18.4.2023 | 13:42
Nýtum tímann
Það er aldrei tími
en samt er ég alltaf að bíða
Það er aldrei tími
en samt kemur nýr dagur
Eftir hverju er ég að bíða,
það er kominn nýr dagur.
Það skrítna við tímann er hvað hann er afstæður. Sundum er hann ótrúlega lengi að líða en stundum er hann allt í einu bara búinn. Stundum myndum við vilja getað spólað áfram og stundum til baka. Það er ansi oft sem ég væri til í að geta spólað til baka en það er því miður, eða sem betur fer, ekki búið að finna upp leið til að spóla fram og til baka í tíma.
Við erum alltaf að mæla tímann sem einingu til verðmæta en verðmætin sem koma út úr því eru ekki mæld í tíma. Einn af snillingum Íslands, Gísli Rúnar heitinn, átti eitt sinn fleyga setningu þegar hann var að skrifa grín fyrir Bylgjuna. Þar var verið að þræta um hversu mikið ætti að borga fyrir grínið og reynt að setja skrifin í tímaeiningar. Grín er ekki mælt í metrum, sagði Gísli Rúnar, því grín er annað hvort fyndið eða ekki. Sama hversu langan eða stuttan tíma tekur að semja það. Björn Jörundur var einnig að velta fyrir sér þessum mælieiningum í laginu Verðbólgin augu (íslenska krónan) og hvernig hún væri mæld í metrum og pundum. En tímakaupið væri svo misjafnt, þannig að sumar krónur væru lengri en aðrar: eru mínar því lengri en hans?
En einhvern veginn verðum við að mæla þessi verðmæti. Tíminn er nefnilega svo skrítinn að það er nóg til af honum en hvert og eitt okkar fær bara ákveðið mikið. Við fáum öll 24 klukkustundir á sólarhring og ráðum hvað við gerum við þær. Við bara vitum ekki hversu marga sólarhringa við fáum. Það er svo bara val hvers og eins hvað hann gerir við sólarhringana sína.
Þegar ég var 27 ára var ég í starfi sem ég elskaði ekki en borgaði vel. Á þeim tíma vorum við hjónin að byggja og þurftum á peningunum að halda. En þegar morgnarnir urðu þyngri og þyngri og dagurinn í þessu starfi lengri og lengri, þá á endanum varð ég að taka ákvörðun. Ég sagði upp og ákvað í leiðinni að vinna aldrei aftur peninganna vegna, heldur að þeir yrðu afleiðing af því sem ég gerði. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt, en alltaf skemmtilegt.
Það er nefnilega þannig að tíminn er skrítin eining, en gleði er önnur skrítin eining. Ef tíminn færir þér ekki gleði, þá er tímanum illa varið.
Ég þekki marga sem hafa varið ævinni í að safna peningum og gengið mjög vel í því. Það hefur fært sumum þeirra gleði. En fyrir mig, þá skiptir meira máli að safna minningum. Það færir mér gleði.
Ég hef því aldrei séð eftir þeirri ákvörðun að hætta að vinna peninganna vegna. Það eina sem þarf að passa er að hafa ekki of mikla greiðslubyrði. Því þá ræður fólk ekki við hvað það vinnur og verður að velja peninga umfram gleðina þegar það velur sér starf. Þannig að til að hafa efni á að geta sagt nei við leiðinlegri vinnu, sama hvað hún borgar, þá þarf að hafa lága greiðslubyrði.
Gamalt kínverskt máltæki segir: Það er bara ein leið til að verða ríkur, það er að eyða minna en þú aflar. Það er mjög gaman að velta fyrir sér þessari setningu. Margir halda að þeir þurfi háar tekjur til að eignast hluti og lifa góðu lífi. En það er líka hægt að skoða það hinum megin frá og skoða hvernig maður ráðstafar fénu og stilla það af út frá tekjunum.
Trixið er að ná nógu góðum ballans í því hvernig við nýtum tímann til að færa okkur sem mesta gleði. Það felst í því að hafa markmið og tilgang.
Fyrir mörgum árum síðan hætti ég að fresta hlutum sem ég get afgreitt strax. Það hefur virkað mjög vel. En stundum gleymi ég mér og hlutir safnast upp. Þá þarf ég að taka mér tak og rjúka í hlutina. Ókláruð verkefni veita mér enga gleði.
Að gleðja aðra veitir mikla gleði, sem og að hugsa um nærumhverfi sitt. Þar þarf líka að finna ballans í því hversu mikið maður hugsar um aðra og hversu mikið sjálfan sig. Því það er svo rétt sem sagt er í flugvélunum. Settu grímuna fyrst á þig og svo á barnið. Þeir sem hugsa ekki um sjálfan sig geta ekki hugsað um aðra.
Hvert fór tíminn?
Hann var hér í gær
Hann var hér í magni
Það gengur betur næst
Er eitthvað næst?
Það er bara nú og þá
Næst er uppselt
Og jæja,
þar fór það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.