10.4.2025 | 13:44
Leiðtogi heimsækir Noreg
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, ásamt Birni Skúlasyni, aka upp að höllinni í Osló. Þau aka upp Karl Johans-strætið sem er skreytt með borðum í íslensku fánalitunum ásamt þeim norsku. Íslenskir fánar eru á annarri hvorri fánastöng upp götuna að höllinni og sá norski á hinum. Þau sveigja út úr bílalest herbíla, mótorhjóla og erindreka og stoppa við aðalinngang hallarinnar þar sem Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning taka á móti gestunum ásamt krónprinsinum Haakoni, eiginkonu hans, Mette-Marit krónprinsessu, og Ingrid Alexandra prinsessu, sem nýlega varð 21s árs og er nú að stíga sín fyrstu opinberu skref. Lúðrasveit norska hersins leikur íslenska þjóðsönginn til heiðurs forsetahjónunum og ég er ekki frá því að lítið tár hafi myndast á meðan flutningnum stóð og ég sá þá að mér sýndist það sama vera að gerast hjá Höllu forseta.
Móttökur norska konungsdæmisins voru einstaklega fallegar og mikilfenglegar. Mikill menningarmunur hvað þetta varðar var áberandi milli þessara tveggja þjóða. Daginn eftir var ég staddur í hádegisverði í ráðherrabústaðnum bak við höllina, í boði forsætisráðherra Noregs til heiðurs Höllu og heimsókn hennar til Noregs. Maður fann fyrir hátíðleikanum og mikilfengleikanum þegar konungurinn var viðstaddur, og hvernig siðirnir og virðingin fyrir konungsembættinu eru djúp. Einnig fann maður hvernig það litaði andrúmsloftið og hélt athygli okkar allra við þá staðreynd að við værum heppin að fá að vera í návist konungsins.
Í þessu leitaði hugur minn til heimsóknar sem ég átti til Bergen fyrir nokkrum vikum. Bergen er fyrrum höfuðborg Noregs. Þar var ég staddur á sjávarútvegsráðstefnu og var að kynna mér áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi til að geta betur leyst markaðslegar áskoranir viðskiptavina okkar. Þar bauð borgarstjóri Bergen til veislu í Hákonshöll eða Höll Hákons. Sú höll var einmitt byggð á 13. öld og hafði mikilvægt hlutverk í samskiptum ríkja á þessum tíma. Þá var Hákon konungur að reyna að fá höfðingja Íslands til að samþykkja sig sem konung og að Ísland yrði hluti af norsku krúnunni.
Það sem við þurfum að hafa í huga í þessu samhengi er að Ísland var á þessum tíma ekki einhver lítil eyja þar sem fólk „lapti dauðann úr skel“. Ísland var þá ekki svo mikið fámennara en Noregur. Landið var auðugt, með yfirráð yfir lykilviðskiptaleiðum á Norður-Atlantshafi, þar sem t.d. rostungsafurðir eins og fita, húðir og tennur voru mjög verðmætar. Ull var einnig verðmæt og Íslendingar höfðu náð góðum tökum á fjárbúskap og vefnaði. Skipakostur var ágætur og mikil viðskipti stunduð um hafið. Konungur Noregs sá líklega að með því að ná stjórn frá Grænlandi, þar sem rostungur var enn til, yfir Ísland og alla leið til Noregs væri hann í lykilstöðu til að skattleggja alla þessa verslun og auka þar með tekjur sínar og völd.
Til að ná því þurfti hann að selja þessum væntanlegu bandamönnum sínum þá hugmynd að það væri einnig þeim í hag. Þess vegna hugsaði Hákon líklega: „Ef ég byggi svona höll og sýni þeim slíkar móttökur að þeir finni sig minni máttar og sjái ríkidæmi mitt þá verð ég alltaf með yfirhöndina í okkar samtölum.“ Og um leið væri sýnt hversu eftirsóknarvert væri að vera hluti af norsku hirðinni og njóta hlutdeildar í skatttekjunum. Við þekkjum niðurstöðuna: Árið 1262 afsöluðu Íslendingar sér sjálfstæði með undirritun Gamla Sáttmála og höfðingjarnir sömdu um hlut í skatttekjunum fyrir sig og sína erfingja.
En aftur að opinberri heimsókn Höllu til Noregs: Í þetta skiptið var það aftur frjáls þjóð sem heimsótti Noreg. Noregur sýndi sínar bestu hliðar, bæði í veðri og umgjörð. Nú var það Halla Tómasdóttir sem veitti öllum innblástur svo mikið að allir sem hlustuðu vildu fylgja henni og hennar sýn. Hún talaði um nánara samstarf Norðurlanda á þann hátt að hún virtist kjörin til að leiða slíkt samstarf, þar sem 11. stærsta hagkerfi heims gæti haft áhrif á gildismat heimsins til góðs.
Ég og aðrir sem voru viðstaddir fylltumst stolti yfir því að vera Íslendingar eða Norðmenn og yfir okkar norrænu gildum. Hversu verðmæt þau eru og hversu góð og sanngjörn lífsskilyrði þau hafa skapað okkur öllum.
Eftir eina ræðu Höllu í Noregi hugsaði ég til stundarinnar þegar höfðingjar Íslands ákváðu að ganga Noregskonungi á hönd árið 1262 hugsanlega fyrir eigin hagsmuni. Ég velti því fyrir mér: Hvað hefði gerst ef Hákon Noregskonungur hefði fengið Höllu Tómasdóttur í heimsókn þá? Kannski hefði Hákon áður en hann vissi af ákveðið að fylgja Höllu og sagan hefði orðið allt önnur.
Takk, Halla, fyrir að sýna okkur hvað það er að vera leiðtogi og að fylla okkur öll stolti yfir því að vera Íslendingar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning