Ósanngjarnt og illa ígrundað

Það vakti undrun mína þegar fjármálaráðherra, sem að mörgu leyti er að gera góða hluti, hélt því fram að það að leggja af samsköttun para myndi nánast eingöngu hafa áhrif á hátekjufólk, aðallega karla, og að því væri þetta allt í lagi og kallaðist ekki skattahækkun. Hér finnst mér grundvallarspurningin sú hvort heimili með mjög misjafnar tekjur á milli einstaklinga eigi að greiða meira til samfélagsins en heimili með jafnari tekjuskiptingu en sömu heildartekjur. Af hverju ætti það að vera þannig?

Ég ákvað því að taka saman raunveruleg dæmi þriggja heimila og skoða hvaða áhrif þessi breyting mun hafa á þau. Tekjur í dæmunum eru skattstofn einstaklinganna, líkt og reiknivél fjármálaráðuneytisins miðar við og kallar „tekjur“.

Tökum fyrst eitt heimili (heimili 1) þar sem annar makinn er sölumanneskja og hinn leikskólaliði. Sölumanneskjunni hefur gengið vel og er með að meðaltali 1.974.000 kr. á mánuði. Það þykir flestum ansi góð laun. Hin manneskjan er með um 517.000 kr. á mánuði í leikskólanum, og því eru samanlagðar tekjur heimilisins um 2,5 milljónir á mánuði eða samtals 30 milljónir á ári.

Annað heimili (heimili 2) er með tvo viðskiptafræðinga þar sem báðir makar eru með á bilinu 1.200.000 til 1.300.000 kr. á mánuði, samtals um 2,5 milljónir á mánuði — sem sagt sömu heildartekjur og heimili 1.

Bæði heimilin eru með svipaðar aðstæður: tvö börn undir 12 ára og í eigin húsnæði.

Heimili 1 greiðir í dag 766.040 kr. í skatta á mánuði eftir endurgreiðslu vegna samsköttunar. Heimili 2 greiðir 751.159 kr. á mánuði sem þýðir að heimili 1 greiðir nú þegar 14.881 kr. meira. Eftir afnám samsköttunar mun staðan versna verulega fyrir heimili 1, sem mun greiða 801.445 kr. í tekjuskatt á mánuði, eða 50.285 kr. meira en heimili 2. Þetta er aukning upp á 424.848 kr. á ári, sem bætist ofan á núverandi hærri skattgreiðslu heimilisins, sem gerir samtals 603.432 kr. hærri árlega skattheimtu. Það munar um minna fyrir heimili með tvö börn undir 12 ára.

Þá vaknar spurningin: Er sanngjarnt að heimili þar sem einstaklingar eru með svipaðar tekjur greiði minna til samfélagsins en heimili með sömu heildartekjur en meiri mismun á milli einstaklinga? Er það réttlætanlegt vegna þess að okkur finnst of mikið bil á milli tekna einstaklinganna? Og er eðlilegt að halda því fram að þetta hafi bara áhrif á hátekjufólk og því sé þetta ekki skattahækkun? Þetta hefur áhrif á alla á heimilinu, þar sem 424.000 kr. eru nú ekki lengur í sameiginlegan rekstur heimilisins. Þá ber einnig að nefna að heimili 1 hafði þegar minni rétt til tilfærslu tekna vegna þaksins sem er á slíkri tilfærslu og hefur því þegar verið að greiða hærri skatta en heimili 2 vegna þess.

Önnur rök sem hafa verið notuð eru að þetta sé jafnréttismál. En á hvaða hátt er það jafnrétti kynjanna? Er öruggt að tekjuhærri einstaklingurinn sé karlkyns? Og þó svo sé, hvernig breytir það sanngirnismati í skattamálum? Er það ekki frekar ójafnrétti að fjölskyldur með sömu tekjur greiði mismikið í samfélagskostnað?

Bætum svo við heimili 3. Þar er annar aðilinn fjármálaverkfræðingur með 1.457.000 kr. á mánuði og hinn vefhönnuður með 1.015.000 kr. samtals 2.472.200 kr. á mánuði, sem er tæplega 30.000 kr. lægra en hjá hinum heimilunum tveimur. Núverandi skattgreiðsla er 740.446 kr. á mánuði. Eftir breytingarnar verður hún 751.392 kr. — hækkun upp á rúmlega 11.000 kr. á mánuði, eða 131.346 kr. á ári. Þetta heimili er með lægri heildartekjur en heimili 2, en greiðir samt 232 kr. hærri skatt á mánuði. Það gengur varla upp.

Í einu dæmanna er konan tekjuhærri. Í öðru eru báðir makar karlar. Og í því þriðja er karl tekjuhærri. Fullyrðingar um að þetta sé jafnréttismál falla því um sjálft sig.

Reglurnar í dag takmarka tilfærslu tekna með þaki upp á 400.000 kr. Þetta var ætlað til að skattleggja svokölluð ofurlaun betur — sem heimili 1 hafði þegar fundið fyrir. En með afnámi hagræðis vegna samsköttunar getur orðið að pör sem ekki fá vaxtabætur í dag gætu skyndilega átt rétt á þeim, ef þau skrá sig ekki lengur í samsköttun, til dæmis ef aðeins annar aðilinn er skráður fyrir húsnæðisláninu og 50% eignarhlut.

Sama gildir um barnabætur og önnur réttindi. Það gæti orðið niðurstaðan á heimili 1; fjölskylda sem áður þurfti engar bætur gæti skyndilega byrjað að þiggja þær. Og það væri ekki vegna breyttra aðstæðna heldur einfaldlega vegna breytinga á skattkerfinu.

Við sjáum því að þetta snýst ekki bara um hátekjufólk. Og ekki bara um karla. Þetta er skattahækkun sem bitnar sérstaklega á tilteknum hópi fólks, þ.e. 6% íbúa landsins, sem er andstæða við réttlæti og enn síður jafnrétti.

En jafnframt er önnur afleiðing sem þarf að huga að. Með afnámi hagræðis samsköttunar hverfur hvati til þess að fólk í sambúð skrái sig saman til samsköttunar. Það gæti haft í för með sér að fólk fari að endurmeta stöðu sína og hvort það yfirhöfuð borgi sig lengur að ganga í hjónaband og vera skyldað til samsköttunar.

Þetta er því ekki aðeins spurning um skatta, heldur um grundvallarbreytingar á hvötum í samfélaginu. Hvatar sem hafa hingað til stuðlað að sameiginlegri ábyrgð og réttindum innan fjölskyldueininga.

Raunveruleikinn virðist vera sá að það vantar peninga í ríkissjóð og það er leitað allra leiða til að auka tekjur, án þess að það sé kallað skattahækkun. En þetta er skattahækkun. Og hún er bæði ósanngjörn og illa ígrunduð.


Leiðtogi heimsækir Noreg

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, ásamt Birni Skúlasyni, aka upp að höllinni í Osló. Þau aka upp Karl Johans-strætið sem er skreytt með borðum í íslensku fánalitunum ásamt þeim norsku. Íslenskir fánar eru á annarri hvorri fánastöng upp götuna að höllinni og sá norski á hinum. Þau sveigja út úr bílalest herbíla, mótorhjóla og erindreka og stoppa við aðalinngang hallarinnar þar sem Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning taka á móti gestunum ásamt krónprinsinum Haakoni, eiginkonu hans, Mette-Marit krónprinsessu, og Ingrid Alexandra prinsessu, sem nýlega varð 21s árs og er nú að stíga sín fyrstu opinberu skref. Lúðrasveit norska hersins leikur íslenska þjóðsönginn til heiðurs forsetahjónunum og ég er ekki frá því að lítið tár hafi myndast á meðan flutningnum stóð og ég sá þá að mér sýndist það sama vera að gerast hjá Höllu forseta.

Móttökur norska konungsdæmisins voru einstaklega fallegar og mikilfenglegar. Mikill menningarmunur hvað þetta varðar var áberandi milli þessara tveggja þjóða. Daginn eftir var ég staddur í hádegisverði í ráðherrabústaðnum bak við höllina, í boði forsætisráðherra Noregs til heiðurs Höllu og heimsókn hennar til Noregs. Maður fann fyrir hátíðleikanum og mikilfengleikanum þegar konungurinn var viðstaddur, og hvernig siðirnir og virðingin fyrir konungsembættinu eru djúp. Einnig fann maður hvernig það litaði andrúmsloftið og hélt athygli okkar allra við þá staðreynd að við værum heppin að fá að vera í návist konungsins.

Í þessu leitaði hugur minn til heimsóknar sem ég átti til Bergen fyrir nokkrum vikum. Bergen er fyrrum höfuðborg Noregs. Þar var ég staddur á sjávarútvegsráðstefnu og var að kynna mér áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi til að geta betur leyst markaðslegar áskoranir viðskiptavina okkar. Þar bauð borgarstjóri Bergen til veislu í Hákonshöll eða Höll Hákons. Sú höll var einmitt byggð á 13. öld og hafði mikilvægt hlutverk í samskiptum ríkja á þessum tíma. Þá var Hákon konungur að reyna að fá höfðingja Íslands til að samþykkja sig sem konung og að Ísland yrði hluti af norsku krúnunni.

Það sem við þurfum að hafa í huga í þessu samhengi er að Ísland var á þessum tíma ekki einhver lítil eyja þar sem fólk „lapti dauðann úr skel“. Ísland var þá ekki svo mikið fámennara en Noregur. Landið var auðugt, með yfirráð yfir lykilviðskiptaleiðum á Norður-Atlantshafi, þar sem t.d. rostungsafurðir eins og fita, húðir og tennur voru mjög verðmætar. Ull var einnig verðmæt og Íslendingar höfðu náð góðum tökum á fjárbúskap og vefnaði. Skipakostur var ágætur og mikil viðskipti stunduð um hafið. Konungur Noregs sá líklega að með því að ná stjórn frá Grænlandi, þar sem rostungur var enn til, yfir Ísland og alla leið til Noregs væri hann í lykilstöðu til að skattleggja alla þessa verslun og auka þar með tekjur sínar og völd.

Til að ná því þurfti hann að selja þessum væntanlegu bandamönnum sínum þá hugmynd að það væri einnig þeim í hag. Þess vegna hugsaði Hákon líklega: „Ef ég byggi svona höll og sýni þeim slíkar móttökur að þeir finni sig minni máttar og sjái ríkidæmi mitt þá verð ég alltaf með yfirhöndina í okkar samtölum.“ Og um leið væri sýnt hversu eftirsóknarvert væri að vera hluti af norsku hirðinni og njóta hlutdeildar í skatttekjunum. Við þekkjum niðurstöðuna: Árið 1262 afsöluðu Íslendingar sér sjálfstæði með undirritun Gamla Sáttmála og höfðingjarnir sömdu um hlut í skatttekjunum fyrir sig og sína erfingja.

En aftur að opinberri heimsókn Höllu til Noregs: Í þetta skiptið var það aftur frjáls þjóð sem heimsótti Noreg. Noregur sýndi sínar bestu hliðar, bæði í veðri og umgjörð. Nú var það Halla Tómasdóttir sem veitti öllum innblástur svo mikið að allir sem hlustuðu vildu fylgja henni og hennar sýn. Hún talaði um nánara samstarf Norðurlanda á þann hátt að hún virtist kjörin til að leiða slíkt samstarf, þar sem 11. stærsta hagkerfi heims gæti haft áhrif á gildismat heimsins til góðs.

Ég og aðrir sem voru viðstaddir fylltumst stolti yfir því að vera Íslendingar eða Norðmenn og yfir okkar norrænu gildum. Hversu verðmæt þau eru og hversu góð og sanngjörn lífsskilyrði þau hafa skapað okkur öllum.

Eftir eina ræðu Höllu í Noregi hugsaði ég til stundarinnar þegar höfðingjar Íslands ákváðu að ganga Noregskonungi á hönd árið 1262 hugsanlega fyrir eigin hagsmuni. Ég velti því fyrir mér: Hvað hefði gerst ef Hákon Noregskonungur hefði fengið Höllu Tómasdóttur í heimsókn þá? Kannski hefði Hákon áður en hann vissi af ákveðið að fylgja Höllu og sagan hefði orðið allt önnur.

Takk, Halla, fyrir að sýna okkur hvað það er að vera leiðtogi og að fylla okkur öll stolti yfir því að vera Íslendingar.


Að pissa eins og maður meini það

Flesta fimmtudagsmorgna í Pipar\TBWA eru fyrirlestrar um eitthvað áhugavert. Stundum eitthvað sem við erum að vinna að og stundum koma utanaðkomandi fyrirlestrar um áhugaverð umræðuefni. Þegar ég er staddur á Íslandi reyni ég að ná þessum fyrirlestramorgnum. Um daginn var þar fyrirlestur um breytingaskeið kvenna. Ég hlustaði af áhuga enda erum ég og Silja konan mín á þeim aldri að þetta umræðuefni kemur okkur talsvert við. Fyrirlesturinn var góður og varpaði betri sýn og skilningi á margt. T.d. skil ég núna að breytingaskeið kvenna hefst ekki við það að konur hætti á blæðingum. Það hefst mun fyrr.

Einnig var þar minnst á breytingaskeið karla sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Ég var því forvitinn og spurði meira út í það. Fyrirlesarinn sagðist einungis sérfræðingur í breytingaskeiði kvenna og henni vitandi væri ekki til sérfræðingur á Íslandi um breytingaskeið karla.

Ég fór þá að kynna mér málið sjálfur, því margt í mínu lífi hefur verið að breytast og ég vildi skilja þær breytingar betur.

„Breytingaskeið karla“ eða „Andropause“ er hugtak sem lýsir aldurstengdri minnkun testósteróns í karlmönnum. Líkami karla, sem eru fæddir karlar (MAAB), getur byrjað að upplifa breytingar í hormónastyrk yfirleitt eftir 50 ára aldur, þar sem testósterón-framleiðsla minnkar. Breytingaskeiðið er breyting á hormónaframleiðslu. Minni testósterón-framleiðsla getur haft alls kyns afleiðingar. Sú framleiðsla er mismunandi milli manna, hjá þeim sem hún helst betur hjá og lengur hefur hún áhrif á orkustig, getu í íþróttum og í svefnherberginu en getur líka haft afleiðingar á öðrum sviðum. 

Þetta er fyrsta greinin þar sem ég velti fyrir mér breytingaskeiði karla og hvernig það kemur við mig sem einstakling. Ástæðan er sú að það sem ég ætla að ræða hér er eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt neinn tala um en þegar ég fann fyrir hlutunum og byrjaði að ræða það við fólk, þá virtist mér ótalmargir kannast við svipaða hluti en halda þeim fyrir sig. Ég trúi því að með því að ræða hluti þá líði okkur betur. Breytingaskeyð karla er umdeilt fyrirbæri og á engan hátt samræmanlegt við breytingaskeið kvenna ásamt því að það fyrsta sem ég ræði er ekki beint tengt breytingaskeiðinu í læknisfræðilegum skilningi.

Blöðruhálskirtill stækkar stöðugt með aldrinum og testósterón-framleiðsla og erfðir hafa áhrif á stækkunina. 50% karla yfir 50 ára eru með einhvers konar vandamál í blöðruhálskirtli. Ég hef vitað í talsverðan tíma að ég sé með stækkun í blöðruhálskirtli sem hefur verið þreifað á reglulega. Fyrir talsverðu síðan var ég farinn að taka eftir því að ég pissaði oftar og minna í einu. Einnig var bunan orðin slappari. Þessar breytingar gerast hægt svo maður tekur ekki eftir þeim fyrr en allt í einu að maður áttar sig. Sonur minn segir reglulega við son sinn að það eigi að pissa eins og maður meini það. Ég var hættur að geta pissað eins og ég meinti það. Svo gerðist það síðasta sumar að ég vaknaði með mikinn verk og alveg í spreng. En sama hvað ég reyndi, þá gat ég ekki pissað nema nokkrum dropum. Við vorum á leið norður í Hrísey þennan dag og þurfti ég að byrja daginn á því að athuga með að komast að á heilsugæslu. Það var ekki hægt fyrr en eftir nokkra daga. Ég fór því á bráðamóttökuna en þar var nokkurra klukkustunda bið. Mér datt þá það snjallræði í hug að keyra bara norður og fara á heilsugæsluna á Dalvík. Bíltúrinn var verulega erfiður. Þegar þangað var komið hitti ég lækni sem tók blóðprufu og þvagprufu. Ég var síðan sendur í ómskoðun á sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar var ég rannsakaður og ákveðið var að prufa lyfið Tamsulosin. Ef það virkaði þá væri ljóst hvað væri að. Innan við 30 mínútum frá inntöku lyfsins gat ég pissað nokkurn veginn eðlilega að mér fannst. Þvílíkur léttir. Nokkrum dögum síðar fékk ég símtal um að PSA-gildi mín væru í lagi svo ekki var um krabbamein að ræða en að ég þyrfti að hitta þvagfærasérfræðing.

Í kjölfarið fékk ég tíma hjá þvagfæraskurðlækni sem tók mig í frekari rannsókn. Læknirinn var ekki eins ánægður og ég með bununa mína og tæminguna. Hann útskýrði fyrir mér að stækkunin á blöðruhálskirtlinum þrengdi að þvagrásinni og að lyfið sem hjálpaði mér að opna fyrir dygði bara til að losa smáhluta og að það væru að staðaldri um 350 ml í blöðrunni. Við ákváðum að sjá hvort hægt væri að hægja á þessu ferli og ná að tæma meira og hélt ég því áfram á lyfinu þar til það gerði ekki lengur sitt gagn.

Ég flýg mikið vegna vinnunnar og þetta hefur verið einstaklega bagalegt því þrýstingsbreytingarnar auka á vanlíðan. Á tímabili var ég að pissa u.þ.b. fimm sinnum í flugferð sem tekur um 2,5 tíma. Eftir flug var ég svo nokkra daga með mikla erfiðleika. Eftir þrjá mánuði ákváðum við að auka skammtinn upp í tvær töflur sem bætti stöðuna talsvert. Aukaverkun með því var svimi til að byrja með sem svo hætti ásamt því að sáðvökvi varð nánast enginn.

Svo kom að því að tvær töflur á dag hjálpuðu ekki lengur. Einnig ef ég gleymdi mér og tók pillurnar seinnipart í stað þess að gera það um morgun, þá gat tekið nokkra daga á ná takti aftur. Læknirinn minn gaf mér þá nokkra kosti: 1) að halda áfram svona þar til ég gæti ekki meir og taka þá ákvörðun. 2) að minnka testósterón-framleiðslu líkamans og þar með stækkun kirtilsins. 3) möguleika um þrjár mismunandi tegundir af aðgerðum.

Sú aðgerð sem ég valdi er leiseraðgerð þar sem skorið er innan úr kirtlinum til að auka rýmið fyrir þvagrásina. Fylgikvillar sem geta fylgt slíkri aðgerð eru þvagleki og risvandamál. Einnig að eftirleiðis færi sáðvökvi í þvagblöðruna og kæmi eftir það út með þvagi. Vegna þess að ég er frekar ungur og hraustur (m.v. að þurfa þessa aðgerð) þá voru líkur á fylgikvillum aðeins um 20%. En það er samt talsvert. En að geta ekki pissað er líka hræðileg líðan. Einnig spurði ég um þann möguleika að halda áfram á lyfinu og fara seinna í aðgerð. Niðurstaðan: Ég myndi hugsanlega geta haldið áfram í 5–10 ár en þyrfti þá að fara í aðgerð. Þá hefðu líkur á fylgikvillum eftir aðgerðina aukist verulega. Ég ákvað því að drífa í þessu og byrjaði að gera grindarbotnsæfingar á fullu.

Ég fór í aðgerðina á föstudegi og var með þvaglegg fram á þriðjudag. Það var mikið ævintýri að pissa aftur á eðlilegan hátt eftir að þvagleggurinn var tekinn. Það svíður svakalega og maður verður talsvert smeykur við það til að byrja með. En einu hafði ég gleymt. Það var tilfinning sem ég hafði ekki fundið í mörg ár. Tilfinningin þegar maður tæmir þvagblöðruna algjörlega. Hún er góð.

Mjög fljótlega kom í ljós að fylgikvilli er varðar risvandamál var ekki til staðar. En um mánuði eftir aðgerð hófst þvagleki. Það er mjög óþægilegt að finna fyrir að það dropi hjá manni í buxurnar. Ég þurfti því að fara í apótek í Noregi og fá innlegg fyrir karlmenn. Það var ekki í hillu frammi og þurfti ég að útskýra fyrir apótekaranum hvað ég þyrfti. Út gekk ég með innlegg í laginu eins og pungbindi og er límt er inn í nærbuxurnar. Í kjölfarið tók við mikil vinna við að ná tökum á grindarbotnsvöðvanum til að loka almennilega fyrir til að losna úr þessari vanlíðan. Á nokkrum dögum náði ég aftur stjórn og gat hætt að nota innleggið.

Það sem gerist er að þegar þrengir svona mikið að þvagrásinni þá verður minna að gera hjá grindarbotnsvöðvanum sem slappast. Hin stöðuga spenna sem við lærum sem börn að hafa á lokun þvagrásarinnar er ekki lengur nauðsynleg og því slakar hann á. Maður þarf að læra upp á nýtt að halda þessari spennu og til að byrja með þarf að gera það meðvitað. Eitthvað sem maður hefur aldrei pælt í. Ég gekk með innlegg í nokkra daga á meðan þetta var að lagast.

Einnig lendir maður í einhverju sem kallast bráðapiss. Það virðist gerast þegar maður kemur heim, heyrir í vatni renna eða er í guðsgrænni náttúrunni. Þá þarf að hafa hraðann á. Um daginn var ég nýkominn úr flugi frá Bergen til Osló og frá lestarstöðinni er um 10 mínútna gangur heim. Þegar ég nálgaðist heimilið fór heilinn að hlakka til að losa um og tæma blöðruna en við það fór allt í gang og ég fékk bráðapisstilfinningu. Þegar u.þ.b. tvær mínútur voru eftir að heimilinu gat ég ekki haldið lengur og hljóp bak við vörubíl sem var í hliðargötu og lét fara. Þvílík buna og þvílíkur léttir. Ég þurfti því að vinna í þessum þætti, því ekki er hægt að hlaupa hvar sem er og láta gossa. Um tvær vikur hefur tekið núna að kenna líkamanum hver stjórnar. Það er ekki enn komið, en gengur vel. Mestu máli skiptir þó að ég var að koma frá lækninum þar sem var mælt hversu mikið var eftir í blöðrunni þegar ég var búinn að pissa. Niðurstaðan var: 0 ml.

 

 


Er heimurinn kominn á hvolf?

Hvað gerist þegar heimurinn fer á hvolf? Bandaríkin standa allt í einu fyrir eitthvað allt annað en þau hafa staðið fyrir. „Disruption“ er orðið sem hægt væri að nota á ensku yfir það sem er að gerast. Og það eru ekki bara Bandaríkin sem eru að breytast, þær breytingar hafa bara mest áhrif.

Það sem virðist gerast fyrst er að lækkanir verða á mörkuðum. Óróleiki er aldrei góður í viðskiptum. Óvissa er enn verri og nú fer óróleiki og óvissa saman, sem er yfirleitt mjög slæm blanda.

Fyrir okkur Íslendinga skiptir, held ég, mestu máli að halda ró okkar og muna að öskur á samfélagsmiðlum gerir ekkert. Getum við haft áhrif á það sem er að gerast? Eða þurfum við frekar að setja orkuna okkar í að velta fyrir okkur: Hvernig ætlum við að bregðst við þessum breytingum? Það er nefnilega þannig að aðlögunarhæfni og snöggt viðbragð er okkar helsti kostur. Heimurinn hefur oft farið á hvolf síðustu 100 ár og í hvert sinn hefur Ísland breyst á undrahraða. Einnig hefur það oft verið þannig að Ísland hefur grætt á slíku í alþjóðlegu samhengi.

Síldin kom og fór margsinnis á 20. öldinni. Alltaf aðlöguðum við okkur að því hvort hún var eða var ekki.

Eftir efnahagshrunið þá losnaði um mikið af mjög hæfileikaríku fólki úr bankageiranum sem þurfti að gera eitthvað nýtt. Þetta fólk hafði mikla reynslu úr fjárfestingum og af því að hugsa stórt. Á sama tíma var gengi gjaldmiðils okkar lágt og Eyjafjallajökull breytti flugsamgöngum í Evrópu. Ísland var í öllum fréttatímum og ekki fyrir það hvað hér er frábært að vera og fallegt. Nei, fyrir eldgos sem lokaði á allar flugleiðir og olli hræðslu fólks við landið. „I hate Iceland“, varð að þekktum frasa. Mitt í þessu ati þá er tekin sú ákvörðun að fjárfesta sérstaklega í ferðaþjónustu og vekja athygli á landinu alþjóðlega, Inspired by Iceland varð til og íslenska þjóðin sameinaðist um að senda myndband með laginu Jungle drum á alla sem þau þekktu erlendis. Ferðaþjónustufyrirtækin voru ótrúlega fljót að aðlagast auknu streymi fólks og mikil fjárfesting varð í ferðaþjónustu. Niðurstaðan: Ferðaþjónustan er núna sú atvinnugrein sem skaffar mestan gjaldeyri inn í landið og ný stoð varð til undir hagkerfi Íslands. Snöggt viðbragð, samstaða og aðlögunarhæfni þjóðarinnar gerði þetta að verkum.

Sama gerðist í og eftir Covid. Ég þurfti að ferðast talsvert á þeim tíma og hvergi í heiminum var jafn gott skipulag á því hvernig fólk færi í gegnum flugvöll eins og á Íslandi, fengi covid próf, niðurstöður og slíkt. Hagkerfið náði sér svo mjög hratt og fullhratt á meðan mörg hagkerfi voru mjög lengi að komast í gang og ferðamennskan hefur einnig í flestum löndum og ekki enn komist á sama stað og fyrir Covid.

Núna stöndum við frammi fyrir því að heimurinn er að snúast á hvolf. Þá höfum við valið um að væla eða gera. Við höfum sögulega verið meira í að gera en væla og því held ég að við getum verið viss um að Ísland mun finna leið til að aðlagast hratt. En mörg lönd munu lenda í mikilli kreppu þar sem viðskiptabreytingar verða miklar og aðlögunarhæfnin er lítil.

Fljótlega verðum við að hugsa hluti á allt annan hátt en fyrir nokkrum vikum. Það sem okkur þótti rétt þá er ekki endilega rétt lengur. Þeir sem voru vissir um að Evrópusambandið væri ekkert fyrir okkur þurfa hugsanlega að skipta um skoðun eða öfugt. Hugsanlega þurfa Evrópusinnar að endurhugsa hvort það sé rétta leiðin fyrir Ísland núna. En næstu vikur og mánuðir leiða í ljós hvort borgar sig. Að ná að sigla á milli skers og báru og nýta ástand viðskiptastríðsins og geta átt vini í báðar áttir eða hvort það borgar sig að halla sér algjörlega í aðra áttina. Mun ofuráhersla Bandaríkjanna á að komast yfir Grænland búa til einhver tækifæri fyrir Ísland með auknum umsvifum á Grænlandi? Mun nánara samstarf Grænlands og Íslands geta fært báðum þjóðum tækifæri sem verða verðmæti báðum megin Atlantshafs? Eða munum við þurfa að endurhugsa okkar helstu útflutningsgreinar og finna nýja lykilmarkaði? Hugsanlega í Austur-Asíu? Sama hvað verður, þá borgar sig að ana ekki að neinu fyrr en ljóst er hvernig hin nýja heimsmynd lítur út. Það mun líklega ekki taka nema nokkrar vikur í viðbót eins og hraðinn á þessu er núna. Á þeim tímapunkti er ljóst að hvað sem sagt var áður þá verður það líklega ekki viðeigandi þá og við þurfum að aðlagast hratt að nýjum veruleika. Sem betur fer fyrir Ísland er það einmitt það sem við, veiðimannaþjóðin, Íslendingar erum best í.


Hvað myndi ég segja við foreldra mína?

Ég var að velta fyrir mér um daginn hvað ég myndi segja við foreldra mína ef ég gæti hitt þau í dag. Það er nefnilega svo skrítið að stóran hluta ævinnar þá er maður reglulega að segja foreldrum sínum frá afrekum sínum, vandamálum og hversdegi. En svo allt í einu þá eru þau ekki lengur til staðar. Hverjum á maður þá að segja þessa hluti?

Þá fór ég að velta fyrir mér þeim tíma sem liðinn er frá því að ég gat talað við þau síðast og hverju ég myndi segja frá fyrst. Þessu merkilegasta eða þessu skemmtilegasta? Eða þessu sem var erfiðast? Ætli ég myndi ekki byrja á að segja þeim frá barnabarnabörnunum þeirra. Og hversu vel foreldrahlutverkið gengur hjá börnunum okkar. Ég myndi segja þeim hversu vel hefur gengið í viðskiptum, bæði hjá mér og Silju konunni minni. Frá ævintýrunum sem við höfum ratað í, tónlistinni sem ég hef tekið þátt í að skapa og öllum dýrmætu augnablikunum sem við höfum átt sem fjölskylda og þau misstu af. Augnablikunum með æskuvinunum okkar Silju sem þau þekktu svo vel. Ég myndi tala um íþróttir við pabba, gengi Víkings í fótboltanum og segja honum frá því þegar ég keppti á HM öldunga í badminton. Hann hefði fílað það. Ég myndi ræða stjórnun við mömmu. Um vandamál og velgengni við að byggja upp teymi þar sem allir róa í sömu átt. Um sanngirni og að standa með gildum sínum.

Svo þegar ég hefði verið óðamála góða stund myndi ég líklega ná að slappa af. Bara vera. Sitja og vera. Rifja upp tíma frá því ég var krakki. Spyrja meira um sjálfan mig til að skilja mig betur. Spyrja spurninganna sem ég aldrei spurði þau þegar ég hafði tækifæri til. Hvernig það var fyrir þau að verða foreldrar? Koma sér fyrir og díla við unglinginn mig? Hrokafullan og uppfullan af sjálfum mér. Skilja betur hvort þau hafi haft trú á mér og borið mikið traust til mín? Eða hvort þau hafi kannski alltaf verið hrædd um mig en bara falið það svona vel? Spyrja þau út í hvernig þeim hafi fundist að verða afi og amma? Hvernig þau áttuðu sig á að þau gerðu sem mest gagn? Því meira sem ég hugsaði um það hvað ég myndi segja þeim, því meira fann ég að ég saknaði mest að geta ekki leitað ráða. Spurt um þessa hluti sem erfitt er að finna hvar maður á að leita svara um. Mér finnst þau eiginlega vera alltumlykjandi hvort sem er. Kannski þarf ég ekki lengur að segja þeim hvað á daga mína hefur drifið síðan síðast. Ég hef ekki lengur sömu þörf fyrir að þau viti að ég sé að standa mig og að fólkið í kringum mig sé að standa sig. Enda vildu þau bara vera til staðar þegar eitthvað bjátaði á og vera til staðar til að gleðjast þegar allt gekk vel. Veita ráð og stuðning. Benda mér á þegar ég virtist vera að fara fram úr mér. Róa mig þegar ég hafði áhyggjur og styðja þegar þau sáu að við Silja þurftum tíma saman. Þá spurðu þau hvort þau mættu fá börnin okkar lánuð upp í bústað. Svo það leit út eins og við værum að gera þeim greiða með að gefa þeim tíma með börnunum okkar, þegar þau voru í raun að búa til tíma fyrir okkur bara tvö.

Núna þegar maður er sjálfur afi, þá held ég að ég myndi helst vilja ræða við þau um það. Afahlutverkið, svona afi við afa. Afi við ömmu. Stoltur af því að vera á jafningjagrundvelli. Ræða um hvernig maður kemur að sem bestu liði? Hvað skiptir mestu máli á hverju aldursskeiði barnabarnanna. Því ég man sérstaklega þegar börnin mín voru unglingar hvað afi og amma skipu miklu máli. En líka hvað það hafði mikil áhrif þegar þau á viðkvæmum aldri misstu ömmu sína. Þá hefði ég viljað hafa reynsluna sem ég er með núna. Kunna betur að hugsa um sjálfan mig á sama tíma og ég hugsaði um alla aðra. Kunna betur að gráta og skilja að allt þarf sinn tíma. Skilja betur tilfinningasveiflurnar sem koma í vanlíðan. Hafa meiri þolinmæði.

Ég held að það sé kjarni málsins. Þolinmæði. Því ástin er þolinmóð. En í foreldrahlutverkinu finnst manni svo oft að maður hafi ekki tíma fyrir þolinmæði. Það þarf þroska til þess. Ég horfi á börnin mín í dag og hugsa; þau eru mun þolinmóðari en ég var á sama aldri. Það gerir mig stoltan. Það er líklega það fyrsta sem ég myndi segja foreldrum mínum ef ég gæti hitt þau í dag.


Hvers virði er fráfesting í þjónustu við fíknisjúka?

Mikil umræða hefur verð í samfélaginu um fíknisjúka og hversu brotið kerfið er í kringum þann alvarlega sjúkdóm. Sumum finnst kerfið vera mannskemmandi á meðan aðrir segja að sjúkdómurinn sé sjálfskapaður og fjármagi því betur varið til annarra innviða í samfélaginu.

Ég fór að velta fyrir mér hvort við gætum litið á málið frá annarri og harðari hlið. Þ.e.a.s. arðsemisreiknað verðmæti þjónustunnar og hversu mikið hún skilar til samfélagsins. Til að gera það þarf að gefa sér forsendur um fjölda og kosnað. Ég leifi mér að áætla nokkuð margar tölur í þessu reikningsdæmi og aðrar hef ég fundið með leit á netinu. Þeir sem hafa allan aðgang að tölunum geta reiknað betur út. En ég geri ráð fyrir að ég sé nógu nálægt raunverulegum tölum til að hægt sé að sjá stærðirnar sem um ræðir. Ég ákvað því að reikna hvað biðlistinn eftir plássi í fíknimeðferð kostar og hvaða arðsemi yrði af því að fjárfesta í að eyða honum.

Bara á þessu ári hafa verið 56 dauðsföll vegna ofskömtunar. Til viðbótar eru slysin, sjálfsvígin og dauðsföll vegna annarra lífstílssjúkdóma sem eru afleiðing fíknar. Ég held við getum auðveldlega áætlað að með því öllu séu dauðsföllin að lágmarki 100 með öllu töldu af fólki semer að bíða eftir meðferð, en eru líklega mun fleiri.

Á hverjum tíma eru um 800 manns á biðlista eftir meðferð. Sumir komast fljótlega að enda með litla fíknisögu en flestir eru að koma í enn eina endurkomuna, því það tekur að meðaltali 5 meðferðir að ná árangri í baráttunni við sjúkdóminn. Biðin fyrir slíkt fólk er frá 6 til 15 mánuðum. Biðtími þar sem fólkið missir heilsuna, aðstandendur missa heilsuna, fólk missir eignir sínar og fólk verður óvinnufært. Ef við áætlum að í kringum þessa 800 einstaklinga séu 4 hjá hverjum sem eru meðvirkir og í miklum vanlíðan vegna sjúklingsins og þar af leiðandi í stöðugu áfalli þá eru það 3200 manns að meðaltali á hverjum tíma. Þar af eru hugsanlega 1000 óvinnufærir vegna álagsins en allir aðrir taka fleiri veikindadaga en meðaltal veikindadaga er, sem við gætum áætlað 1 aukalega á mánuði. Það gera 3200 veikindadagar á mánuði eða 38.400 á ári.

Ef við áætlum að um helmingur þeirra sem eru á biðlista brjóti af sér, þá eru það 400 manns. Af þeim eru 200 sem stela smávægilegum upphæðum hér og þar og 200 sem eru í innbrotum og örðum glæpum. Við skulum setja kr. 5000 á dag í meðaltal á þá sem eru í minni brotum og 20.000 á dag á þá sem eru í stærri brotum. 100 beita ofbeldi að minnsta kosti 2 skipti á biðtímanum. Ef við setjum meðal biðtíma á ofbeldisgerendur 6 mánuði þá eru það 200 brot sem gerir rúmlega 1 brot á dag. Við getum gert ráð fyrir að 20 manns á biðlistanum eða 40 á ári þurfi að stitja í fangelsi í að meðaltali 30 daga vegna brota framin á biðtímanum. Hver og einn heimsækir bráðamóttökuna að meðaltali 2 skipti á biðtímanum samtals 1600 heimsóknir. Gerum ráð fyrir að 1/2 ofbeldisbrotana leiði til útkalls hjá lögreglu, þá eru það 182 útköll og til viðbótar stærri auðgunarbrot þeirra 200 sem bróta alvarlega af sér sú 1 á mánuði á hvern þá bætast 80 útköll við. Getum ráð fyrir að 10% heimsókna á bráðamóttöku hafi undanfara útkalls á sjúkrabifreið þá eu það 160 útköll og svo fylgir lögregla hverjum sjúkrabíl líka sem bætist við. Gera má ráð fyrir að 50% þeirra sem nýta gistiskýli borgarinnar séu á biðlistanum. 200 manns á biðslistanum eru á einhverskonar bótum frá ríki og/eða sveitarfélagi á meðan biðin er. Hér geri ég ráð fyrir engum kostnaði af helmingi biðlistans, sem ætti samt að vera talsverður.

 

100 jarðafarir

38.000 veikindagar

1000 óvinnufærir einstaklingar

Smáþjófnaður 365 milljónir á ári

Stærri glæpir 1.460 milljónir á ári

Alvarleg ofbeldisbrot 365

Heimsóknir á bráðamóttöku 1600

Fangelsisnætur 1.200

Útköll lögreglu 422

Útköll sjúkrabifreiða 160

Gistinætur gistiskýlið 10.950

Bætur á biðtíma 200 manns

 

Í þessum útreikningum er líf ekki metið til fjár og ekki heldur tilfinningatjón þeirra þolenda sem verða fyrir innbrotum, kynferðisbrotum eða líkamstjónum. Einungis peningaleg verðmæti.

 

Hver jarðaför kostar að meðaltali kr. 800.000 fyrir utan erfidrykkju og legstein

Einn veikindadagur kostar samfélagið kr. 37.500 miðað við núverandi meðallaun.

Óvinnufær einstaklingur kostar samfélagið 7,8 milljónir á ári

Fjárhagslegt tjón af alvarlegum ofbeldisbrotum (sjúkrahúskostnaður, endurhæfing, vinnumissir, örorkubætur, tryggingabætur); lágmark 5 milljónir að meðaltali.

Hver heimsókn á bráðamóttöku kostar samfélagið að meðaltali 130.000

1 nótt í fangelsi kr. 50.000. Hvert útkall lögreglu kostar kr. 105.000 og hvert útkall sjúkrabifreiðar kostar kr. 97.000. Kostnaður við heimilislausa hjá borginni kr. 1,8 milljarður margfaldað með 50% samtals 900 milljónir. Bætur á mánuði lágmark 350.000 samtals 4,2 milljónir á ári á hvern einstakling.

 

Þá höfum við einfalt reikningsdæmi:

Jarðafarir                     80 milljónir

Veikindadagar             1.425 milljónir

Óvinnufærir                7.800 milljónir

Smáþjófnaður             365 milljónir

Stærri glæpir               1.460 milljónir

Alvarleg ofbeldisbrot  1.825 milljónir

Bráðamóttaka             208 milljónir

Fangelsiskostnður       60 milljónir

Útköll lögreglu            44 milljónir

Útköll sjúkrabifreiða   16 milljónir

Bætur sjúkra               840 milljónir

Kostn heimilislausra    900 milljónir   

 

Kostnaður samfélagsins á ári af biðslistanum er því kr. 15,1 milljarðar einungis af þeim sem eru að bíða eftir hjálp við sínum sjúkdómi.

 

Til að eyða þessum biðslista þarf aðeins að fjárfesta fyrir ca 1 milljarð á ári. Ég myndi því segja að þó að við tökum alla mannlega harmleiki í burtu og setjum allar tilfinningar ofan í skúffu. Hugsum ekkert um börnin sem alast upp í óöryggi því foreldrar þeirra fá ekki þjónustu við sjúkdómnum sínum. Hugsum ekki um alla syrgjandi foreldrana. Ef við metum ekki til fjár alla vinnuna og kostnaðinn við fólkið sem þjáist úti á biðlistanum þarf að leggja til við að komast aftur inn í samfélagið. Einnig þó að við tökum ekki til allan kostnaðinn í samfélaginu af því að hafa fulla bráðamóttöku þar sem fólk sem ekki er með fíknisjúkdóm þarf að bíða vegna álags fólks á biðlistanum, sjúkrabifreiðar sem geta ekki farið í önnur útköll þegar þau eru uppteknin og lögregla sem gæti verið að sinna öðru en afleiðingum fólks á biðlistanum. Við tökum ekki heldur til allra sálfræðingana og geðlæknana sem ekki geta sinnt öðrum á meðan á sama tíma og vonlaust er að fá tíma fyrir þá sem ekki eru fíknisjúkir. Þá samt sem áður sjáum við eingöngu með því að skoða tölurnar að með því að fjárfesta í heilbryggðisþjónustu fyrir fíknisjúka og eyða biðlistanum er bara ansi góður bissnes.

 

Ég myndi allan daginn í mínum rekstri fjárfesta fyrir 1 milljarð á hvað vöxtum sem er ef arðsemin af því væri 15 föld árlega.

 

 


Hvers virði er fráfesting í þjónustu við fíknisjúka?

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um fíknisjúka og hversu brotið kerfið er í kringum þann alvarlega sjúkdóm. Sumum finnst kerfið vera mannskemmandi á meðan aðrir segja að sjúkdómurinn sé sjálfskapaður og fjármagni því betur varið til annarra innviða í samfélaginu.

Ég fór að velta fyrir mér hvort við gætum litið á málið frá annarri og harðari hlið. Það er að segja með því að arðsemisreikna verðmæti þjónustunnar og hversu miklu hún skilar til samfélagsins. Til að gera það þarf að gefa sér forsendur um fjölda og kostnað. Ég leyfi mér að áætla nokkuð margar tölur í þessu reikningsdæmi og aðrar hef ég fundið með leit á netinu. Þeir sem hafa allan aðgang að tölunum geta reiknað betur út. En ég geri ráð fyrir að ég sé nógu nálægt raunverulegum tölum til að hægt sé að sjá stærðirnar sem um ræðir. Ég ákvað því að reikna hvað biðlistinn eftir plássi í fíknimeðferð kostar og hvaða arðsemi yrði af því að fjárfesta í að eyða honum.

Bara á þessu ári hafa orðið 56 dauðsföll vegna ofskömmtunar. Til viðbótar eru slysin, sjálfsvígin og dauðsföll vegna annarra lífstílssjúkdóma sem eru afleiðing fíknar. Ég held við getum áætlað að með því öllu séu dauðsföllin að lágmarki 100 með öllu töldu af fólki sem er að bíða eftir meðferð, en eru líklega mun fleiri.

Á hverjum tíma eru um 800 manns á biðlista eftir meðferð. Sumir komast fljótlega að enda með litla fíknisögu en flestir eru að koma í enn eina endurkomuna, því það tekur að meðaltali fimm meðferðir að ná árangri í baráttunni við sjúkdóminn. Biðin fyrir þessa aðila er milli 6 til 15 mánuðir. Biðtími þar sem fólkið missir heilsuna, aðstandendur missa heilsuna, fólk missir eignir sínar og fólk verður óvinnufært.

Ef við áætlum að í kringum þessa 800 einstaklinga séu fjórir hjá hverjum sem eru meðvirkir og í mikilli vanlíðan vegna sjúklingsins og þar af leiðandi í stöðugu áfalli þá eru það 3200 manns að meðaltali á hverjum tíma. Þar af eru hugsanlega 1000 óvinnufærir vegna álagsins. Einnig er þekkt er að fólk í stöðu aðstandenda er oftar veikt en almennt meðaltal veikindadaga er. Hægt væri að áætla það einn veikindadag aukalega á mánuði. Það gera þá 3200 veikindadagar á mánuði eða 38.400 á ári.

Ef við áætlum að um helmingur þeirra sem eru á biðlista brjóti af sér, þá eru það 400 manns. Af þeim eru 200 sem stela smávægilegum upphæðum hér og þar og 200 sem eru í innbrotum og öðrum glæpum. Við skulum setja 5000 kr. á dag í meðaltal á þá sem eru í minni brotum og 20.000 á dag á þá sem eru í stærri brotum. 100 beita ofbeldi í að minnsta kosti tvisvar á biðtímanum. Ef við setjum sex mánuði sem meðalbiðtíma á hvern geranda í slíkum ofbeldismálum þá verða það 200 brot sem gerir rúmlega eitt brot á dag. Við getum gert ráð fyrir að 20 manns á biðlistanum eða 40 á ári þurfi að sitja í fangelsi í að meðaltali 30 daga vegna brota sem framin eru á biðtímanum. Hver og einn kemur á bráðamóttökuna að meðaltali tvisvar á biðtímanum, sem má reikna í 1600 heimsóknir. Mögulega leiðir helmingur ofbeldisbrotanna til útkalls lögreglu. Það eru 182 útköll. Bætum svo við útköllum vegna þeirra 200 sem brjóta alvarlega af sér og áætlum þau 1 á mánuði á hvern, þá bætast 80 útköll við. Gerum ráð fyrir að vegna 10% heimsókna á bráðamóttöku hafi verið kölluð til sjúkrabifreið, það eru 160 útköll, og svo fylgir líka lögregla hverjum sjúkrabíl sem bæta má við þá tölu. Gera má ráð fyrir að 50% þeirra sem nýta gistiskýli borgarinnar séu á biðlistanum. 200 manns á biðlistanum eru á einhvers konar bótum frá ríki og/eða sveitarfélagi á meðan biðin varir. Hér geri ég ekki ráð fyrir neinum kostnaði af helmingi biðlistans, sem ætti samt að vera talsverður. 

100 jarðarfarir

38.000 veikindadagar

1000 óvinnufærir einstaklingar

Smáþjófnaður 365 milljónir á ári

Stærri glæpir 1.460 milljónir á ári

Alvarleg ofbeldisbrot 365

Heimsóknir á bráðamóttöku 1600

Fangelsisnætur 1.200

Útköll lögreglu 422

Útköll sjúkrabifreiða 160

Gistinætur í gistiskýli 10.950

Bætur á biðtíma 200 manns

Í þessum útreikningum er líf ekki metið til fjár, ekki heldur tilfinningatjón þeirra þolenda sem verða fyrir innbrotum, kynferðisbrotum eða líkamstjóni. Einungis peningaleg verðmæti. Hver jarðarför kostar að meðaltali 800.000 kr. fyrir utan erfidrykkju og legstein. Einn veikindadagur kostar samfélagið 37.500 kr. miðað við núverandi meðallaun. Óvinnufær einstaklingur kostar samfélagið 7,8 milljónir króna á ári Fjárhagslegt tjón af alvarlegum ofbeldisbrotum (sjúkrahúskostnaður, endurhæfing, vinnumissir, örorkubætur, tryggingabætur) mætti reikna að lágmarki á fimm milljónir króna að meðaltali. Hver heimsókn á bráðamóttöku kostar samfélagið að meðaltali 130.000 kr. Ein nótt í fangelsi 50.000 kr. Hvert útkall lögreglu kostar 105.000 kr. og hvert útkall sjúkrabifreiðar 97.000 kr. Kostnaður við heimilislausa hjá borginni á 1,8 milljarð króna margfaldað með 50% eða samtals 900 milljónir króna. Bætur á mánuði lágmark 350.000 kr. eða samtals 4,2 milljónir króna á ári á hvern einstakling.

Þá höfum við einfalt reikningsdæmi:

Jarðarfarir                 80 milljónir

Veikindadagar            1.425 milljónir

Óvinnufærir              7.800 milljónir

Smáþjófnaður              365 milljónir

Stærri glæpir            1.460 milljónir

Alvarleg ofbeldisbrot    1.825 milljónir

Bráðamóttaka               208 milljónir

Fangelsiskostnður           60 milljónir

Útköll lögreglu             44 milljónir

Útköll sjúkrabifreiða       16 milljónir

Sjúkrabætur                840 milljónir

Kostnaður heimilislausra   900 milljónir    

 

Fjárhagslegur kostnaður samfélagsins á ári af biðlistanum er því 15 milljarðar króna einungis af þeim sem eru að bíða eftir hjálp við sínum sjúkdómi.

Til að eyða þessum biðlista þarf aðeins að fjárfesta fyrir u.þ.b. einn milljarð króna á ári. Og það án þess að taka með í reikninginn alla mannlegu harmleikina, allar erfiðu tilfinningarnar. Án þess að taka með þann kostnað sem verður vegna allra barnanna sem alast upp í óöryggi á meðan foreldrar þeirra fá ekki þjónustu við sjúkdómi sínum. Sömuleiðis án þess að taka tillit til allra syrgjandi foreldranna eða yfirleitt meta til fjár alla vinnuna og kostnaðinn við fólkið sem þjáist úti á biðlistanum. Einnig án þess að tiltaka allan þann kostnað sem fellur til í samfélaginu af því að hafa fulla bráðamóttöku sem aftur verður til þess að fólkið sem er EKKI með fíknisjúkdóm þarf að bíða enn lengur þar. Ekki heldur kostnað vegna sjúkrabifreiða sem geta ekki sinnt öðrum útköllum af því þeir eru uppteknir eða vegna lögreglu sem gæti verið að sinna öðru en afleiðingum af hegðun fólks á biðlistanum.

Þá samt sem áður sjáum við, eingöngu með því að skoða tölurnar, að með því að fjárfesta í heilbrigðisþjónustu fyrir fíknisjúka og eyða biðlistanum þá er það bara ansi góður bisness.

 Ég myndi allan daginn í mínum rekstri fjárfesta fyrir 1 milljarð á hvaða vöxtum sem er ef arðsemin af því væri tólf- til þrettánföld árlega.

 

 


Af hverju endaði Þórður Snær með því að slaufa sjálfum sér.

Mál Þórðar Snæs fór hátt í síðustu viku sem endaði með því að hann fann sig knúinn til að gefa frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann myndi ekki taka þingsæti yrði hann kosinn.

Þetta er allt hið furðulegasta mál og hef ég enga skoðun á því hvort hann átti eða átti ekki að gefa frá sér yfirlýsingu sem þessa. En mér þykir áhugavert að skoða svona mál út frá almannatengslavinklinum og af hverju allt að 20 ára gömul skrif af lélegu gríni enduðu svona. Ég tek það fram að ég þekki Þórð ekki neitt og hef enga skoðun á honum fyrir utan það sem komið hefur fram í fjölmiðlum. 

Margir eru nú þegar á Alþingi sem hafa sagt ekki síður slæma hluti opinberlega og ekki er þeim er ekki núið því um nasir í kosningabaráttunni. Ég heyrði á Sprengisandi og á fleiri stöðum að þetta væri eitthvað vinstra/hægra dæmi. Vinstra fólk refsar hvert öðru mun harðar en hægra fólk. Einnig að skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins væri orðin mjög fær í að etja vinstra fólki saman. 

En þegar maður skoðar málið ofan í kjölinn þá virðist þetta vera marglaga.

 

  1. Þessi gömlu skrif voru skrifuð undir dulnefni og hafði Þórður áður neitað fyrir skrifin.
  2. Skrifin eru mjög gildishlaðin um konur.
  3. Þórður hefur farið mikinn í að dæma aðra, líka fyrir hegðun sem átti sér stað fyrir löngu síðan.
  4. Þórður er í framboði fyrir flokk sem hefur verið í fararbroddi hvað varðar fordæmingu slíkrar hegðunar.
  5. Þórður baðst afsökunar en bætti við að hann hefði verið ungur og vitlaus þegar þetta var skrifað ásamt því að segjast hafa verið yngri en hann var.

Það er því þetta tvöfalda siðgæði sem veldur honum mestu vandræðum. Þar hefði þurft að vinna framfyrir sig og klára málin áður en upp um hann komst fyrir framan áhorfendur Spursmála.

Allir sem fara í stjórnmál eiga að vita að beinagrindurnar þeirra munu koma fram. Því er mikilvægt að leggja þær sjálfur á borð áður en aðrir gera það. Í þessu tilfelli hefði það verið nauðsynlegt fyrir Þórð að klára það um leið og hann ákvað að gefa kost á sér. Of mikið var til á netinu og of margir vissu að hann var Þýska stálið til að það kæmi ekki á dagskrá í kosningabaráttu. 

Samfélagið fyrirgefur og sérstaklega þeim sem leggja spilin á borðið. Ef skrifin hefðu ekki verið undir dulnefni á sínum tíma og þau hefðu verið dregin upp á yfirborðið í dag, þá hefði það ekki verið nein fétt. Ef Þórður hefði ekki neitað fyrir skrifin fyrir mörgum árum, þá hefði málið verið afgreitt þá og gleymt í dag. Þórður hefur síðan þá skrifað á allt annan hátt og staðið fyrir allt önnur gildi en þessi skrif gefa til kynna. Ef Þórður hefði ekki verið dómharður í garð annarra hefði dómharkan í hans garð ekki verið eins mikil. Ef Þórður hefði ekki verið í framboði fyrir Samfylkinguna hefði vera hans á listanum ekki verið til jafn mikilla vandræða. Ef Þórður hefði ekki komið með „efsökun“ heldur afsökun sem fylgdi upplýsingum um breytt viðhorf án þess að réttlæta hegðunina með ungæðishætti, þá hefði málið verið auðveldara. Ef Þórður hefði ekki reynt að gefa til kynna að hann hefði verið yngri en hann í raun var, þá hefði málið verið auðveldara.

Þetta er því í raun eitt stórt almannatengslaklúður.

Öll vorum við einhvern tíma ung og vitlaus og við vitum að aðrir voru það líka. Öll vitum við að skrifin áttu að vera grín þó ósmekklegt sé og slíkt grín fór mikinn á þessum árum. En við lærðum sem betur fer flestir sem héldu að slíkt væri fyndið að hætta því og Þórður er gott dæmi um það, sem gerði hann að betri manni. Þórður hefur sýnt síðan með sínum skrifum allt annan mann sem hann hefði þá fengið að sýna í baráttunni. En úr því sem komið var hefði baráttan öll snúist um þetta mál fyrir hann og öll viðtöl farið í að svara fyrir það. Þess vegna var það hans mat að gefa frá sér þessa yfirlýsingu og færa athyglina annað fyrir flokkinn. Ég ímynda mér að ef Þórður hefði lagt spilin á borðið sjálfur í upphafi kosningabaráttunnar þá hefði þetta mál komið og farið á 24 tímum og jafnvel orðið tækifæri fyrir hann að tala um sín gildi í dag.

 


Tækifærin jafnast

 Ég sótti um daginn ráðstefnuna RIMC þar sem gervigreind eða AI var helsta umræðuefnið og hvernig þessi tækni hefur breytt og mun breyta markaðsmálum. Ég velti fyrir mér í kjölfarið hversu smeyk við mannfólkið erum oft við breytingar. Sérstaklega ef þær ógna tilvist okkar eða tilgangi á einhvern hátt.

 Að einhvers konar tækni eða sjálfvirkni breyti störfum og starfsumhverfi er ekkert nýtt. Það hófst strax með iðnbyltingunni á 18. öld í Bretlandi. Frá þeim tíma höfum við mannkynið lifað allt öðruvísi lífi, þar sem lífslíkur, lífsskilyrði og velmegun heimsins er í engu samhengi við tímann fyrir það. Upplýsing og menntun hefur aukist og tækifæri kynjanna eru mun jafnari. En á sama tíma höfum við líka sóðað út jörðina meira en nokkurn tíma áður, ásamt því að okkur hefur fjölgað óheyrilega. Það er því bæði hægt að benda á góða og slæma hluti sem tengjast þeim tæknibyltingum sem við höfum séð á þessum tíma.

 Hvort andleg heilsa hafi verið betri eða verri fyrir iðnbyltingu eða eftir er líklega erfitt að meta. Því þegar fólk rær öllum árum bara að því að lifa af, þá er ekki mikið spáð í andlega heilsu. Það þarf ekki að fara mikið lengra en eina öld aftur í tímann á Íslandi til að sjá að allur almenningur hafði nóg með að komast af.

 Nú á tímum samfélagsmiðla eru uppi miklar áhyggjur af andlegri heilsu sem tengjast þeirri pressu að vera sífellt tengdur við umheiminn. Það virðist vera að því betur sem fólk er tengt þeim mun meira er það einmana. Við sem erum eldri höfum sífellt meiri áhyggjur af andlegri heilsu barna og ungmenna og kennum að sjálfsögðu samfélagsmiðlunum um. Lífið var vissulega mun einfaldara hjá unglingum þegar ég var unglingur. Ef einhver ætlaði að hafa samband við mig var hringt í heimasímann og oftast svöruðu foreldrar mínir og hóuðu þá í mig. Ákveðið var að hittast á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma sem maður mundi og mætti þar til að hitta vinina. Ef einhver kom til manns þá var bankað en ekki send skilaboð í eitthvað tæki um að viðkomandi væri fyrir utan. Að því leyti var því mun betra eftirlit með því með hverjum maður var og hvenær.

 En það var svo margt annað sem var ekki eins gott og í dag. Einelti var meira eins og hópefli fyrir þá sem stunduðu það og ekki einusinni til heiti yfir fyrirbærið einelti. Umræða um andlegan líðan var engin. Kennarar duttu í það með nemendum og aðstöðumunurinn og valdaójafnvægið sem þar var þótti ekkert hættulegur. Sveitaböll þar sem 16 ára unglingar voru ofurölvi með fullorðnu fólki enduðu mjög oft illa. Öskubakkar og sígarettur voru á öllum borðum í barnaafmælum fyrir fullorðna fólkið sem reykti yfir börnunum. Kynbundið áreiti og grín þótti eðlilegt ásamt rasískum ummælum. Samkynhneigð var sjúkdómur og ekkert mál var að hafa samfélagið þannig að gagnkynhneigt hvítt fólk tilheyrði og aðrir ekki. Allt þetta hafði eflaust slæm áhrif á andlega heilsu fjölda fólks og ungmenna. Bara ekki á fallega og vinsæla fólkið.

 Ég átti afa sem var áhugasamur um allar tækniframfarir og þegar internetið varð aðgengilegt almenningi árið 1993 man ég eftir því að hann sýndi mér þessa merkilegu uppfinningu í tölvunni sinni. Stað sem hægt væri að nálgast upplýsingar um alls konar utan tölvunnar. Þetta þótti mér áhugavert en skildi samt ekki hvernig þetta gæti orðið að einhverjum bisness þar sem allur aðgangur var ókeypis. Fletti samt upp á myndum af Pamelu Anderson og fannst það skemmtilegt. Afi taldi að upplýsingar væru viðskipti framtíðarinnar og hraðinn við að nálgast þær myndi margfaldast. Svo yrði slegist um með hvaða leiðum þær yrðu aðgengilegastar. Á þeim tíma spruttu líka upp vefsvæði sem voru eins konar samansafn og leiðir til að nálgast upplýsingar, kallaðar vefgáttir. Vefsvæði sem voru gluggi inn í heiminn þar til Google kom og breytti öllu og þá voru slík viðskipti ekki lengur verðmæt.

 Á ráðstefnunni stjórnaði Jón Örn Guðbjartsson umræðum í lok dags. Hann hóf umræðuna með því að segja sögu af því þegar hann var blaðamaður á DV í gamla daga og ritstjórinn boðaði alla inn í stórt herbergi til að sýna nýtt tækniundur sem myndi breyta því hvernig við deilum upplýsingum um allan aldur. Tækið var á stærð við þrjár þvottavélar og fólk horfði undrandi á ritsjórann og spurði. En hvað er þetta? Svarið var: Þetta er telefaxtæki.Faxið var leiðandi í því hvernig við deildum upplýsingum í fjölda ára og breytti heiminum. Einskonar ljósritunarvél sem var tengd í gengum símalínu og ljósritið prentaðist út annars staðar í heiminum og þar með var maður búinn að senda bréf á milli landa á nokkru sekúndum. En núna munum við ekki einu sinni hverju það breytti því email tók við og faxtækin fóru í geymsluna og þaðan í grendargám.

 Vefpósturinn breytti lífi okkar svo mikið að við áttum okkur ekki almennilega á því. Allt í einu urðu flest okkar samskipti skrifleg og eru enn þar sem messenger er helsta samskiptaleiðin. Nú fer ungt fólk í kvíðakast ef það er beðið um að hringja í einhvern. Símar eru ekki notaðir lengur til að hringja. Það er bara fyrir gamalt fók sem skilur ekki að fólk er upptekið og vill ekki láta ráðast inn í tíma sinn með slíkum hætti.

 Félagi minn sagði mér sögu fyrir nokkrum árum af spjalli sem hann átti við dóttur sína um að hann hafi sem unglingur átt pennavini sem hann kynntist í gegnum tímaritið Æskuna. Hann hafi skrifað hugsanir sínar á blað með penna, sett í umslag, keypt frímerki og sent pennavininum sem las bréfið. Pennavinurinn skrifaði sínar hugsanir á blað og sendi svo til baka. Nokkra daga tók að senda bréfin. Dóttirin hlustaði hissa á lýsinguna og fór svo inn í herbergið sitt. Nokkru síðar kom hún til baka, búin að hugsa þetta betur og spurði svo pabba sinn; Þegar þú varst að skrifa bréf með penna á pappír og senda. Hvernig gerðirðu linka? Þessi spurning er svo yndisleg og fær okkur eldri til að hlæja en fyrir þá sem yngri eru þá eru hlekkir svo eðlilegur hlutur að þeir hljóta alltaf að hafa verið til eins og að internetið hlýtur alltaf að hafa verið til.

 Sjálfur er ég lesblindur og forðaðist eins og ég gat að skrifa. Ég las bara námsbækur því það var svo mikil vinna að lesa að mér datt ekki í hug að lesa meira en ég þurfti. Samt komst ég í gegnum háskóla og náði góðum árangri í starfi. En þegar emailið kom, þá þurfti ég að hefja skrifleg samskipti við alla. Ég reyndi hvað ég gat að halda áfram að hringja í fólk og klára hlutina með talmáli en normið í samfélaginu og í viðskiptalífinu var ekki þannig lengur. Að samskipti skyldu breytast í að verða með skriflegum hætti var auðvitað mikil hagræðing, ekki síst fyrir viðtakandann sem las og svaraði þegar hann/hún var laus. Hagræðing sem fól í sér að hægt var að komast yfir mun meiri samskipti dag hvern heldur en t.d. með fundahaldi. Símtöl sem kröfðust þess að báðir væru lausir á sama tíma hættu. En fyrir mig þá breyttist annað. Ég þjálfaðist í að skrifa og öðlaðist meira sjálfstraust á því sviði. Svo mikið að fljótlega eftir það þá skrifaði ég tvær skáldsögur. Um leið þjálfaðist ég í að lesa og hef notið þess síðan.

 Þau sem gera mest úr því sem gervigreindin er að breyta eru þau sem þurfa að breyta sínu lífi mest út af gervigreind eða missa þá stöðu sem þau hafa í dag. Það eru nefnilega hálaunastörfin sem eru í hættu núna. Skapandi störf eins og ég er í til dæmis munu breytast mikið. Einnig þau sem vinna við að vera uppflettirit eins og lögfræðingar og margir læknar. Slíkt fólk með gott og þjálfað minni hefur í gegnum árhundruðin verið í sérflokki í samfélaginu og þegið fyrir það há laun. Það er ekki víst að slík störf verði í sama sérflokki og þau eru nú. Hugsanlega verður þekkingin í því að skipta um glugga verðmætari en að geta þulið upp einhvern lagabókstaf eða heyra einkenni og vita hvað sé að sjúklingnum. Það hræðir smiðinn ekki neitt en eflaust hræðir það lækninn og lögfræðinginn. 

 Stundum setja tæknibyltingar heiminn á hvolf og þá jafnast tækifærin. Það hefur gerst nokkrum sinnum síðan fyrsta iðnbyltingin hófst. Til dæmis urðu landeigendur skyndilega ekki þeir sem skiptu mestu máli þegar allir þustu til borganna til að vinna í verksmiðjum. Það var sárt fyrir forréttindafólk þess tíma sem bjó í glæsihúsum með þjónustufólk í öllum heimilisstörfum. Það sem er nýtt við þessa byltingu er að hún mun sjálfvirknivæða margt sem hálaunafólk gerir í dag en fyrri byltingar sjálfvirknivæddu það sem verkafólkið gerði.

 Í Formúlu 1 kemur öryggisbíllinn út þegar slys verða eða ef rignir of mikið. Þá missa fremstu bílar forskot sitt. Þegar keppnin byrjar aftur eiga allir jafnari möguleika. Þeir sem eru á réttu dekkjunum þá eða eru t.d. nýlega búnir að taka bensín fá annað tækifæri og enda oft á því að vinna keppnina þrátt fyrir að vera langt á eftir fremstu bílum þegar öryggisbíllinn kom út.

 Þetta á líka við í lífinu. Stundum koma tæknibyltingar sem jafna leikinn og allir þurfa að læra upp á nýtt. Aðlaga sig og tækifærin verða jöfn í smá stund. Þá skiptir máli hverjum tekst að laga sig hraðast að aðstæðunum og forskotið sem stórfyrirtæki eða einstaklingar hafa náð skiptir ekki lengur máli heldur hvað gert er í núinu. Nokia var með gríðarlegt forskot á farsímamarkaði þegar snjallsímar komu á markað. Nokia hélt áfram að einbeita sér að hafa símana litla, margar útgáfur og örugga í virkni. En heimurinn var að sækjast eftir meiri og þægilegri samskiptum, myndum og snertiskjám. Apple var með notendavænsta símann, breytti leiknum og bjó til markaðinn upp á nýtt. Búið var að breyta heiminum til framtíðar.

  Það er ekki tækniframförum að kenna að andleg heilsa ungs fólks sé á slæmum stað. Það er hvernig við notum tæknina og hvernig við tjáum okkur hvort við annað og heiminn sem er um að kenna. Málið er nefnilega að samfélagsmiðlar afhjúpuðu hvernig við tölum frekar en að breyta því. Það sem áður var sagt á kaffistofum er nú sjáanlegt öllum, líka börnunum okkar. 

 Tæknibyltingar munu alltaf breyta heiminum og kynslóðirnar breytast með, því lífið og tæknin eru samofin. Þeim tíma og þeirri orku sem við gjarnan notum í að þusa yfir tæknibreytingum er tvímælalaust betur varið í að sýna og segja okkar besta fólki, ástvinum okkar, að okkur þyki vænt um það.

 Gervigreindin mun breyta lífsgæðum okkar til langrar framtíðar og að sjálfsögðu borgum við toll af því eins og alltaf. Því ekkert er bara gott. Farandsölumenn fortíðar seldu fólki snákaolíu sem átti að vera allra meina bót. Nú hefur fólk aðgang að öllum upplýsingum heimsins og veit að ekkert er til sem bara er gott.

 Ég vona að mér takist að vera alltaf forvitinn og vera afinn sem kynni tæknibreytingar og aðrar samfélagsbreytingar fyrir barnabörnunum en ekki standa og öskra á skýin fyrir að allt sé að fara til fjandans og heimurinn hafi verið betri áður. 

 

 


Ég ætla að verða meira Beyoncé,

Ég var að hlusta á nýjustu plötu Beyoncé, Cowboy Carter. Platan er frábær en hún er líka mikil ádeila á kántrítónlist og hvernig slík tónlist hefur í gegnum tíðina jaðarsett svartar konur sérstaklega. Beyoncé er frá Texas og ólst upp við þessa jaðarsetningu frá tónlistarsenunni. En hvað gerði hún? Hún bjó til geggjaða kántríplötu og er að beyta heiminum og breyta sögunni. Hún tekur samtalið á leikvelli þeirra sem þurfa að heyra skilaboðin.

Ég fór þá að velta fyrir mér hvað hefur virkað og hvað ekki þegar við viljum breyta heiminum. Ein flottasta breyting sem hefur orðið á stöðu jaðarsetts hóps varð fyrir tilstuðlan gleðigöngunnar. Samkynhneigðir um allan heim komu út, gengu saman og gerðu það í gleði og fengu fólk með sér. Stóðu saman í gleðinni og nú hefur dæmið snúist við víðast hvar.

Konur höfðu á undan gert svipaða hluti með göngum, samstöðu og rauðum sokkum. Tónlistarsköpun og umræðu. Þetta náði í gegn og heimurinn breyttist. Flestir áttuðu sig. Sumstaðar hratt og sumstaðar hægt. Sumstaðar snérust kúgandi karlar til varna til að halda konum niðri en á flestum stöðum breyttust hlutirnir. Fyrir ungt fólk í dag er óhugsandi að hugsa sér hvernig hlutirnir voru fyrir aðeins 50 árum síðan þegar þessi bilting hófst. Ég man enn hvað mörgum þótti það ómögulegt að einstæð móðir yrði forseti á Íslandi árið 1980.

Svo höfum við ótal dæmi um það þegar við reynum að þvinga fólk til að skipta um skoðun með sniðgöngu eða ofbeldi. Það virðist sjaldan virka vel eða allavega hægar og verr. Nýlenduveldin reyndu það um allan heim í nokkur hundruð ár. Það hefur skilið eftir sig djúp sár. Flest vandamál heimsins í dag hvað varðar Mið-Austurlönd má rekja til þess tíma þegar Evrópa og Bandaríkin skiptu á milli sín gæðum þess heimshluta og þjöppuðu saman um leið íbúum þar til að líta á Vesturveldin sem kúgara.

Sniðganga hefur verið nokkuð notuð sem vopn, með viðskiptabönnum, útilokun frá íþróttakeppnum og fleiru. Rússar hafa verið í banni núna í nokkur ár. Það er skiljanlegt að við í Evrópu viljum ekki vinna með þjóð sem hagar sér eins og Rússar. En er það þjóðin sem hagar sér með þessum hætti eða eru það stjórnvöld? Erum við að grafa undan stjórnvöldum landsins með því að neita að eiga samskipti við Rússland? Eða erum við að þjappa Rússum saman? Erum við að hjálpa stjórnvöldum að sýna fram á að hinn vestræni heimur sé á móti Rússum?

Ég held að allir sem þekki mig viti hvar ég stend varðandi innrás Rússa í Úkraínu og þau verk sem undirstrika það.

Það sama á við um Ísrael. Ef við lokum á samtalið. Þá gerist bara eitt. Samtal helst áfram án okkar og án þess að rödd okkar heyrist og þá er einni röddinni færra sem talar fyrir mannúð. Einni rödd færra sem vill gera heiminn betri.

Þannig virkum við sem manneskjur. Ef við upplifum að það sé ráðist á okkur þá hugsum við ekki um það hvernig við getum orðið eins og sá sem ræðst á okkur vill að við verðum. Nei, við þjöppum okkur saman og hötum í sameiningu. Það er einmitt límið sem við færum stjórnvöldum í löndum sem beitt eru sniðgöngu. Þar þjappast allir saman gegn umheiminum og við lengjum í kúguninni.

Ég skil reiðina gagnvart þeim sem beita ofbeldi. En við þurfum að muna það að þegar t.d. stjórnvöld beita ofbeldi þá eru ekki endilega allir íbúar þess lands sammála því. En ef við sniðgöngum heila þjóð í stað þess að eiga samtal við þau þá sameinum við þau öll og það gæti tekið langan tíma að ná saman aftur.

Það hefði verið auðvelt fyrir Beyoncé að hata kántrí og neita að koma fram þar sem kántrílistamenn koma fram. En hún ákvað að gera akkúrat öfugt og breyta kántrí til framtíðar.

Ef við verðum öll aðeins meira Beyoncé þá verður heimurinn betri.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband