10.3.2025 | 14:31
Er heimurinn kominn á hvolf?
Hvað gerist þegar heimurinn fer á hvolf? Bandaríkin standa allt í einu fyrir eitthvað allt annað en þau hafa staðið fyrir. Disruption er orðið sem hægt væri að nota á ensku yfir það sem er að gerast. Og það eru ekki bara Bandaríkin sem eru að breytast, þær breytingar hafa bara mest áhrif.
Það sem virðist gerast fyrst er að lækkanir verða á mörkuðum. Óróleiki er aldrei góður í viðskiptum. Óvissa er enn verri og nú fer óróleiki og óvissa saman, sem er yfirleitt mjög slæm blanda.
Fyrir okkur Íslendinga skiptir, held ég, mestu máli að halda ró okkar og muna að öskur á samfélagsmiðlum gerir ekkert. Getum við haft áhrif á það sem er að gerast? Eða þurfum við frekar að setja orkuna okkar í að velta fyrir okkur: Hvernig ætlum við að bregðst við þessum breytingum? Það er nefnilega þannig að aðlögunarhæfni og snöggt viðbragð er okkar helsti kostur. Heimurinn hefur oft farið á hvolf síðustu 100 ár og í hvert sinn hefur Ísland breyst á undrahraða. Einnig hefur það oft verið þannig að Ísland hefur grætt á slíku í alþjóðlegu samhengi.
Síldin kom og fór margsinnis á 20. öldinni. Alltaf aðlöguðum við okkur að því hvort hún var eða var ekki.
Eftir efnahagshrunið þá losnaði um mikið af mjög hæfileikaríku fólki úr bankageiranum sem þurfti að gera eitthvað nýtt. Þetta fólk hafði mikla reynslu úr fjárfestingum og af því að hugsa stórt. Á sama tíma var gengi gjaldmiðils okkar lágt og Eyjafjallajökull breytti flugsamgöngum í Evrópu. Ísland var í öllum fréttatímum og ekki fyrir það hvað hér er frábært að vera og fallegt. Nei, fyrir eldgos sem lokaði á allar flugleiðir og olli hræðslu fólks við landið. I hate Iceland, varð að þekktum frasa. Mitt í þessu ati þá er tekin sú ákvörðun að fjárfesta sérstaklega í ferðaþjónustu og vekja athygli á landinu alþjóðlega, Inspired by Iceland varð til og íslenska þjóðin sameinaðist um að senda myndband með laginu Jungle drum á alla sem þau þekktu erlendis. Ferðaþjónustufyrirtækin voru ótrúlega fljót að aðlagast auknu streymi fólks og mikil fjárfesting varð í ferðaþjónustu. Niðurstaðan: Ferðaþjónustan er núna sú atvinnugrein sem skaffar mestan gjaldeyri inn í landið og ný stoð varð til undir hagkerfi Íslands. Snöggt viðbragð, samstaða og aðlögunarhæfni þjóðarinnar gerði þetta að verkum.
Sama gerðist í og eftir Covid. Ég þurfti að ferðast talsvert á þeim tíma og hvergi í heiminum var jafn gott skipulag á því hvernig fólk færi í gegnum flugvöll eins og á Íslandi, fengi covid próf, niðurstöður og slíkt. Hagkerfið náði sér svo mjög hratt og fullhratt á meðan mörg hagkerfi voru mjög lengi að komast í gang og ferðamennskan hefur einnig í flestum löndum og ekki enn komist á sama stað og fyrir Covid.
Núna stöndum við frammi fyrir því að heimurinn er að snúast á hvolf. Þá höfum við valið um að væla eða gera. Við höfum sögulega verið meira í að gera en væla og því held ég að við getum verið viss um að Ísland mun finna leið til að aðlagast hratt. En mörg lönd munu lenda í mikilli kreppu þar sem viðskiptabreytingar verða miklar og aðlögunarhæfnin er lítil.
Fljótlega verðum við að hugsa hluti á allt annan hátt en fyrir nokkrum vikum. Það sem okkur þótti rétt þá er ekki endilega rétt lengur. Þeir sem voru vissir um að Evrópusambandið væri ekkert fyrir okkur þurfa hugsanlega að skipta um skoðun eða öfugt. Hugsanlega þurfa Evrópusinnar að endurhugsa hvort það sé rétta leiðin fyrir Ísland núna. En næstu vikur og mánuðir leiða í ljós hvort borgar sig. Að ná að sigla á milli skers og báru og nýta ástand viðskiptastríðsins og geta átt vini í báðar áttir eða hvort það borgar sig að halla sér algjörlega í aðra áttina. Mun ofuráhersla Bandaríkjanna á að komast yfir Grænland búa til einhver tækifæri fyrir Ísland með auknum umsvifum á Grænlandi? Mun nánara samstarf Grænlands og Íslands geta fært báðum þjóðum tækifæri sem verða verðmæti báðum megin Atlantshafs? Eða munum við þurfa að endurhugsa okkar helstu útflutningsgreinar og finna nýja lykilmarkaði? Hugsanlega í Austur-Asíu? Sama hvað verður, þá borgar sig að ana ekki að neinu fyrr en ljóst er hvernig hin nýja heimsmynd lítur út. Það mun líklega ekki taka nema nokkrar vikur í viðbót eins og hraðinn á þessu er núna. Á þeim tímapunkti er ljóst að hvað sem sagt var áður þá verður það líklega ekki viðeigandi þá og við þurfum að aðlagast hratt að nýjum veruleika. Sem betur fer fyrir Ísland er það einmitt það sem við, veiðimannaþjóðin, Íslendingar erum best í.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning