Ég varð síðastur

Árið var 2016 og ég var rétt að verða 48 ára. Ég var illa farinn bæði andlega og líkamlega eftir ýmis vandamál, bæði í rekstri og í persónulega lífinu, árin á undan. Ég fann að ég var u.þ.b. að klessa á vegg enda hafði ég reynslu af því frá því ég var um þrítugt. Ég þekkti sjálfan mig nógu vel til að vita að ég yrði að gera eitthvað nýtt og búa mér til „me time“ með hreyfingu og hugleiðslu.

Ég hafði fylgst með kajak-ræðurum út um gluggann heima hjá mér í nokkur ár en aldrei látið verða af því að prófa sjálfur. Eftir nokkra leit fann ég ódýran kajak með öllu tilheyrandi á netinu og fjárfesti í honum. Heimsótti svo Kayakklúbbinn sem er í fjörunni fyrir neðan heima hjá mér og spurði hvort hægt væri að fá að róa með þeim. Mér var vel tekið og fékk að vita hvenær félagsróðrar væru og mætti á tilsettum tíma í einn slíkan. Valinn var formaður róðrarins sem tilkynnti öllum hvert yrði farið og svo var farið yfir einhverjar reglur. Ég var spenntur og allt var nýtt svo ég meðtók hreint ekki allt. Hugurinn leitaði í allar áttir um það sem í vændum var.

Við rérum af stað í litlum vindi og ég reyndi hvað ég gat að halda í við hópinn. U.þ.b 70 ára gömul kona tók fljótlega fram úr mér en ég dróst aftur úr. Reglulega var beðið eftir mér, en um leið og ég náði hópnum lagði formaðurinn aftur af stað og því ekki um neina hvíld að ræða fyrir mig. Ég hef yfirleitt verið frekar góður í öllum íþróttum og fljótur að ná hlutunum. Því fór þetta talsvert í mig að vera ekki betri ræðari en þetta. Þarna var ég löðursveittur kominn með verki í handleggina að hamast með röngum vöðvum í að koma mér áfram, örvæntingarfullur yfir því að vera ekki góður, sterkur og fullkominn á meðan eldri borgarar liðu um yfirborð sjávarins eins og þau ættu heiminn og blésu ekki úr nös. Í þokkabót bætti jafnt og þétt í vind allan tímann.

Lagt var af stað frá Geldinganesi og farið í kringum Viðey og svo aftur inn í víkina við Geldinganes og þar lauk ferðinni. Þessi leið er um 8 kílómetrar, sem er í lengri kantinum fyrir byrjanda að róa. Ég tók á öllu sem ég átti til að verða mér ekki til skammar síðasta kílómetrann í þokkalegri öldu og vindi. Rétt áður en ég kom að landi sá ég að maður nokkur var reyndar fyrir aftan mig og létti mér mikið við að sjá það. Ég var þá ekki síðastur. Það var alla vega einn í hópnum sem reri hægar en ég.

Þreyttur bar ég kajakinn upp á pallinn hjá klúbbhúsinu og fór að spjalla við fólk og reyna að bera mig vel. Mikil gleði var í hópnum, allir uppfullir af endorfíni eftir róðurinn og ég boðinn velkominn í klúbbinn. Maðurinn sem kom á eftir mér í mark brosti til mín og hrósaði mér fyrir frammistöðuna. Bæði væri veðrið ekki það auðveldasta fyrir byrjanda og eins að hringurinn væri í lengri kantinum fyrir fyrsta félagsróður, sagði hann mér.

Ég var ánægður með að maður sem var enn hægari en ég, og greinilega ekki að fara sinn fyrsta hring, skyldi sjá ástæðu til að hrósa mér. En svo hélt hann áfram að tala við mig um róðrartækni og hvernig ég gæti bætt mína. Fljótlega áttaði ég mig á því að þetta var einn reyndasti ræðarinn í klúbbnum. Hann var víst bara fyrir aftan mig til að vera tilbúinn ef eitthvað kæmi fyrir mig, hafði verið öryggisvörðurinn minn allan tímann án þess að ég bæði neinn um það. Ég var auðvitað mjög þakklátur fyrir að hann skyldi hafa tekið þetta að sér en á móti þá áttaði ég mig á því að ég var síðastur og hægastur. Einnig komst ég að því að ávallt í félagsróðrum er reyndur einstaklingur aftast, til öryggis ef eitthvað kemur upp á.

Þegar ég var búinn að gera þetta allt upp í huganum áttaði ég mig á því að ástæðan fyrir því að ég væri svona illa staddur andlega og líkamlega var að egóið mitt væri að þvælast fyrir mér. Í stöðugri keppni við allt og alla. Þarna var minn vendipunktur og batinn gat hafist. Ég vildi mikið frekar vera sá sem kann og róa aftast en sá sem ekkert kann og hamast við að vera ekki aftastur.

Núna er árið 2025 og ég ræ enn kajökum annað slagið. Er í kajakklúbbi bæði í Ósló og í Reykjavík. Tek kajakana mína oft á Þingvallavatn og til Hríseyjar. Nýt þess að fljóta við yfirborðið eins og fuglarnir sem sitja á því, rétt aðeins hærri en selirnir sem kíkja reglulega á mig ef ég er á sjó. Ég tek ekki tímann og reyni ekki að setja met. Ég er bara að njóta og beiti líkamanum rétt. Ég skildi þarna loksins, orðinn 48 ára gamall, að lífið er ekki keppni. Því ef lífið væri keppni og sá sem kæmi fyrstur í mark ynni, þá værum við að flýta okkur að tikka í öll boxin áður en við enduðum í okkar eigin boxi, helst eins snemma og hægt væri. Ég ákvað að hætta að keppa og reyna frekar að miðla, styðja og vera til staðar. Fara mér hægar (ekki alltaf tekist) og njóta betur. Anda dýpra og fara ekki á taugum yfir einhverju sem annað hvort er ekki í mínum höndum og engu breytir hvort ég stressa mig upp eða ekki um útkomuna. Það sem gerist bara gerist.

Ég hófst handa við að breyta starfinu mínu og treysta öðrum fyrir sínu. Vera frekar til staðar ef hlutir eru ekki að ganga upp og sjá hvort ég get orðið að liði. Vinna með yngsta fólkinu, miðla þekkingu og reynslu, þau koma svo með sýna snilli til viðbótar og oftar en ekki verður úr því galdur. Hætti að þurfa að eiga heiður af öllu sem ég kom nálægt, ég veit hvað ég get og hverju ég hef áorkað.

Það hentar mjög vel að aðrir fái að skína, aðrir fái að stækka, því það eru aðrir sem þurfa að taka fyrirtækið lengra. Ég er bara eitt af púslunum til þess að heildarmyndin komi saman. Rúmu ári eftir þennan fyrsta róður fékk ég aðra hugljómun þegar ég skoðaði jólakort sem við Silja fengum. Þar var mynd af álftum í oddaflugi með fróðleik undir um það að álftirnar skiptist á að vera fremstar því ef ein þráast við að vera of lengi fremst, þá deyr allur hópurinn. Gott ef ég sá ekki eitthvað líkt með mér og álftinni sem var að þráast við að fljúga fremst fyrir mig en ekki fyrir hópinn. Ég hætti sem framkvæmdastjóri Pipars stuttu síðar og fór að gera aðra hluti innan fyrirtækisins og sé ekki eftir því, enda bötnuðu margir hlutir í rekstrinum við það og nýjar hugmyndir komust betur að.

Ég er mjög feginn því að hafa áttað mig á þessu þó seint væri og ekki síst að það hafi gerst áður en ég varð afi. Það er einmitt svipað hlutverki reynda ræðarins sem var aftast í róðrartúrnum. Í því hlutverki langar mig að njóta, miðla og vera til staðar.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband