14.3.2019 | 14:35
Afi á instagram
Þetta er pistill 3 í pistlaröðinni þar sem ég varð nýlega afi.
Stærsti munurinn á því hvernig er að verða foreldri í dag og þegar ég og konan mín stóðum í þeim sporum árið 1991 í fyrsta skipti eru samfélagsmiðlarnir.
Ég hringdi úr tíkallasíma, eins og þeir voru kallaðir, bæði í foreldra mína og tengdaforeldra til að segja þeim fréttirnar áður en ég yfirgaf fæðingardeildina. Gekk svo út af fæðingardeildinni skýjum ofar. Svo stoltur af því að vera orðinn fullorðinn. Maður með mönnum. Vera nýbakaður pabbi. Þvílíkur dagur.
Eins og komið hefur fram í fyrri pistli þurfti ég að byrja á því að koma við í Háskólanum og fá mig skráðan í sjúkrapróf sem var ekki eins auðsótt og ég hélt. Þaðan lá leiðin svo heim. Hvíla sig áður en ég færi í að hringja í þá sem stóðu okkur nærri til að segja þeim fréttirnar. Ég var spenntur yfir því að heyra í fólki í fyrsta skipti sem pabbi. Allir svöruðu heimasímanum um kvöldið, en það voru einu símar fólks á þeim tíma. Mikið var gaman að tala við allt þetta fólk og segja þeim fréttirnar, svara spurningum um kyn, þyngd og lengd, hvernig gekk og hvort öllum heilsaðist vel? Að vísu náði tengdamamma að stela frá mér þrumunni á nokkrum stöðum með því að vera á undan mér að hringja í fáeina einstaklinga. En það var allt og sumt. Ég stýrði hver fékk fréttirnar og hvenær.
Örfáir útvaldir komu á fæðingardeildina en þá voru mæður og börn þar í nokkra daga eftir fæðinguna. Eftir að við komum heim mættu nokkrir vinir og skyldmenni fljótlega til að sjá litlu stúlkuna og svo seinna litla drenginn þegar barn númer tvö kom. Enginn þurfti að halda á barninu og taka af sér mynd. Enginn þurfti að sýna heiminum hvað þau hefðu fundið öfluga lækvél. Svo kom fólk reglulega í heimsókn til að fylgjast með, fá kaffi og spjalla. Við fórum líka og heimsóttum afa og ömmur og til að að sýna langafa og langömmu barnið. Mikil gleði en samt mikil friðsemd. Enginn kom án þess að gera boð á undan sér og við höfðum alltaf stjórn á aðstæðum.
Bomm. Og svo komu samfélagsmiðlarnir. Læk-keppnin og allt það.
Nýbakaðir forleldrar taka sjálfu á fæðingadeildinni og pósta. Þá er það komið. Allir setja komment um hvað barnið er mikið krútt og þá er það frá. Svo er komið heim einum til tveimur dögum eftir fæðinguna og þá kemur strollan. Litla barnið situr fyrir í fangi allra og beint á insta, fb og snap. Viðbrögðin aldrei betri og allir fylla á læktankinn. Fá að vera smá stjörnur á insta um stund. Foreldrarnir sjá svo til þess að allir fylgjast með barninu í gegnum samfélagsmiðla öllum stundum, svo heimsóknir hafa í raun bara einn tilgang. Að fá sjálfu til að græða smá á vinsældum barnins á samfélagsmiðlum.
Svo eru allar óskráðu reglurnar sem sífellt eru brotnar fyrir misskilning. Til dæmis fólkið sem póstar mynd af skírnarkökunni með nafni barnsins áður en foreldrarnir eru búnir að því. Hver er fyrstur með fréttirnar um hvort það verði strákur eða stelpa? Hverju má pósta og hverju má ekki pósta? Hvernig setjur maður reglurnar og hvernig kynnir maður reglurnar fyrir fólki? Þetta er allt flókið og viðkvæmt.
Nú skal ég ekki dæma um það hvor tíminn var eða er betri. Nýjum tímum fylgja breytingar og þetta er ein þeirra. Börn sem fædd eru í dag eiga lifandi myndaalbúm út ævina þar sem allt er skráð, allt er myndað og allir geta fylgst með. Ekkert hverfur af netinu það sem eftir er ævinnar. Sem betur fer er ekki allt skrásett á mynd sem ég gerði sem barn og þess vegna get ég nú stílfært það eins og ég vil mér í hag og sleppt því sem ég vil ekki að hafi gerst. Því ég var að sjáfsögðu fullkominn og ef einhver segir eitthvað annað, þá þarf viðkomandi að sanna það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.