Við getum svo miklu betur

Miðvikudaginn 30. ágúst útskrifaðist ung móðir af Vogi. Þar sem ekki var pláss fyrir hana á Vík í meðferð eftir afvötnunina þá þurfti hún að bíða til 12. september til að halda áfram með sína meðferð og vinna í sjálfri sér. Hún lést aðfaranótt laugardags, 2. september.

Þetta er því miður ekki einangrað tilvik heldur saga sem endurtekur sig í sífellu. Fíknisjúkdómar eru alvarlegasta heilbrigðisvandamál heimsins í dag og við á Íslandi erum engin undantekning. Alvarleikinn er slíkur að nánast hver einasta fjölskylda þjóðarinnar hefur á einhvern hátt beina tengingu við sjúkdóminn. Sjúkdómurinn dregur fleiri til dauða en aðrir sjúkdómar, veldur fleirum sorg en aðrir sjúkdómar og veldur meira tjóni í samfélaginu. Börn alast upp í skömm, hræðslu, vonbrigðum, meðvirkni, afskiptalaus eða jafnvel foreldralaus. Foreldrar fólks með fíknisjúkdóma eru vansvefta með áfallastreituröskun. Systkini eru sífellt á vaktinni. Fjölskyldur tvístraðar þar sem vonin hefur svo oft orðið að vonbrigðum og traustið löngu farið. Sjúklingurinn sjálfur verður einangraður í sjálfshatri og sér enga leið út aðra en að deyfa sig aðeins lengur, lýgur, stelur, meiðir og svíkur undir stjórn fíknarinnar.

Flestir einstaklingar með fíknisjúkdóma eiga það sameiginlegt að vera yndislegt fólk þegar fíknin hefur ekki stjórn á þeim. Einnig eiga þau flest sameiginlegt að vera ekki yndislegt fólk undir stjórn fíknarinnar. Fangar í fangelsum landsins eiga það líka flestir sameiginlegt að vera með fíknisjúkdóm.

Við vitum í dag mjög mikið um þennan sjúkdóm og hvernig er hægt að hjálpa fólki út úr þeim vítahring sem sjúkdómurinn er. Við vitum einnig mikið um orsakasamhengi og hvernig þarf að vinna með fólki. Að vinna úr sínum áföllum hjálpar þeim að ná stjórn á sínu lífi og gefa til baka til samfélagsins.

Alkóhólisti í bata er frábær manneskja. Manneskja sem elskar að hjálpa öðrum og gefa til baka. Slíkar manneskjur eru mikilvægar. Þær eru iðulega sjálfboðaliðar í að hjálpa þeim sem eru skemmra á veg komnir í að halda niðri þessum banvæna sjúkdómi. Það er nefnilega mjög útbreiddur miskilningur að það sé hægt að læknast af alkóhólisma. Það er ekki hægt en það er hægt að halda sjúkdómnum niðri.

Þrátt fyrir alla þessa vitneskju um sjúkdóminn og hegðun hans þá þykir á Íslandi það vera góð hugmynd að útvista öllu er varðar þennan algenga og hættulegasta sjúkdóm þjóðarinnar til vanfjármagnaðra áhugamannafélaga. Útkoman er frábært og óeigingjarnt starf þeirra sem eru að reyna að berjast en því miður líka mun meiri sorg, erfiðleikar og dauðsföll en þyrfti að vera ef heilbrigðiskerfið tæki ábyrgð á því að alkóhlismi er heilbrigðisvandamál sem þarf að taka alvarlega.

Þar sem ég vinn mikið í Noregi þessa dagana þá er ég einnig að kynna mér hvernig Norðmenn nálgast hin ýmsu mál. Eitt af því er að afvötnun fer fram innan spítalanna. Bið eftir afvötnun er nánast engin enda er vitað að þegar viðkomandi hefur gefist upp fyrir sjúkdómnum og vill fá aðstoð þá má engan tíma missa.

Nú er staðan þannig að gríðarlegur fjöldi fólks er í lífshættulegum aðstæðum á biðlista eftir að fá pláss á Vogi til afvötnunar. Eftir afvötnun þar er gert ráð fyrir að fólk fari í áframhaldandi meðferð til dæmis á Vík. Til viðbótar er unnið frábært starf á stöðum eins og Hlaðgerðarkoti og í Krýsuvík þar sem meðferðir eru enn lengri. 

Við getum ekki sett fólk í lífshættulegum aðstæðum á biðlista. Það myndum við aldrei gera með aðra sjúkdóma. Því miður er það gert og það er einungis vegna hroka þeirra sem vilja ekki skilja sjúkdóminn og hafa komið kerfinu í þann farveg sem það er nú. Hrokinn er sá að telja fíknisjúkdóm ekki vera alvörusjúkdóm heldur eitthvað sem fólk gerir sér sjálft.

Við myndum aldrei senda einhvern með annan lífshættulegan sjúkdóm út í aðstæður sem valda sjúkdómnum í 3 vikur af því það er ekki pláss í heilbrigðiskerfinu. Það er eins og að einhver fengi þá hugmynd að einstaklingur með bráðaofnæmi kæmi inn á spítala og einkennum væri náð niður. En vegna plássleysis væri sniðugt að senda viðkomandi aftur á staðinn þar sem ofnæmisvaldurinn er og vona að viðkomandi deyi ekki áður en pláss losnar aftur til frekari meðhöndlunar.

Biðlistarnir eru dauðans alvara og eru nú að valda því að börn eru að missa foreldra sína, fjölskyldur eru í sárum. Fólk elst upp í fátækt og foreldrar fylgja börnum sínum til grafar.

Ég skora því á heilbrigðisráðherra að taka til algjörrar endurskoðunar hvernig við nálgumst þennan sjúkdóm og að ekki sé eingöngu hægt að treysta á vanfjármögnuð sjálfboðaliðasamtök til að leysa heilbrigðisvandamál þjóðarinnar.


Barbie skiptir máli.

Við Silja, konan mín, fórum saman á Barbie í bíó. Myndin er skemmtileg en fyrir mig sem markaðs-, samskipta- og auglýsingamann þá er hún einstaklega áhugaverð.

 

Dúkkan Barbie hefur fyrir löngu síðan misst sinn upprunalegan tilgang og orðin á skjön við samtímann. Hún varð tákn neysluhyggju, „steríótýpa“ hlutgervingar og óraunverulegra krafna um fullkomnun kvenna. Þetta leikfang sem gerði Mattell að einum öflugasta og ríkasta leikfangaframleiðanda heims var því í miklum vanda statt. Hvernig mætir maður slíkri stöðu? Það eru í raun bara þrjár leiðir; að hætta framleiðslu, að halda áfram og mjólka það sem eftir er af tímanum sem hægt er að selja Barbie eða að fara í endurmörkun. 

 

Í endurmörkun þarf að skoða stöðuna í kjölinn og setja niður fyrir sér hver hún er, finna nýja markaðslega sýn og varða leiðina að þeirri sýn. Vara eins og Barbie er ekki bara vara sem hægt er að byrja að auglýsa upp á nýtt eða koma með nýja dúkku, heldur þarf að finna leið til að fá markaðinn til að fyrirgefa þann skaða sem leikfangið hefur valdið sjálfsmynd kvenna. Það er mikill pakki og erfitt að leysa. Hingað til hafði fyrirtækið reynt að laga ímyndina með nýjum dúkkum til að auka á fjölbreytileikann en eftir stóð samt Barbie heimurinn sem var óraunhæfur.

 

Nokkur fyrirtæki hafa farið í endurmörkun með mjög góðum árangri en fleiri hafa gert það með litlum, engum eða slæmum árangri. Það er nefnilega ekki hægt að setja varalit á skít og reyna að selja hann sem eitthvað betra en hann var áður. Það þarf að kafa dýpra og finna vörumerkinu nýjan tilgang. Fá vörumerki hafa gengið svo langt að viðurkenna hvað var að og byggja svo upp á nýtt. Mörg sem hafa farið þá leið hafa svo ekki staðið undir því að hafa gert þær breytingar sem þurfti. Svo til viðbótar þarf að finna út hvernig við komum nýrri staðsetningu vörumerkisins til skila í huga neytenda. Það er ekki nóg að búa til nýjar auglýsingar og halda að allt lagist með þeim. Það er bara hluti af því sem þarf að gera.

 

Í tilfelli Mattell þurfti að sýna fram á að fyrirtækið skildi og meðtæki þann skaða sem dúkkan hefur valdið. Að þau væru að gera eitthvað í málinu og vildu byggja upp nýjan heim sem byggði upp sjálfsöryggi en ekki sjálfsefa eins og dúkkan hefur gert svo áratugum skiptir. Þá er ekki nóg að koma með enn eina nýja dúkku og auglýsa hana með nýjum skilaboðum. Það þurfti að rífa gamla heiminn í tætlur fyrir framan augun á markhópnum og byggja hann svo upp aftur og gefa dúkkunni þannig nýjan tilgang. Einnig þurfti að hugsa til þess að markhópurinn er marglaga sérstaklega þar sem um barnaleikfang er að ræða.

 

Að búa til bíómynd var líklega eina leiðin til að ná þessu fram. Þar var tekin mikil áhætta og ekkert mátti klikka í söguþræðinum. Það er stutt á milli þess að viðurkenna og bæta yfir í það að réttlæta. Sagan varð að vera einlæg viðurkenning á því að Mattell hafði ekki hugsað um þessa hluti ásamt því að það hefði átt að taka til í heimi Barbie fyrir mörgum árum. Líkurnar á því að myndin yrði rifin í tætlur af feminískum gagnrýnendum var því verulega mikil.

 

Myndin er ein markaðssnilld. Einlæg viðurkenning á því að Barbie-heimurinn er óraunhæfur og veldur vanlíðan og sjálfsefa. Að karllæg stjórnun á fyrirtækinu hafi eingöngu gengið út á að selja án þess að hugsa út í sálræn áhrif þess sem var verið að selja og að feðraveldið (sem er að vísu orð sem pirrar mig alltaf) er til. Að framleiðendur dúkkunnar skildu ekki markhópinn sinn. Samskipti móður og dóttur um tilverurétt dúkkunnar er líka snilldarvel hugsað plott til að fá konur til að rifja upp Barbie frá sinni æsku og tengja dúkkuna á nýjan hátt við börn eða barnabörn sín. Einnig er vel gert að í Barbie-heimi ráða konur og karlar eru óþarfir. Þar er hlutunum skemmtilega snúið á hvolf til að benda á hversu heimurinn er enn karllægur og upplifun Ken speglast í upplifun kvenna í daglegu lífi. Minnir á þættina Fastir liðir eins og venjulega sem voru framleiddir af RÚV á 9. áratugnum. 

 

Myndin staðsetur Barbie upp á nýtt í hugum þeirra sem sjá myndina og væntanlega munu öll skilaboð Mattell um Barbie breytast í kjölfarið. Barbie er orðin boðberi sjálfsöryggis og samþykkir að við erum öll mismunandi og enginn þarf að vera fullkominn. Eins og sýnt er svo vel þegar “crazy” Barbie er samþykkt í myndinni. Dúkkan hefur í einu vetfangi öðlast tilgang og tilverurétt í nútímanum. Barbie skiptir máli og um næstu jól fáum við að sjá hvað miklu myndin hefur breytt áliti neytenda á vörumerkinu. Það verða líklega ansi mörg börn sem fá Barbie í jólagjöf þetta árið. Svo er bara að sjá hvort Barbie-heimurinn lifi áfram í dúkkum og ímyndunarafli þeirra sem leika með þær eða hvort við erum að fara að sjá tíma Barbie í tölvuleikjum, bíómyndum og þáttum eins og við höfum séð Marvel, DC og LEGO undanfarin ár.


Að tilheyra

Hverri manneskju er lífsnauðsynlegt að tilheyra. Tilheyra fjölskyldu, hópi, samfélagi, trúarbrögðum, áhugamálum, íþróttafélagi eða bara mannkyninu öllu. En sum alast upp við stöðug skilaboð frá samfélaginu um að þau tillheyri ekki. Oftast eru þetta ómeðvituð skilaboð sem við öll sendum frá okkur og borast inn í undirmeðvitund viðkomandi um að hann, hún eða hán sé gallað. Ég er sekur um að senda svona skilaboð út í umhverfið. Sérstaklega fyrri hluta ævi minnar þar sem ég notaði setningar eins og „djöfull ertu hommalegur í þessu“ eða „þetta er ekki fyrir hvítan mann að gera“. Svo var allt grínið sem maður hélt að væri í lagi en er ekki í lagi. Sumt sagði maður fyrir framan börnin sín án þess að gera sér grein fyrir því hvað maður var að gera.

Þessi pistill er skrifaður í Hrísey þar sem Hinsegin Hrísey var í gangi. Leikritið Góðan daginn faggi var sýnt í Sæborg fyrir fulllu húsi og setti tóninn fyrir helgina. Boðskapur sýningarinnar er stórkostlegur og Bjarni, Gréta og Axel eiga miklar þakkir skilið fyrir þetta listaverk sem ætti að fá öll til að hugsa. Að fagna fjölbreytileikanum er ekki bara partý og stuð. Að fagna fjölbreytileikanum er að tilheyra og bjóða öðrum að tilheyra. Einnig gefur þetta fólki leið til að tala saman, læra og skilja. Í þessum pistli er ég að reyna að koma áfram því sem ég er að læra.

Árið 2014 kom ungur maður í Hrísey út með samkynhneigð sína. Mér þótti það ekkert tiltökumál enda þekkt ótal einstaklinga sem hafa komið út í gegnum árin. Ég áttaði mig hinsvegar ekki á því að koma út í litlu sjávarplássi þar sem allir þekkja alla er annað og meira en að koma út í borg. Flestir tóku þessu vel, sumir hentu í óviðeigandi grín og aðrir fussuðu. Þetta var í fyrsta skipti sem einstaklingur búsettur í eyjunni kom út. Því hafði ég ekki áttað mig á. Svo þetta var mun stærra en maður hefði hugsað sér árið 2014. Skömmu síðar var þorrablót í eyjunni þar sem allir mæta. Faðir unga mannsins var í nefndinni og var kynnir hátíðarinnar. Nokkrir óviðeigandi brandarar höfðu verið sagðir í hálfum hljóðum úti í sal svo einungis þeir sem sátu við viðkomandi borð heyrðu. En þá kom hann öllum á óvart og söng, lagið Strákarnir á borginni efir Bubba Morteins, „Sonur minn er enginn hommi, hann er fullkominn eins og ég“… Ég horfði yfir salinn og sá hvernig hann afvopnaði alla með þessari stórkostlegu stuðningsyfirlýsingu við son sinn. Í kjölfarið breyttist margt. Ný Hrísey, sjávarpláss sem fagnar fjölbreytileikanum. Það gerðist ekki á einni nóttu og verður aldrei fullkomið. En með hverju árinu verður samfélagið betra gagnvart fólki sem passar ekki inn í gömlu staðalímyndirnar. Þrír foreldrar hinsegin fólks standa fyrir hinsegin dögum í Hrísey með stórkostlegri dagskrá þar sem langflestir íbúar flagga fyrir fjölbreytileikanum og taka þátt, fá sér hinsegin pizzu, mæta á hinsegin barsvar og klappa fyrir Góðan daginn faggi. Óviðeigandi „grínsetningar“ heyrast æ sjaldnar, samfélagið gefur pláss út fyrir staðalímyndirnar. Það má vera öðruvísi og tilheyra.

Skilaboðin sem fólk utan gömlu staðalímyndanna fær eru margskonar á hverjum degi. Það eru meðvituð skilaboð sem annað hvort eru samþykki eða útskúfun. Til dæmis það fáránlega rugl sem byrjaði á TikTok að gelta á jaðarhópa. Það eru bein skilaboð um útskúfun og er dæmi um ofbeldi. Síðan má nefna öll skilaboðin sem við sendum ómeðvitað og innifela ýmist samþykki eða útskúfun. Nýjasta dæmið er fólk sem telur sig vera í mikilvægri baráttu til verndar tungumálinu, gegn því að hvorugkyn sé notað þegar talað er um fólk af öllum kynjum. Þar sem ég þekki sumt af því fólki sem hefur staðið í slíkri baráttu persónulega veit ég að þau ætla sér ekki að meiða jaðarhópa viljandi. En ég gef ég mér að fólk átti sig ekki á því að um leið er verið að segja „þið tilheyrið ekki minni veröld“. Fyrir allnokkrum árum voru miklar umræður um það hvort kirkjan ætti að leyfa prestum að gefa saman fólk af sama kyni. Öll skoðanaskipti og undarlegar yfirlýsingar biskups á þeim tíma voru bein skilaboð til stórs hóps; „þið tilheyrið ekki okkar kirkju“. En biskup sagði í þeirri umræðu; “Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við allavegana köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang”. Að gera ekki ráð fyrir að einn sé vegan í jólaboðinu eru skilaboð um að viðkomandi tilheyri ekki þessu jólaboði. Sama má segja um létta brandara á borð við að einhver sé „algjör hommi“ ef hann ræður við erfitt verkefni. Það eru skilaboð til homma um að þeir séu lélegir og aumir. Að kalla einhvern fatlaðan ef hann getur ekki eitthvað eru skilaboð til fatlaðs fólks um að þeir geti ekki neitt. Þessi ómeðvituðu skilaboð erum við sem samfélag að senda jaðarhópum alla daga allt árið. Að pirrast yfir orðanotkun á borð við hán, kvár, trans osfrv. með því að segja; „Ég skil ekki allt þetta rugl, það eru bara tvö kyn“ eru skilaboð um að viðkomandi tilheyri ekki þinni veröld. Að bregðast illa við þegar einhver kemur út eru skilaboð um að viðkomandi tilheyri ekki, sérstaklega ef slík skilaboð koma frá foreldri. Þessi óbeinu skilaboð eru líka dæmi um ofbeldi.

Árið 2010 var ég ásamt Heru Björk að skemmta á Helsinki Pride. Þar fórum við með í gönguna sem taldi nokkur hundruð einstaklinga og á leiðinni gengum við framhjá mótmælum gegn göngunni sem taldi álíka marga. Þetta var fyrir aðeins 13 árum síðan. Síðan hafa hlutirnir breyst mikið í Finnlandi. Það er því alltaf von. En allt byrjar hjá okkur sjálfum. Ómeðvituðu litlu skilaboðin sem við sendum út í samfélagið eru mikilvægust. Erum við að segja einhverjum sem er að bögglast með sjálfið sitt: „þú tilheyrir ekki“? Eða segjum við eitthvað við viðkomandi þegar aðrir senda slík skilaboð? Það eru líka skilaboð. Samfélagið erum við og við eigum öll að tilheyra.


Sjúkdómar taka ekki sumarfrí.

„Því miður þá verð ég að segja þér að þú ert með krabbamein á þriðja stigi og ef ekkert verður að gert núna þá er ekki aftur snúið. Það verður að hefja meðferð núna strax. En því miður verð ég líka að segja þér að það er ekki hægt. Krabbameinsdeildin fer nefnilega í frí allan júlí og fyrstu vikuna í ágúst. Við verðum því bara að vona það besta og það verði ekki of seint að hefja meðferð um miðjan ágúst.“

Hvað myndum við segja ef við fengjum svona móttökur á krabbameinsdeildinni? Ég er viss um að engin myndi sætta sig við þetta enda fer krabbamein ekki í frí frekar en aðrir sjúkdómar. En því miður þá eru sumir sem halda að andlegir sjúkdómar fari í frí á sumrin. Alkóhólistar og aðrir fíklar verða að tóra sumarið og vona að þeir haldi lífi til að geta hafið sínar meðferðir í ágúst ef þeir komast að því biðlistinn lengist verulega á sumrin.

Fíknisjúkdómar drepa flesta, eyðileggja flest líf og valda mestum skaða í samfélaginu í dag. Samt sem áður er einhver sem ákveður að það sé í lagi að meðferðir við þessum sjúkdómi geti farið í sumarfrí í 5 til 6 vikur af því það hentar best kostnaðarlega. Þetta sé hvort sem er sjúkdómur sem fólk velur að hafa og því sé best að láta áhugasamtök um alla meðferð og skammta þeim bara fyrir hluta þeirra sjúklinga sem þurfa hjálp. En „alvöru sjúkdómar“ fá allt öðruvísi meðhöndlun. Þar eru „alvöru læknar“ að lækna og það inni á alvöru spítala. Það er eins og Saxi læknir hafi ákveðið hvernig þetta á allt að vera. „Það er aldrei neitt almennilegt að þér,“ sagði Saxi. Þannig eru skilaboðin sem heilbrigðiskerfi Íslands sendir þeim 10% landsmanna sem haldnir eru fíknisjúkdómi, banvænasta sjúkdómi veraldar í dag. Hann er víst ekki almennilegur sjúkdómur enda ekki hægt að lækna hann með pillum eða uppskurði.

Á síðasta ári hófst fentýlfaraldur í Bandaríkjunum og er að breiðast yfir heiminn. Yfir 100.000 manns létust þar í landi árið 2022 vegna ofneyslu fíkniefna og aldrei hafa jafn margir látið lífið á Íslandi vegna ofneyslu lyfja og í ár. Þetta er að megninu til ungt fólk sem fær aldrei að reyna lífið og aðstandendur standa eftir í sárum yfir þeirri framtíð sem glataðist. Sjá aldrei unga fólkið þroskast og verða sjálft að foreldrum. Halda á barnabarninu, hjálpa ungu foreldrunum og koma sér af stað inn í fullorðinslífið.

Ég hef sem betur fer ekki upplifað þann sára missi sem það hlýtur að vera að missa barn og geta ekkert gert til að hjálpa viðkomandi að snúa af þeirri braut sem það er á. Því þegar fíkillinn er við stjórnvölinn, þá er ekkert hægt að gera annað en vona og vera til staðar. Bíða átekta þar til fíkillinn er tilbúinn og vona að það verði ekki að vori því hann gæti verið hættur við þegar loks kemur að því að viðkomandi komist inn. Því þegar fíkillinn er búinn að taka ákvörðun um að fara í meðferð, þá byrjar erfiðasti tíminn. Uppgjöfin er komin en meðferðin hefur ekki hafist. Biðlistinn er dauðans alvara og það er þá sem fólk oft á tíðum missir allt. Eigurnar, fjölskylduna, æruna. Tjónið sem fólk með fíknisjúkdóma valda á þeim tíma sem þau eru á biðlista eru ómælanleg hvort heldur sem er í fjárhæðum eða tilfinningalega. Ég tel mig lánsaman að vera aðstandandi alkóhólista í bata, það er góður tími en ég finn til með öllum sem ekki eru jafn lánsamir og ég á þessum erfiðu tímum.

Sýndu mér frelsið flögrandi af ást

Falið bakvið rimlana hvar sálirnar þjást

Og nöfnin sem hjartað hafði löngum gleymt

Haltu fast í drauminn sem þig hafði eitt sinn dreymt

Þetta syngur Bubbi Morthens, en hann hefur sungið í fleiri jarðaförum ungs fólks í ár en nokkru sinni fyrr.

Ég skora á Willum Þór heilbrigðisráðherra að taka þessi mál upp sem mikilvægustu áskorun þjóðarinnar næstu árin í heilbrigðismálum. Það þarf að hugsa hlutina upp á nýtt. Þar sem ég bý í Noregi þessa dagana sé ég hvernig málin eru gerð þar. Þar er t.d. afvötnun á sjúkrahúsum og innan sama kerfis og aðrir sjúkdómar. Eftir það taka önnur samtök við með það sem við köllum eftirmeðferð, en þar er það bara kallað meðferð. Heimurinn er fullur af góðum hugmyndum. Nú liggur á að finna þær bestu og gera þær að okkar og vera til fyrirmyndar í þessum málum eins og okkur hefur tekist að vera til fyrirmyndar í svo mörgu öðru.

 


Fyrstu viðbrögð skipta öllu máli

„Ég verð því miður að viðurkenna að við stóðum okkur afar illa í þessu máli og þessi skýrsla er áfellisdómur yfir okkar vinnubrögðum. Okkur var sem betur fer boðin sátt í þessu máli sem við munum greiða. En það sem skiptir meira máli er að við fengum tækifæri til að lagfæra okkar ferla. Við tókum málið strax alvarlega og endurskoðuðum alla okkar ferla til að koma í veg fyrir að mál sem þetta geti endurtekið sig“. Þetta hefði Birna Einarsdóttir getað sagt um sátt sem Íslandsbanki hefur gert um sekt vegna ávirðinga frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands vegna sölu ríkisins á 22,5% hlutafjár bankans til fagfjárfesta á síðasta ári.

Ef yfirlýsing Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, hefði verið eitthvað á þennan veg þá væri staða hennar, staða hennar nánasta samstarfsfólks, staða stjórnarinnar og staða bankans allt önnur í dag.

Fyrstu viðbrögð skipta mestu máli í krísustjórnun og ef þau eru röng geta lítil mál orðið stór og ef þau eru rétt geta stór mál orðið lítil. Að fylgjast með viðbrögðum Íslandsbanka og Birnu Einarsdóttur er með verri dæmum sem ég man eftir í seinni tíð, þar sem viðbrögðin hafa annaðhvort ekki verið undirbúin eða þá að þeir sem skipulögðu viðbrögðin hafi ekki hugsað málið til enda.

Nokkur atriði eru lykilatriði í almannatengslum í krísu. Það má ekki segja ósatt, það má ekki fara undan í flæmingi og það þarf hafa yfirsýn yfir þær upplýsingar sem eiga eftir að koma fram eða gætu komið fram. Svar dagsins í dag má ekki snúast upp í andstæðu sína daginn eftir af því einhver annar kemur með upplýsingar sem eru í andstöðu við það sem viðkomandi sagði. Mikilvægast er síðan að taka fyrirvaralausa ábyrgð.

Viðbrögð Íslandsbanka eru skólabókardæmi um mislukkuð viðbrögð og verða líklega notuð sem dæmi um hvernig ekki á að bregðast við um ókomin ár. Einungis tveimur sólarhringum áður en skýrslan um skelfileg vinnubrögð og eitraða hegðun innan bankans er birt kemur Birna með yfirlýsingu sem er ein verst skrifaða yfirlýsing sem sést hefur í slíkri aðstöðu. Þar er gert lítið úr innihaldi skýrslunnar og talað um traustsyfirlýsingu til bankans í ljósi þess náðst hefði að sátt upp á aðeins 1,2 milljarða, sem er Íslandsmet. Hún segir þar einnig að hún njóti trausts stjórnar til að sitja áfram. Það er eins og atvinnufólkið í samskiptum hafi ekki áttað sig á því að skýrslan kæmi fyrir sjónir almennings og þar með myndi Birna líta mjög kjánalega út eftir þessa yfirlýsingu. En undirritaður gerir ráð fyrir því að atvinnufólk í samskiptum hafi verið með í að semja yfirlýsinguna því ein regla í krísu, til viðbótar við áðurnefndar reglur, er að þeir sem eru í krísunni eiga aldrei að koma með viðbrögð án þess að ráðfæra sig við aðila ótengda krísunni, sama hversu vanir viðkomandi eru almannatengslum. Yfirlýsingin snýst upp í andhverfu sína og gerir bankastjórann líta út fyrir að vera hrokafullan og ótengdan raunveruleikanum. Hún er allt í einu staðin að því að reyna að afvegaleiða umræðuna og að vera í afneitun gagnvart hinu raunverulega vandamáli, sem hún var líklega ekki í. Traust til hennar er horfið, traust til hennar nánustu samstarsaðila er horfið og traust til stjórnar bankans er horfið.

Síðasta dæmið sem ég man eftir um önnur eins almannatengslamistök var viðtal við Guðna Bergsson, þáverandi formann KSÍ, í Kastljósi. Þar voru svörin illa ígrunduð og eins og fólk teldi sig í lofttæmi og að engar aðrar upplýsingar gætu komið fram í málinu. Betri undirbúningur fyrir það viðtal hefði getað sparað KSÍ tveggja ára vandræði og tap á trausti sem mun taka mörg ár til viðbótar að byggja upp.

Leiðin út úr þessum spíral núna er mjög erfið en þar væri hægt að fara tvær leiðir: 1) Birna segir af sér, eins og hún hefur nú þegar gert, til að losa um pressuna en líklega verður það ekki nóg, eða 2) að koma einlægt fram og viðurkenna mistök sín og hversu klaufaleg viðbrögð hennar og fleiri innan bankans voru og sjá svo hvort henni og bankanum verði fyrirgefið. Slík afsökunarbeiðni þarf að vera fyrirvaralaus og þar þarf að taka ábyrgð.

Nú hefur hún sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún „tekur ábyrgð á sínum þætti málsins“ en það er ekki fyrirvaralaus ábyrgð. Því til er enn ein regla til viðbótar í almannatengslum í krísustjórnun. Hún er þessi: til að stöðva spíralinn er einlæg og fyrirvaralaus afsökunarbeiðni oftast eina leiðin út.


Töfralausnir eru ekki til

Nú eru allt í einu allir orðnir sérfræðingar í vöxtum og verðbólgu. Ekki ósvipað því þegar við urðum öll skyndilega sérfræðingar í bóluefnum og grímum. Flestir þessara sérfræðinga tala út frá sínum persónulegum þörfum eða hagsmunum en fáir virðast velta fyrir sér raunveruleikanum og af hverju við erum núna með verðbólgu og af hverju það er ekki bara hægt að leysa hana með því að hækka alla í launum til að allir hafi það jafn gott og áður.

Ef við stiklum á stóru og byrjum á Covid-tímanum þá dældu ríkisstjórnir allra vestrænna ríkja fjármagni inn í hagkerfin til að koma í veg fyrir innviðatjón í einkageiranum og atvinnuleysi. Einnig héldu opinberir aðilar úti margs konar þjónustu, sem ekki var til áður, sem kostaði verulega fjármuni ásamt tekjutapi. Til viðbótar röskuðust aðfangakeðjur í faraldrinum og þær hafa enn ekki náð sér. Strax í kjölfarið á þessu réðust Rússar inn í Úkraínu og breyttu heimsmyndinni. Í kjölfarið á því varð skortur á olíu og gasi í Evrópu ásamt hveiti og alls kyns íhlutum í bíla og fleiri vörum sem framleiddar voru í Úkraínu. Verulega var svo aukið í framlög til varnarmála. Allt þetta olli verðbólgu í Evrópu og Bandaríkjum, sem að hluta til var keyrð áfram af skorti og að hluta af „peningaprentun“.

Ísland fann seinna fyrir þessu en önnur lönd í Evrópu, þar sem við höfum ekki fengið þessar gríðarlegu hækkanir á heimilisorku. Rafmagnið okkar er ekki tengt Evrópumarkaði og heita vatnið okkar ekki heldur. Undirritaður býr í Noregi og þar fór húshitun upp í allt að kr. 200.000,- íslenskra króna á mánuði síðastliðinn vetur. Þá á fólk ekki mikið eftir í annað.

Hegðun íbúa Evrópu fór stax að breytast á síðasta ári þar sem fólk hélt að sér höndum við fjárfestingar, ferðalög og heimilisinnkaup. Verðbólga olli því að laun fólksins dugðu skemur og þar með minnkaði neyslan. Í flestum þessara ríkja urðu ekki launahækkanir til jafns við hækkunina og er því verðbólgan farin að minnka.

Á Íslandi virtist sem flestir héldu að þessir viðburðir í heiminum kæmu sér ekki við. Neysla var í hæstu hæðum og skuldsetning jókst. Launahækkanir fordæmalausar, en samt taldar of litlar. Undarleg hugmynd var í gangi um að kaupmáttur ætti alltaf að fara upp, sama hvað bjátar á. Þeir sem voru í fyrirsvari í atvinnulífinu virtust ekki tengdir og greiddu sér út fordæmalausa bónusa, launahækkanir og arð án þess að hugsa út í það að vera á sama tíma að lesa yfir launafólki um að það væri ekkert svigrúm til hækkana.

Verðbólga í Evrópu og Bandaríkjunum var svo flutt inn til Íslands í formi vöruhækkanna á innfluttum neysluvörum, aðföngum, bílum og örðum fjárfestingavörum. Seðlabankinn átti að berjast við verðbólguna með aðeins eitt vopn í höndunum, vexti. Á meðan var atvinnulífið að semja um launahækkanir, ríkisstjórnin og Reykavíkurborg að eyða sem aldrei fyrr og íbúarnir að setja met í neyslu.

Það eru engar töfralausnir til þegar skortur verður í heiminum. Þá er minna til en fólk vill eða þarf. Því hækkar það í verði og það er ekki hægt að veifa höndinni til að leysa það. Við verðum bara að kaupa minna og launin verða að duga fyrir minni neyslu. Ef við lokum augunum fyrir því þá förum við í spíral sem heldur endalaust áfram með óðaverðbólgu. Við höfum verið þar áður.

Núna erum við með spíral sem lítur svona út í sinni einföldustu mynd: Hækkun vöruverðs erlendis býr til verðbólgu, verðbólga kallar á launahækkanir, launahækkanir kalla á meiri neyslu, meiri neysla kallar á vaxtahækkanir, hærri vextir kalla á stöðvun húsbygginga, stöðvun húsbygginga býr til skort, skorturinn býr til verðhækkanir á fasteignum, verðhækkanir á fasteignum hækka verðbólgu, verðbólga kallar á kröfur um frekari launahækkanir o.s.frv.

Það er alveg sama hvað sjálfskipaðir sérfræðingar benda á margar töfralausnir. Þær eru ekki til í alvörunni. Lífskjör geta ekki alltaf farið upp. Heimsfaraldur og stríð rýra lífskjör og við verðum bara að sætta okkur við að núna er tími aðhalds í fyrirtækjum, heimilum og hjá hinu opinbera. Um leið og við náum því, þá fer verðbólga niður og vextir líka. Kaupmáttur getur ekki alltaf aukist. Nú vantar bara einstaklinginn sem sameinar okkur öll um að taka á þessu saman. Ef það tekst þá verður þetta tímabil stutt. Ef það tekst ekki þá verður þetta tímabil langt og sárt.

Ég biðst afsökunar, en stundum þarf að skemma partíið með staðreyndum.

Höfundur er viðskipta- og hagfræðingur


Að vera með sjálfum sér

Þar sem bý að hluta til í Oslo og vinn þar er ég oft einn á kvöldin. Silja konan mín, börnin og barnabörnin búa öll á Íslandi. Ég varð smám saman háðari símanum og iPad-inum. Í hvert sinn sem ég var einn í þögn, tók ég upp annaðhvort tækið og tékkaði hvort eitthvað hefði breyst á fréttamiðlunum, LinkedIn og Snapchat. Ég er sem betur fer ekki til á Facebook og Instagram og hef aldei verið. En venjulega hafði ekkert breyst frá því ég kíkti síðast, 2–3 mínútum fyrr. Ég setti á podcast eða fór í tölvuleik. Í flugi (ég flýg mikið) var ég kominn með mynd á skjáinn um leið og ég gat. Allt til að vera ekki einn með sjálfum mér í þögninni.

 

Ég hitt fyrir nokkrum árum Martin Lindstrom. Martin er einn mesti snillingur heimsins í markaðsrannsóknum og mannlegri hegðun. Hann var á Íslandi að halda fyrirlestur á vegum Jóns Gunnars Geirdal sem bauð okkur báðum í læri heim til mömmu sinnar. Við áttum saman kvöldstund þar sem við töluðum um margt og ég tók eftir því að hann var með gamlan Nokia takkasíma. Hann sagði að hann hefði fyrir löngu lagt snjallsímanum sínum þar sem öll sköpun hefði horfið um leið og hann fór að nota þannig tæki. Nú notar hann símann aðeins til að tala í. „Okkur verður að leiðast til að fá hugmyndir. Ef okkur leiðist aldrei, þá fáum við aldrei neinar hugmyndir,“ sagði hann og nú mörgum árum seinna áttaði ég mig á því að ég var orðinn smeykur við að láta mér leiðast.

Ég byrjaði að setja sjálfum mér mörk og venja mig af þessu. Allavega að hætta að kíkja endalaust á netið. Ég byrjaði á að hafa ekkert í eyrunum í strætó eða þegar ég var að labba eða hjóla í vinnuna (almenningssamgöngur eru mjög góðar í Oslo, sem er líklega efni í aðra grein). Strax við það þá byrjaði heilinn í mér að virka öðruvísi. Ég var einn með hugsunum mínum og hugmyndir byrjuðu að flæða. Ég meira að segja geng svo lagt hér í Oslo að ég er ekki með sjónvarp í íbúðinni, Silju til mikillar mæðu þegar hún kemur í heimsókn. En við þetta breyttist ansi margt. Ég byrjaði aftur að skrifa pistla og dægurlagatexta (svo má deila um hvort það hafi verið til góðs). Hugmyndir fyrir viðskiptavini Pipar\TBWA fæddust á öllum tímum og mér leið mun betur. Bara í göngutúr í gærkvöldi fæddust tvær góðar hugmyndir fyrir viðskiptavini og þennan pistil er ég að skrifa í flugvél í stað þess að horfa í þátt.

Á nokkrum vikum eftir breytingar, geng ég og hjóla enn meira þar sem sumarið er komið í Oslo. Það eru ansi margir aðrir úti að ganga í góða veðrinu og eflaust nokkrir eins og ég sem vilja ná af sér einu eða fleiri kílóum. Þá hef ég tekið eftir því að nánast allir sem ég mæti eru með eitthað í eyrunum, talandi við einhvern eða starandi á símann sinn. Það fékk mig til að hugsa um að líklega eru allir stöðugt að forðast sjálfan sig. Við kunnum ansi mörg ekki lengur að vera ein með hugsunum okkar. Við eru alltaf í stöðugu sambandi, sama hvar við erum eða hvað við erum að gera. Fólk keyrir á milli staða og hringir í einhvern á meðan. Það situr í strætó og talar við einhver á messanger og þeir sem enn reykja skreppa í smók og hringja í einhvern á meðan til að reykja ekki einir.

Nú síðustu viku hef ég mætt einni manneskju úti að ganga sem ekki var með neitt í eyrunum eða að nota símann sinn á einhvern hátt á meðan. Nema sú manneskja sé að ganga með einhverjum öðrum.

En er það svo leiðinlegt að vera einn með hugsunum sínum? Mín reynsla er sú að það er alls ekki þannig, en það getur verið óþægilegt að sitja einn innan um fullt af fólki sem er með í eyrunum og stara út í loftið. Það er líka miklu auðveldara að grípa í hækjuna sem síminn er og ná sér í smá fjarveru. Þó ekki nema í eina mínútu sem maður á óráðstafað. En ef maður hefur það af og lætur hugann reika, þá líða ekki nema nokkrar sekúndur áður en heilinn fer á flug og allt fjörið byrjar.


Ég vorkenni Einari?

 Ég hef nú í mörg ár fylgst með borginni okkar að sökkva dýpra og dýpra í skuldir, þjónustuna versna og verða óskipulegri. En ef þú heldur að hér sé á ferðinni enn ein pólistíska greinin um það hvað Dagur sé lélegur borgarstjóri og að skipta þurfi um meirihluta, þá verðurðu fyrir vonbrigðum,

 

 Að reka borg er ekkert smámál. Reykjavíkurborg, Landspítalinn og Icelandair eru þrír stærstu vinnustaðir Íslands. Borgin er flókinn vinnustaður með miklar áskoranir ásamt því að það er atvinnufólk til staðar í að benda á hvað fer úrskeiðis, þar sem pólitík virkar þannig. En ef við veltum fyrir okkur hvað hefur fólk eins og Dagur, Jón Gnarr, Ingibjörg Sólrún, Davíð Oddsson og fleiri góðir einstaklingar fram að færa sem forstjórar í svona stóru og flóknu fyrirtæki? Þau eru hvert um sig snillingar. Davíð Oddsson; lögfræðingur, með skýra sýn, ritsnillingur og húmoristi. Hann hefur mikinn sjarma og guð hjálpi þeim sem lendir upp á kannt við Davíð. Ingibjörg Sólrún; frábær í að svara fyrir sig og fékk fólk með sér í ferðalag sem enginn hefði trúað á án hennar og Sjálfstæðisflokkurinn var felldur eftir áratuga áskrift að borgarstjórastólnum. Jón Gnarr; hugsjónarmaður með skrítinn en einlægan sjarma. Hann hefur umfram alla stjórnmálamenn þann hæfileika að segja satt, þó það sé honum ekki til góðs. Hann svarar bara hlutum sem hann veit og segist ekki vita aðra hluti. Líklega það besta sem hann gerði var að hann lét fagfólkið um reksturinn og ákvarðanir aðrar en stefnumótandi ákvarðanir. Dagur; Læknir og algjör sjarmör og tungulipur með eindæmum. Hann er vinsamlegur og mjög sleipur í leiknum. Hann er eins og köttur nema með enn fleiri líf. Það má aldrei vanmeta Dag sem stjórnmálamann. En ekkert af þessu fólki eru sérfræðingar í rekstri, hvað þá að snúa við mjög erfiðum rekstri hjá stórfyrirtæki.

 Hversu mikill stjórnmálamaður og sjarmör sem Dagur er, þá er hann greinilega ekki góður rekstrarmaður. Enda er það að vera góður rekstrarmaður ekki endilega það mikilvægasta sem borgarstjóri þarf að hafa. En hann þarf þá að hafa sér við hlið góðan rekstrareinstakling til að vega það upp, það er nauðsynlegt. Einhvern sem gefur þér upplýsingar um hvað er hægt að gera og hvað ekki. Það er ekki bara hægt að elta drauma sína úr í bláinn og standa svo uppi með gjaldþrota borg og skilja ekkert í því hvað gerðist.

 Ef við hugsum málið aðeins betur. Icelandair var ekki í ósviptaðri stöðu í Covid faraldrinum og Reykjavíkurborg er nú í. Mikið tap og skuldir sem erfitt var að yfirstíga. Hefðu eitthvað af þessum miklu borgarstjórum sem ég taldi upp hér á undan verið ráðin sem forstjóri Icelandair á þeim tímapunkti? Væru þau með réttu reynsluna til að valda því starfi og bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti og snúa því við? Þið sem svöruðuð játandi í huganum eruð annað hvort að örga mér og öðrum eða jafn mikið draumórafólk og Dagur. Nei, það myndi aldrei gerast.

 Borg gengur ekki út á mjög marga hluti í grunninn. Þetta er okkar sameiginlegi rekstur og snýst um að hafa göturnar opnar, leikskólana í gangi, grunnskóla, sækja ruslið og vinna með það, hugsa um gamla fólkið og fatlaða. Svo þarf að skipuleggja og úthluta lóðum fyrir húsnæði og sjá um allskyns skráningar og skjölun. Svo er hægt að bæta við ýmsum verkefnum sem hver meirihluti setur oddinn hverju sinni. En grunninn tökum við aldrei í burtu. Hann verður að vera í lagi. Þetta er bara rekstur í rauninni. Rekstur á okkar sameiginlegu hlutum. Fólk getur haft skoðun á mikilvægisröðinni en þetta er samt bara rekstur. Í ríkismálum getur verið vinstri og hægri pólitík, en í borg er þetta aðallega bara rekstur.

 En hvernig snúum við rekstri sem tapar 15,6 milljörðum á einu ári? (En það var tap á rekstri borgarinnar árið 2022, sama hvaða umbúðum einhverjir reyna að pakka niðurstöðunni í. Aðrar tölur eru bara rekstrarárangur dótturfyrirtækja eins og Orkuveitunnar og fleirri.) Tapið er svo mikið og vaxtakostnaðurinn svo svakalegur að borgin er stödd á mjög hættulegum stað. Það þarf annaðhvort að auka tekjurnar eða minnka kostnaðinn, nema hvort tveggja sé. Það eru engar aðrar töfralausnir til. Ef Icelandair væri að tapa 15,6 milljörðum á ári myndu þau gera breytingar? Svarið er já, því annars færi fyrirtækið á hausinn. Það yrði ráðinn einstaklingur í brúna sem væri mikill rekstareinstaklingur, sem þorir að taka óvinsælar ákvarðanir hvað kostnað varðar og hefði hugmyndir um hvernig hægt væri að auka tekjurnar. Einstaklingur sem þyrfti að velja hvað er nauðsynlegt að hafa og hvað er gott að hafa (must have vs nice to have). Svo er bara spurning um hvað af því sem er gott að hafa yrði látið víkja á meðn rekstrinum yrði snúið við.

 Einar Þorsteinsson má eiga það að hann kemur vel fyrir og var mjög góður að spyrja spurninga í Kastljósinu. En hefur hann rekið stórfyrirtæki? Nei. Hefur hann tekið við rekstri á gjaldþrota stórfyrirtæki? Nei. Er hann rétti maðurinn til að snúa þessum rekstri? Líklega ekki. Ég vorkenni Einari, sem hélt að hann væri að fara í mjög áhugavert starf en endar í starfi sem hann að öllum líkindum ræður á engan hátt við. Starf þar sem hann mun þurfa að velja á milli þess að verða óvinsæll fyrir óvinsælar ákvarðanir eða óvinsæll fyrir að safna skuldum.

 Vandamálið er að pólitíkusar í dag taka ekki óvinsælar ákvarðanir. Hvernig er þá hægt að snúa rekstri borgarinnar við? Það er bara ein leið sem ég sé; að ráða forstjóra í verkið, rekstrareinstakling með reynslu af slíkum verkefnum. Pólitíkusarnir geta séð um að hugsa um stefnumótandi ákvarðanir en eins og staðan er núna verður reksturinn að vera í höndum atvinnumanneskju sem veit hvað hún er að gera. Slík manneskja er aldrei að fara í framboð til að verða borgarstjóri. Hana þarf að ráða í vinnu. Þannig manneskja getur valið úr störfum og fer ekki í atvinnuviðtal við alla borgarbúa til að láta draga sig upp úr drullupolli.

 Ég er búinn að taka ákvörðun um það að ef einhver flokkur ákveður að bjóða fram næst með það sem kosningaloforð að ráða borgarstjóra í stað þess að enn ein manneskjan sem kemur vel fyrir eigi allt í einu að verða rekstrarmanneskja, þá mun ég kjósa þann flokk, hvað sem flokkurinn heitir.


Nýtum tímann

Það er aldrei tími
en samt er ég alltaf að bíða
Það er aldrei tími
en samt kemur nýr dagur
Eftir hverju er ég að bíða,
það er kominn nýr dagur.

Það skrítna við tímann er hvað hann er afstæður. Sundum er hann ótrúlega lengi að líða en stundum er hann allt í einu bara búinn. Stundum myndum við vilja getað spólað áfram og stundum til baka. Það er ansi oft sem ég væri til í að geta spólað til baka en það er því miður, eða sem betur fer, ekki búið að finna upp leið til að spóla fram og til baka í tíma.

Við erum alltaf að mæla tímann sem einingu til verðmæta en verðmætin sem koma út úr því eru ekki mæld í tíma. Einn af snillingum Íslands, Gísli Rúnar heitinn, átti eitt sinn fleyga setningu þegar hann var að skrifa grín fyrir Bylgjuna. Þar var verið að þræta um hversu mikið ætti að borga fyrir grínið og reynt að setja skrifin í tímaeiningar. „Grín er ekki mælt í metrum,“ sagði Gísli Rúnar, því grín er annað hvort fyndið eða ekki. Sama hversu langan eða stuttan tíma tekur að semja það. Björn Jörundur var einnig að velta fyrir sér þessum mælieiningum í laginu Verðbólgin augu (íslenska krónan) og hvernig hún væri mæld í metrum og pundum. En tímakaupið væri svo misjafnt, þannig að sumar krónur væru lengri en aðrar: „eru mínar því lengri en hans?“

En einhvern veginn verðum við að mæla þessi verðmæti. Tíminn er nefnilega svo skrítinn að það er nóg til af honum en hvert og eitt okkar fær bara ákveðið mikið. Við fáum öll 24 klukkustundir á sólarhring og ráðum hvað við gerum við þær. Við bara vitum ekki hversu marga sólarhringa við fáum. Það er svo bara val hvers og eins hvað hann gerir við sólarhringana sína.

Þegar ég var 27 ára var ég í starfi sem ég elskaði ekki en borgaði vel. Á þeim tíma vorum við hjónin að byggja og þurftum á peningunum að halda. En þegar morgnarnir urðu þyngri og þyngri og dagurinn í þessu starfi lengri og lengri, þá á endanum varð ég að taka ákvörðun. Ég sagði upp og ákvað í leiðinni að vinna aldrei aftur peninganna vegna, heldur að þeir yrðu afleiðing af því sem ég gerði. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt, en alltaf skemmtilegt.
Það er nefnilega þannig að tíminn er skrítin eining, en gleði er önnur skrítin eining. Ef tíminn færir þér ekki gleði, þá er tímanum illa varið.

Ég þekki marga sem hafa varið ævinni í að safna peningum og gengið mjög vel í því. Það hefur fært sumum þeirra gleði. En fyrir mig, þá skiptir meira máli að safna minningum. Það færir mér gleði.

Ég hef því aldrei séð eftir þeirri ákvörðun að hætta að vinna peninganna vegna. Það eina sem þarf að passa er að hafa ekki of mikla greiðslubyrði. Því þá ræður fólk ekki við hvað það vinnur og verður að velja peninga umfram gleðina þegar það velur sér starf. Þannig að til að hafa efni á að geta sagt nei við leiðinlegri vinnu, sama hvað hún borgar, þá þarf að hafa lága greiðslubyrði.

Gamalt kínverskt máltæki segir: „Það er bara ein leið til að verða ríkur, það er að eyða minna en þú aflar.“ Það er mjög gaman að velta fyrir sér þessari setningu. Margir halda að þeir þurfi háar tekjur til að eignast hluti og lifa góðu lífi. En það er líka hægt að skoða það hinum megin frá og skoða hvernig maður ráðstafar fénu og stilla það af út frá tekjunum.

Trixið er að ná nógu góðum ballans í því hvernig við nýtum tímann til að færa okkur sem mesta gleði. Það felst í því að hafa markmið og tilgang.

Fyrir mörgum árum síðan hætti ég að fresta hlutum sem ég get afgreitt strax. Það hefur virkað mjög vel. En stundum gleymi ég mér og hlutir safnast upp. Þá þarf ég að taka mér tak og rjúka í hlutina. Ókláruð verkefni veita mér enga gleði.

Að gleðja aðra veitir mikla gleði, sem og að hugsa um nærumhverfi sitt. Þar þarf líka að finna ballans í því hversu mikið maður hugsar um aðra og hversu mikið sjálfan sig. Því það er svo rétt sem sagt er í flugvélunum. „Settu grímuna fyrst á þig og svo á barnið.“ Þeir sem hugsa ekki um sjálfan sig geta ekki hugsað um aðra.

Hvert fór tíminn?
Hann var hér í gær
Hann var hér í magni
Það gengur betur næst
Er eitthvað næst?

Það er bara nú og þá
Næst er uppselt
Og jæja,
þar fór það.


Ekki skrítið að fólk verði reitt

Margir hlutir hafa áhrif á líðan fólks en fjárhagslegar áhyggjur og óöryggi í fjálmálum ristir þar mjög djúpt. Bæði getur fólk orðið dofið og langþreytt, sem hefur áhrif á getu þeirra til að koma sér út úr aðstæðunum eða þá að fólk fær aukna orku til að gera eitthvað í málunum – og svo er það reiðin í báðum tilfellum.

Ég hef gaman að því að tala við ungt fólk. Þannig fær maður orku en líka skilning á því hvernig er að vera ungur í dag. Það er ekki eins og þegar ég var á sama aldri. Við afarnir ólumst upp í annari veröld. En margt er samt eins og meðal annars hversu erfitt er að eignast húsnæði, að lifa þá fjárfestingu af fjárhagslega og ekki síður andlega. Þegar við hjónin vorum að byggja vann maður tvöfalda vinnu og svo í húsinu eftir kl 22:00 á kvöldin. Eftir að við náðum að flytja inn tók það 2-3 ár þar til ég gat horft á verkfæri án þess að líða illa.

Ég man að þegar við Silja konan mín vorum að koma okkur upp okkar fyrstu íbúð þá var það mög erfitt. Vextir voru mjög háir og vanskilin söfnuðust upp. Greiðsluseðlar og reikningar hengu í klemmu á ísskápnum, bunkinn stækkaði og ég varð stöðugt stressaðari. En svo komur vaxtabætur í ágúst, ásamt barnabótum fjórum sinnum á ári. Þá var hægt að losa um vanskilin og svo koll af kolli. Smám saman batnaði okkar staða. Tekjurnar hækkuðu, börnin stækkuðu og við vorum komin í þá stöðu að við þurftum ekki lengur á bótunum að halda.

Sem betur fer er enn til kerfi á Íslandi til að jafna hlut þeirra sem eru að koma sér upp húsnæði og þeirra sem eru búnir að koma sér yfir þann hjalla. Einnig kerfi sem passar upp á að fólk með lægri tekjur og eignir eigi betri möguleika á að mæta þeim kostnaði sem fylgir því að ala upp börn. Vaxtabætur og barnabætur.

Ég var að tala við ungt fólk um daginn um það hvernig þetta væri í dag. Í stuttu máli þá brá mér við að heyra þær miklu breytingar sem orðið hafa bara á þessu ári. Hækkun á fasteignamati mun þurrka út stóran hluta af þeim sem eiga rétt á vaxtabótum.

Ef við tökum raundæmi: Ung kona sem ég ræddi við er einstæð móðir og er í Eflingu. Hún er með um 7 milljónir í árstekjur. Hún á íbúð og skuldar í henni 36,5 milljónir. Árið 2022 var fasteignamatið 42.600.000,- og fékk hún vaxtabætur sem voru 44.746. Það var í lágvaxtaumhverfi, í vöxtum eins og þeir eru í dag væri upphæðin mun hærri. Núna, árið 2023 er fasteignamatið orðið 50.500.000,- og fer því eignastofninn hennar úr því að vera 6,1 milljón í 14,6 milljónir sem er hátt í 140% hækkun. Það ættu að vera góðar fréttir en þetta nýtist henni ekki neitt fyrr en hún hugsanlega selur íbúðina síðar. Vextir eru mun hærri og greiðslubyrði hennar hefur farið úr kr. 150.000 í kr. 218.000 á mánuði, en vaxtabæturnar fóru niður í núll. Þannig situr hún uppi með hærri vaxtabyrði og greiðslubyrði, en enga hjálp á móti vaxtabyrðinni eins og áður, sem var þó mun lægri. Ef fasteignamatið hefði ekki hækkað þá hefði þessi manneskja fengið kr. 430.000 í vaxtabætur. Þá hefðu bæturnar hjálpaði verulega til í þessu vaxtaumhverfi.

Á sama tíma og þessi gríðalega hækkun fasteignamats á sér stað breytast skerðingarmörk fyrir vaxtabótum frá því að neðri mörkin voru 5 milljónir og fara í 7,5 milljónir og efri mörk úr 8 milljónum í 12 milljónir. Ef maður leikur sér með prósentureikning þá er þetta há prósentuhækkun og í takt við hækkun á fasteignamati. En málið er að fasteignamatið hækkar í krónum og allar þær krónur koma beint inn í eignastofninn. Svo ef fasteignamat á íbúð hækkar um 10 milljónir þá hækkar eingarstofninn um 10 milljónir. Fáir búa í íbúðum í Reykjavík sem hækkuðu um minna en 7 milljónir. Svo nánast allir eru að hækka það mikið í eignarstofni að vaxtabætur þeirra eru úr sögunni, á sama tíma og greiðslubyrði hækkar um allt að 50%.

Barnabætur og skerðingarreglur í kringum þær fylgja heldur ekki launaþróun svo stór hluti fólks sem fékk barnabætur í fyrra áekki rétt á þeim í ár, þó svo að launin þeirra í dag dugi skemur en launin fyrir ári síðan.

Ef við tökum þetta saman: Ráðstöfunartekjur eftir skatta og greiðslubyrði á mánuði. Einnig tökum við vaxtabætur og barnabætur og deilum þeim niður á mánuði:
 
                                           2022      2023       innkomubreyting
Útborguð laun                    435.000   465.000    +30.000
Vaxtabætur (deilt á mán).      3.729         0        -3.729
Barnabætur (deilt á mán)    27.156      26.048     -1.108
Greiðslubyrði láns               218.000   253.000    -35.000 
---------------------------------------------------------------------------
Til að lifa                          247.885   238.048       -9.837
 
Hún fær duglega launahækkun í kjölfar miðlunartillögunnar. En það dugar ekki fyrir þessu áfalli. Því raunverulega áfallið hefur lítið með kjarasamningana að gera. Það hefur með greiðslubyrði og skerðingar á bótum að gera. Svo ofan á það verðbólguna sem gerir það að verkum að verðmæti þessara 238.000 króna sem hún á til að lifa er 10% minna en raunverðmæti sömu upphæðar ári síðan. Því er þessi minnkun ráðstöfunartekna mun meiri en 9.837, sem samt er mjög mikið. Einnig má hafa í huga að greiðslubyrði lána var kr. 150.000 á mánuði árið 2021 og eingöngu greiddi hún í hálft ár. Samt dugar það til vaxtabóta sem hún fékk 2022.
 
Ef fasteignamat hefði ekki hækkað hefðu vaxtabætur í þessu háa vaxtastigi verið kr 430.000,- til greiðslu 2023, sem gerir kr. 35.833 á mánuði. Það hefði vegið á móti hækkun greiðsubyrðar og launahækkunin hefði ekki gufað upp. En nú hafa útborguð laun hækkað um kr. 30.000 en en samt hefur hún kr. 10.000 minna til að lifa í veröld þar sem allt kostar a.m.k. 10% meira.

Það er því ekki skrítið að fólk verði reitt. En hvernig á það að haga sér? Beita reiði sinni í næstu kosningum. En hvað eiga þau að kjósa í staðinn? Reykjavíkurborg er stjórnað af vinstri flokkum og þar virðist ekkert hugsað út í þetta. Ríkinu er stjórnað af vinstri og hægri sem virðist ekki heldur skilja þessar afleiðingar af breyttum veruleika. Sólveig Anna berst við atvinnurekendur til að ná til stjórnvalda. Með þessari aðgerð að hækka fasteignamat svo mikið án þess að taka tillit til þess að flestir fasteignaeigendur missi möguleika á vaxtabótum hefur allur kostnaðurinn við vaxtahækkunina verið færður yfir á skuldarann.

Nú mun stór hluti ungs fólks sjá við gerð skattskýrslu sinnar að það á ekki lengur rétt á vaxtabótum á sama tíma og það ræður varla við lánin sín eftir miklar vaxtahækkanir. Ég spái því að ef ekki verður leyst úr þessu verði næstu kjarasamningar mjög erfiðir og dýrir þjóðfélaginu. Mun dýrari en það myndi kosta að hækka skerðingarmörkin svo fólkið sem þarf á vaxtabótunum og barnabótunum sínum að halda fái þær.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband