sem gera samfélagið sitt verra. Þess í stað er skapaður jarðvegur til að þau verði víðsýnir, umburðarlyndir og jafnréttissinnaðir einstaklingar sem eru líklegir til að bæta umhverfi sitt.

Það er nefnilega ekki bara barnið sjálft sem fær betra líf, heldur samfélagið í heild sinni, ef barni er gefinn möguleikinn til að þroskast og menntast í ástríku umhverfi.

Ég hitti kynslóðina sem mun leysa deiluna, fyrirgefa og halda áfram. Kynslóðin sem sér að samvinna og jafnrétti er alltaf leiðin áfram. Drottnun og óréttlæti er alltaf stöðnun eða leiðin afturábak. Ég kom því bjartsýnn aftur til Íslands til að kvarta yfir veðrinu.


Afi á instagram

Þetta er pistill 3 í pistlaröðinni þar sem ég varð nýlega afi.

 

Stærsti munurinn á því hvernig er að verða foreldri í dag og þegar ég og konan mín stóðum í þeim sporum árið 1991 í fyrsta skipti eru samfélagsmiðlarnir.

Ég hringdi úr tíkallasíma, eins og þeir voru kallaðir, bæði í foreldra mína og tengdaforeldra til að segja þeim fréttirnar áður en ég yfirgaf fæðingardeildina. Gekk svo út af fæðingardeildinni skýjum ofar. Svo stoltur af því að vera orðinn fullorðinn. Maður með mönnum. Vera nýbakaður pabbi. Þvílíkur dagur. 

Eins og komið hefur fram í fyrri pistli þurfti ég að byrja á því að koma við í Háskólanum og fá mig skráðan í sjúkrapróf sem var ekki eins auðsótt og ég hélt. Þaðan lá leiðin svo heim. Hvíla sig áður en ég færi í að hringja í þá sem stóðu okkur nærri til að segja þeim fréttirnar. Ég var spenntur yfir því að heyra í fólki í fyrsta skipti sem pabbi. Allir svöruðu heimasímanum um kvöldið, en það voru einu símar fólks á þeim tíma. Mikið var gaman að tala við allt þetta fólk og segja þeim fréttirnar, svara spurningum um kyn, þyngd og lengd, hvernig gekk og hvort öllum heilsaðist vel? Að vísu náði tengdamamma að stela frá mér þrumunni á nokkrum stöðum með því að vera á undan mér að hringja í fáeina einstaklinga. En það var allt og sumt. Ég stýrði hver fékk fréttirnar og hvenær.

Örfáir útvaldir komu á fæðingardeildina en þá voru mæður og börn þar í nokkra daga eftir fæðinguna. Eftir að við komum heim mættu nokkrir vinir og skyldmenni fljótlega til að sjá litlu stúlkuna og svo seinna litla drenginn þegar barn númer tvö kom. Enginn þurfti að halda á barninu og taka af sér mynd. Enginn þurfti að sýna heiminum hvað þau hefðu fundið öfluga lækvél. Svo kom fólk reglulega í heimsókn til að fylgjast með, fá kaffi og spjalla. Við fórum líka og heimsóttum afa og ömmur og til að að sýna langafa og langömmu barnið. Mikil gleði en samt mikil friðsemd. Enginn kom án þess að gera boð á undan sér og við höfðum alltaf stjórn á aðstæðum.

Bomm. Og svo komu samfélagsmiðlarnir. Læk-keppnin og allt það.

Nýbakaðir forleldrar taka sjálfu á fæðingadeildinni og pósta. Þá er það komið. Allir setja komment um hvað barnið er mikið krútt og þá er það frá. Svo er komið heim einum til tveimur dögum eftir fæðinguna og þá kemur strollan. Litla barnið situr fyrir í fangi allra og beint á insta, fb og snap. Viðbrögðin aldrei betri og allir fylla á læktankinn. Fá að vera smá stjörnur á insta um stund. Foreldrarnir sjá svo til þess að allir fylgjast með barninu í gegnum samfélagsmiðla öllum stundum, svo heimsóknir hafa í raun bara einn tilgang. Að fá sjálfu til að græða smá á vinsældum barnins á samfélagsmiðlum.

 

Svo eru allar óskráðu reglurnar sem sífellt eru brotnar fyrir „misskilning“. Til dæmis fólkið sem póstar mynd af skírnarkökunni með nafni barnsins áður en foreldrarnir eru búnir að því. Hver er fyrstur með fréttirnar um hvort það verði strákur eða stelpa? Hverju má pósta og hverju má ekki pósta? Hvernig setjur maður reglurnar og hvernig kynnir maður reglurnar fyrir fólki? Þetta er allt flókið og viðkvæmt.

Nú skal ég ekki dæma um það hvor tíminn var eða er betri. Nýjum tímum fylgja breytingar og þetta er ein þeirra. Börn sem fædd eru í dag eiga lifandi myndaalbúm út ævina þar sem allt er skráð, allt er myndað og allir geta fylgst með. Ekkert hverfur af netinu það sem eftir er ævinnar. Sem betur fer er ekki allt skrásett á mynd sem ég gerði sem barn og þess vegna get ég nú stílfært það eins og ég vil mér í hag og sleppt því sem ég vil ekki að hafi gerst. Því ég var að sjáfsögðu fullkominn og ef einhver segir eitthvað annað, þá þarf viðkomandi að sanna það.


Afi í fæðingarorlofi

Afi í fæðingarorlofi

Okkur hjónunum hlotnaðist nýlega sú gleði að verða afi og amma í fyrsta skipti. Það vakti upp miklar tilfinningar hjá mér og opnaði augu mín fyrir foreldrahlutverkinu á alveg nýjan hátt. Að vera afi er allt annað en að vera sjálfur foreldrið og í kjölfarið ákvað ég að gera þessa greinaröð – um muninn á því að verða foreldri nú og þegar við hjónin urðum það. Þetta er grein 2.

Margt hefur breyst en sumt hefur lítið sem ekkert breyst. Sumt hefur breyst að nafninu til og sumt hefur þróast í að verða andhverfa af því sem til stóð.

Eitt sem ég komst að og þykir mjög undarlegt að ekki sé búið að laga er hvernig orlofsupphæðin í fæðingarorlofi er reiknuð út og hvaða skilyrði þarf að uppfylla. T.d. þarf að hafa verið 12 mánuði í samfelldri vinnu mánuðina fyrir fæðingu til að fá greitt orlof. Þessi regla þykir mér mjög í andstöðu við tilgang orlofsins og hugsanlega leifar af þeim tíma þegar stór hluti kvenna var tekjulaus og heimavinnandi eða í íhlaupastörfum. Ég hefði haldið að hugmyndin um fæðingarorlof sé sú að samfélagið gangist við því að það sé eðlilegt að nýorðnir foreldrar hafi efni á því að taka frí fyrstu vikur og mánuði eftir fæðingu til að tengjast barninu. Vinna þá umönnunarvinnu sem þarf hvenær sem er sólarhingsins án þess að hafa áhyggjur af því að þurfa mæta til vinnu að morgni. Taka frá þeim fjárhagsáhyggjurnar og fá að vera í smá bómull í nokkrar vikur á þessum mikilvægasta tíma í tengslamyndun barns og foreldra. Einnig að barnið fái að vera í kringum foreldra sína fyrstu vikur og mánuði í stað þess að vera sett í hendur á óviðkomandi. Er þá fólk sem ekki hefur verið í samfelldri vinnu í 12 mánuði tekið út fyrir sviga? Á þeirra barn að hafa einhvern annan og minni rétt en hin börnin vegna þess að annað foreldrið varð óvinnufært og launalaust hluta þess tíma? Á þetta fólk ekki að fá greitt fullt orlof? Á fólk í þessari stöðu að skipta á bleium og vagga barninu á nóttunni og vinna á daginn til að ná endum saman eða reyna að komast af á smánarlegum fæðingarstyrk sem er 77.000 kr. á mánuði? Á þetta fólk að þurfa að standa í bréfaskriftum við Fæðingarorlofssjóð í óvissu um hvort það eigi fyrir nauðsynjum fyrir heimilið og barnið þegar það ætti að vera að dást að og sinna nýja barninu? Jafnvel eftir margra ára vinnu á sama vinnustað en hafa dottið úr vinnu í einn mánuð akkúrat á þessu 12 mánaða tímabili. Er þetta það sanngjarna samfélag sem orlofið var hugsað fyrir? Ég á bágt með að trúa því.

Eins veit ég að námsfólk er í sömu vandræðum. Það kemur út á vinnumarkaðinn og má helst ekki hefja barneignir fyrr en 12 mánuðum eftir að námi lýkur hjá báðum foreldrum og starfsævin hefst. Eða í raun 18 mánuðum, því útreikningur á orlofi miðast við meðallaun í 12 mánuði, 6 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag. Börn gera bara ekki alltaf boð á undan sér eða fæðast eftir pöntun. Ég hef séð mörg dæmi um skert orlof hjá ungu fólki sem ég hef unnið með undanfarin ár. Það nær hugsanlega nokkrum ágætismánuðum á launum og fer svo í orlof á fæðingarstyrk eða lágu orlofi sem er aðeins brot af þeim launum sem það er á og þarf því aftur að stóla á foreldra sína eins og þegar það var að reyna að ná endum saman í skólanum og missa sjálfstæði sitt og stolt í leiðinni. Ef fólk er það heppið að hafa foreldra til að stóla á. Hinn möguleikinn er taka að sér svarta aukavinnu á meðan það er á styrknum til að bjarga málunum. Í námi er þó hægt að nýta sér námslán sem eru margföld á við fæðingarstyrkinn og ef viðkomandi hefði eignast barnið á meðan námi stóð hefði fæðingarstyrkurinn verið 177.000 kr. á mánuði sem er mun skárra en styrkurinn er að námi loknu.

Er eitthvað ódýrara fyrir þetta fólk að vera með ungbarn?

Hér er linkur inn á Vinnumálastofnun fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar: 

http://www.faedingarorlof.is/files/Upph%C3%A6%C3%B0ir%202019_232393447.pdf

Fæðingarorlof er líklega einn mikilvægasti réttur sem stéttarfélagabarátta hefur náð fram. Fyrir fæðingarorlof voru konur nánast dæmdar úr leik fjárhagslega við barnsburð ef þær höfðu ekki fyrirvinnu rétt eins og húsdýr eru háð eigendum sínum til að lifa af. Rétturinn var því stórt skref í jafnréttisbaráttunni ásamt því að gefa barninu öruggan rétt til að tengjast foreldrum sínum á mög svo mikilvægum og viðkvæmum tíma. Þessi réttur er margskonar og er einn hluti hans sá að fólk á rétt á að ganga aftur að starfi sínu að orlofi loknu sem er mjög mikilvægur réttur sem ekki kom að sjálfu sér.

Fyrir 28 árum þegar við urðum foreldrar í fyrsta skipti fékk móðirin sex mánuði í orlof og faðirinn ekki neitt. Að sjálfsögðu var það ósanngjarnt á tvennan hátt. Réttur föður og barns til að tengjast tilfinningaböndum var fyrir borð borinn. En einnig hallaði á konur í atvinnulífinu við þessi skipti, konur á barneignaaldri voru frekar til vandræða fyrir atvinnurekendur en karlar á sama aldri þar sem dýrt er fyrir fyrirtæki að missa fólk í slíkt orlof og þurfa að leysa það með bráðabirgðalausn. Sérstaklega átti þetta við um konur í ábyrgðarstöðum og í samkepnni við karla um slíkar stöður. Ég hef oft verið spurður að því í mínum rekstri hvernig ég þori að vera með svona margar konur á barneignaaldri í vinnu og hvort það sé ekki dýrt?

Þetta hefur sem betur fer verið lagað með því að móðir og faðir hafa nú jafnan rétt og svo líka sameiginlegan rétt. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera setja fólk í þá stöðu að ákveða skiptingu réttarins heldur hafa eingöngu jafnan rétt beggja. Í dag virðist móðirin nær undantekningalaust fá þann hluta allan til sín og það veldur sömu skekkjunni á vinnumarkaði og var í gamla daga. Einnig hef ég heyrt mörg dæmi um að karlar taka orlofið en halda samt áfram að vinna og fresta launagreiðslum fram yfir orlofstímann. Þannig var þessi dýrmæti réttur sem kostaði blóð, svita og tár að ná fram ekki hugsaður og er það vanvirðing við þá baráttu að nota hann á þann hátt.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband