Afi í Palestínu

Ég fæddist frjáls

en kvarta samt

ég fæddist í friði með allt sem ég þarfnast

en kvarta samt

kvarta yfir veðrinu, vöxtunum og verðinu

 

En hvað ef ég fengi steikjandi hita,

engar afborganir og lægra verð?

Yrði ég þá ánægður?

Eins og landlausi maðurinn sem brosti til mín í Palestínu.

Ég flýg heim til að kvarta yfir veðrinu.

Ég var svo heppinn að vera í Ísrael og Palestínu nýlega þar sem ég var að aðstoða Heru Björk við að flytja tónlist tengt Eurovision hátíðinni og að heimsækja S.O.S. barnaþorp báðum megin landamæranna. Þessar heimsóknir snertu mig mikið. Börnin sem voru svo spennt að hitta okkur, skoða myndavélarnar hjá mér, fara í grettukeppni, fá þau í fangið og borða með okkur pizzu. Ég er nýlega orðinn afi og því með með hjartað opið og móttækilegt og lagði mig því mikið fram við að tengjast og skilja veruleikann sem börnin þarna alast upp við. Einnig hvernig fullorðna fólkið er að reyna að búa þeim líf og framtíð í óviðunandi aðstæðum og stríði.

Heimssýn þessa fólks er önnur en okkar. Viðmið um hvað sé gott líf er ekki það sama og þarfir ekki heldur. Kúgað fólk sem þarf að sækja um sérstakt leyfi til að fara yfir landamærin. Er meinað að keyra bíl röngu megin landanæranna og er stöðugt meðhöndlað sem glæpamenn í eigin heimalandi. Fólk sem þráir bara frið og mannréttindi. Veggur hefur verið reistur á milli landshluta þar sem íbúarnir mega ekki fara á milli, hvorki Ísraelar né Palestínufólk nema með undantekningum. Undir niðri kraumar reiðin, beggja vegna landamæranna. Flest fólk er þreytt á stríðinu og skilur hvað þarf að gera. En ef stoltir íhaldssamir leiðtogarnir geta hvorkið bakkað né fyrirgefið, mun ekkert gerast. Þegar annar þjóðfélagshópurinn er æðri hinum, þá er ekki von á góðri útkomu. Flestir sem ég hitti Ísraelsmegin skammast sín fyrir ástandið og álit heimsins á ástandinu. En þessi áratugadeila liggur djúpt í sál þeirra sem eru eldri. Eldra fólkið man eftir skærunum þar sem sprengjum var varpað á fjölskyldur sem óku um þjóðveginn frá Tel Aviv til Jerúsalem. Bílhræin standa þar enn frá því á sjöunda áratugnum til minningar um þá sem létust á þessum árum.

Það sem snart mig best í þessum heimsóknum í S.O.S. barnaþorpin var hversu mikil áhersla var lögð á að fræða og ala börnin upp í umburðarlyndi, samvinnu, víðsýni og jafnrétti beggja vegna landamæranna. Sérstaklega var Palestínumegin lögð áhersla á að ala börnin upp í jafnrétti kynjanna. Til að brjóta niður það mein að karlmenn drottni yfir konum í ákveðnum þjóðfélagshópum. Einnig að umgjörð til stuðnings er til 23ja ára aldurs, svo einstaklingarnir eigi betri möguleika á að fóta sig í fullorðinslífi með stuðningsneti.

Þarna voru börn sem höfðu misst annað foreldri eða bæði eða þá að foreldrarnir eru ófærir um, tímabundið, eða til framtíðar, að hugsa um bornin sín. Börn sem höfðu orðið fyrir miklum áföllum, vanrækslu og/eða ofbeldi. Án þess að fá þá aðstoð sem S.O.S. Barnaþorpin veita þeim, væru þessi börn mjög líkleg til að alast upp sem reiðir, þröngsýnir einstaklingar sem gera samfélagið sitt verra. Þess í stað er skapaður jarðvegur til að þau verði víðsýnir, umburðarlyndir og jafnréttissinnaðir einstaklingar sem eru líklegir til að bæta umhverfi sitt.

Það er nefnilega ekki bara barnið sjálft sem fær betra líf, heldur samfélagið í heild sinni, ef barni er gefinn möguleikinn til að þroskast og menntast í ástríku umhverfi.

Ég hitti kynslóðina sem mun leysa deiluna, fyrirgefa og halda áfram. Kynslóðin sem sér að samvinna og jafnrétti er alltaf leiðin áfram. Drottnun og óréttlæti er alltaf stöðnun eða leiðin afturábak. Ég kom því bjartsýnn aftur til Íslands til að kvarta yfir veðrinu.


Afi á instagram

Þetta er pistill 3 í pistlaröðinni þar sem ég varð nýlega afi.

 

Stærsti munurinn á því hvernig er að verða foreldri í dag og þegar ég og konan mín stóðum í þeim sporum árið 1991 í fyrsta skipti eru samfélagsmiðlarnir.

Ég hringdi úr tíkallasíma, eins og þeir voru kallaðir, bæði í foreldra mína og tengdaforeldra til að segja þeim fréttirnar áður en ég yfirgaf fæðingardeildina. Gekk svo út af fæðingardeildinni skýjum ofar. Svo stoltur af því að vera orðinn fullorðinn. Maður með mönnum. Vera nýbakaður pabbi. Þvílíkur dagur. 

Eins og komið hefur fram í fyrri pistli þurfti ég að byrja á því að koma við í Háskólanum og fá mig skráðan í sjúkrapróf sem var ekki eins auðsótt og ég hélt. Þaðan lá leiðin svo heim. Hvíla sig áður en ég færi í að hringja í þá sem stóðu okkur nærri til að segja þeim fréttirnar. Ég var spenntur yfir því að heyra í fólki í fyrsta skipti sem pabbi. Allir svöruðu heimasímanum um kvöldið, en það voru einu símar fólks á þeim tíma. Mikið var gaman að tala við allt þetta fólk og segja þeim fréttirnar, svara spurningum um kyn, þyngd og lengd, hvernig gekk og hvort öllum heilsaðist vel? Að vísu náði tengdamamma að stela frá mér þrumunni á nokkrum stöðum með því að vera á undan mér að hringja í fáeina einstaklinga. En það var allt og sumt. Ég stýrði hver fékk fréttirnar og hvenær.

Örfáir útvaldir komu á fæðingardeildina en þá voru mæður og börn þar í nokkra daga eftir fæðinguna. Eftir að við komum heim mættu nokkrir vinir og skyldmenni fljótlega til að sjá litlu stúlkuna og svo seinna litla drenginn þegar barn númer tvö kom. Enginn þurfti að halda á barninu og taka af sér mynd. Enginn þurfti að sýna heiminum hvað þau hefðu fundið öfluga lækvél. Svo kom fólk reglulega í heimsókn til að fylgjast með, fá kaffi og spjalla. Við fórum líka og heimsóttum afa og ömmur og til að að sýna langafa og langömmu barnið. Mikil gleði en samt mikil friðsemd. Enginn kom án þess að gera boð á undan sér og við höfðum alltaf stjórn á aðstæðum.

Bomm. Og svo komu samfélagsmiðlarnir. Læk-keppnin og allt það.

Nýbakaðir forleldrar taka sjálfu á fæðingadeildinni og pósta. Þá er það komið. Allir setja komment um hvað barnið er mikið krútt og þá er það frá. Svo er komið heim einum til tveimur dögum eftir fæðinguna og þá kemur strollan. Litla barnið situr fyrir í fangi allra og beint á insta, fb og snap. Viðbrögðin aldrei betri og allir fylla á læktankinn. Fá að vera smá stjörnur á insta um stund. Foreldrarnir sjá svo til þess að allir fylgjast með barninu í gegnum samfélagsmiðla öllum stundum, svo heimsóknir hafa í raun bara einn tilgang. Að fá sjálfu til að græða smá á vinsældum barnins á samfélagsmiðlum.

 

Svo eru allar óskráðu reglurnar sem sífellt eru brotnar fyrir „misskilning“. Til dæmis fólkið sem póstar mynd af skírnarkökunni með nafni barnsins áður en foreldrarnir eru búnir að því. Hver er fyrstur með fréttirnar um hvort það verði strákur eða stelpa? Hverju má pósta og hverju má ekki pósta? Hvernig setjur maður reglurnar og hvernig kynnir maður reglurnar fyrir fólki? Þetta er allt flókið og viðkvæmt.

Nú skal ég ekki dæma um það hvor tíminn var eða er betri. Nýjum tímum fylgja breytingar og þetta er ein þeirra. Börn sem fædd eru í dag eiga lifandi myndaalbúm út ævina þar sem allt er skráð, allt er myndað og allir geta fylgst með. Ekkert hverfur af netinu það sem eftir er ævinnar. Sem betur fer er ekki allt skrásett á mynd sem ég gerði sem barn og þess vegna get ég nú stílfært það eins og ég vil mér í hag og sleppt því sem ég vil ekki að hafi gerst. Því ég var að sjáfsögðu fullkominn og ef einhver segir eitthvað annað, þá þarf viðkomandi að sanna það.


Afi í fæðingarorlofi

Afi í fæðingarorlofi

Okkur hjónunum hlotnaðist nýlega sú gleði að verða afi og amma í fyrsta skipti. Það vakti upp miklar tilfinningar hjá mér og opnaði augu mín fyrir foreldrahlutverkinu á alveg nýjan hátt. Að vera afi er allt annað en að vera sjálfur foreldrið og í kjölfarið ákvað ég að gera þessa greinaröð – um muninn á því að verða foreldri nú og þegar við hjónin urðum það. Þetta er grein 2.

Margt hefur breyst en sumt hefur lítið sem ekkert breyst. Sumt hefur breyst að nafninu til og sumt hefur þróast í að verða andhverfa af því sem til stóð.

Eitt sem ég komst að og þykir mjög undarlegt að ekki sé búið að laga er hvernig orlofsupphæðin í fæðingarorlofi er reiknuð út og hvaða skilyrði þarf að uppfylla. T.d. þarf að hafa verið 12 mánuði í samfelldri vinnu mánuðina fyrir fæðingu til að fá greitt orlof. Þessi regla þykir mér mjög í andstöðu við tilgang orlofsins og hugsanlega leifar af þeim tíma þegar stór hluti kvenna var tekjulaus og heimavinnandi eða í íhlaupastörfum. Ég hefði haldið að hugmyndin um fæðingarorlof sé sú að samfélagið gangist við því að það sé eðlilegt að nýorðnir foreldrar hafi efni á því að taka frí fyrstu vikur og mánuði eftir fæðingu til að tengjast barninu. Vinna þá umönnunarvinnu sem þarf hvenær sem er sólarhingsins án þess að hafa áhyggjur af því að þurfa mæta til vinnu að morgni. Taka frá þeim fjárhagsáhyggjurnar og fá að vera í smá bómull í nokkrar vikur á þessum mikilvægasta tíma í tengslamyndun barns og foreldra. Einnig að barnið fái að vera í kringum foreldra sína fyrstu vikur og mánuði í stað þess að vera sett í hendur á óviðkomandi. Er þá fólk sem ekki hefur verið í samfelldri vinnu í 12 mánuði tekið út fyrir sviga? Á þeirra barn að hafa einhvern annan og minni rétt en hin börnin vegna þess að annað foreldrið varð óvinnufært og launalaust hluta þess tíma? Á þetta fólk ekki að fá greitt fullt orlof? Á fólk í þessari stöðu að skipta á bleium og vagga barninu á nóttunni og vinna á daginn til að ná endum saman eða reyna að komast af á smánarlegum fæðingarstyrk sem er 77.000 kr. á mánuði? Á þetta fólk að þurfa að standa í bréfaskriftum við Fæðingarorlofssjóð í óvissu um hvort það eigi fyrir nauðsynjum fyrir heimilið og barnið þegar það ætti að vera að dást að og sinna nýja barninu? Jafnvel eftir margra ára vinnu á sama vinnustað en hafa dottið úr vinnu í einn mánuð akkúrat á þessu 12 mánaða tímabili. Er þetta það sanngjarna samfélag sem orlofið var hugsað fyrir? Ég á bágt með að trúa því.

Eins veit ég að námsfólk er í sömu vandræðum. Það kemur út á vinnumarkaðinn og má helst ekki hefja barneignir fyrr en 12 mánuðum eftir að námi lýkur hjá báðum foreldrum og starfsævin hefst. Eða í raun 18 mánuðum, því útreikningur á orlofi miðast við meðallaun í 12 mánuði, 6 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag. Börn gera bara ekki alltaf boð á undan sér eða fæðast eftir pöntun. Ég hef séð mörg dæmi um skert orlof hjá ungu fólki sem ég hef unnið með undanfarin ár. Það nær hugsanlega nokkrum ágætismánuðum á launum og fer svo í orlof á fæðingarstyrk eða lágu orlofi sem er aðeins brot af þeim launum sem það er á og þarf því aftur að stóla á foreldra sína eins og þegar það var að reyna að ná endum saman í skólanum og missa sjálfstæði sitt og stolt í leiðinni. Ef fólk er það heppið að hafa foreldra til að stóla á. Hinn möguleikinn er taka að sér svarta aukavinnu á meðan það er á styrknum til að bjarga málunum. Í námi er þó hægt að nýta sér námslán sem eru margföld á við fæðingarstyrkinn og ef viðkomandi hefði eignast barnið á meðan námi stóð hefði fæðingarstyrkurinn verið 177.000 kr. á mánuði sem er mun skárra en styrkurinn er að námi loknu.

Er eitthvað ódýrara fyrir þetta fólk að vera með ungbarn?

Hér er linkur inn á Vinnumálastofnun fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar: 

http://www.faedingarorlof.is/files/Upph%C3%A6%C3%B0ir%202019_232393447.pdf

Fæðingarorlof er líklega einn mikilvægasti réttur sem stéttarfélagabarátta hefur náð fram. Fyrir fæðingarorlof voru konur nánast dæmdar úr leik fjárhagslega við barnsburð ef þær höfðu ekki fyrirvinnu rétt eins og húsdýr eru háð eigendum sínum til að lifa af. Rétturinn var því stórt skref í jafnréttisbaráttunni ásamt því að gefa barninu öruggan rétt til að tengjast foreldrum sínum á mög svo mikilvægum og viðkvæmum tíma. Þessi réttur er margskonar og er einn hluti hans sá að fólk á rétt á að ganga aftur að starfi sínu að orlofi loknu sem er mjög mikilvægur réttur sem ekki kom að sjálfu sér.

Fyrir 28 árum þegar við urðum foreldrar í fyrsta skipti fékk móðirin sex mánuði í orlof og faðirinn ekki neitt. Að sjálfsögðu var það ósanngjarnt á tvennan hátt. Réttur föður og barns til að tengjast tilfinningaböndum var fyrir borð borinn. En einnig hallaði á konur í atvinnulífinu við þessi skipti, konur á barneignaaldri voru frekar til vandræða fyrir atvinnurekendur en karlar á sama aldri þar sem dýrt er fyrir fyrirtæki að missa fólk í slíkt orlof og þurfa að leysa það með bráðabirgðalausn. Sérstaklega átti þetta við um konur í ábyrgðarstöðum og í samkepnni við karla um slíkar stöður. Ég hef oft verið spurður að því í mínum rekstri hvernig ég þori að vera með svona margar konur á barneignaaldri í vinnu og hvort það sé ekki dýrt?

Þetta hefur sem betur fer verið lagað með því að móðir og faðir hafa nú jafnan rétt og svo líka sameiginlegan rétt. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera setja fólk í þá stöðu að ákveða skiptingu réttarins heldur hafa eingöngu jafnan rétt beggja. Í dag virðist móðirin nær undantekningalaust fá þann hluta allan til sín og það veldur sömu skekkjunni á vinnumarkaði og var í gamla daga. Einnig hef ég heyrt mörg dæmi um að karlar taka orlofið en halda samt áfram að vinna og fresta launagreiðslum fram yfir orlofstímann. Þannig var þessi dýrmæti réttur sem kostaði blóð, svita og tár að ná fram ekki hugsaður og er það vanvirðing við þá baráttu að nota hann á þann hátt.

 


Nýfæddur afi

Stórkostleg tíðindi bárust um daginn þar sem nýtt ráðuneyti varð til á Íslandi, Barnamálaráðuneytið. Þegar ég var barn, þá hefði þetta verið eitthvað sem gæti komið fyrir í grínþætti en ekki í raunveruleikanum. En hugmyndir okkar um lífið og því sem er mikilvægt hafa sem betur fer þroskast og breyst á þeim 50 árum frá því ég fæddist. Hvað er að verða foreldri og hvernig eru kröfur samfélagsins um foreldrahlutverkið? Hefur samfélagið þroskast jafnt og eru innviðirnir í takt við samfélag sem hefur þann þroska að búa til sérstakt Barnamálaráðuneyti?

Afleiðing af því að ég fékk stórkostnlegt hlutverk nýlega, að verða afi, fór ég að skoða betur hvað hefur breyst frá því að ég og kona mín stóðum í því að verða foreldrar.

Þegar ég fæddist þá fóru foreldrar mínir á Landsspítalann, fæðingardeild með sjúkrabíl. Eftirvænting þeirra eftir því að verða foreldri í fyrsta skipti var mikil. En þegar á fæðingadeildina kom var mömmu rúllað inn en hurðinni skellt á pabba sem sóð úti á skyrtunni og reyndi að banka til að fá að hringja á leigubíl. En það var ekki hægt. Honum til happs þá fæddist ég í júní svo hann gat gengið heim í skaplegu veðri. 23 árum síðar varð ég faðir í fyrsta skipti og við, þáverandi hjónaleysin, gengum í gegnum mjög erfiða fæðingu sem stóð langt inn á fjórða sólarhing. Á sama tíma var ég í prófum í Háskólanum og var því ósofinn þegar ég átti að mæta í próf. Fór ég því til deildarstjóra til að fá mig skráðan í sjúkrapróf. “Nei Valgeir minn, þú varst ekki að eignast barn, heldur konan þín. Þú annaðhvort mætir í þetta próf á eftir eða verður skráður fallinn.” Tilkynnti hún mér. Ég var með mjög góðar einkunnir og hafði ekki áhuga á að fá skráð á mig fall í prófi svo ég gaf mig ekki. Fór á fund rektors sem brosti og skildi ekki af hverju þetta var svona mikið mál og skipaði fyrir um að ég yrði skráður í sjúkrapróf. Svona voru tímarnir hvað varðar kynjahlutverk við að verða foreldri þá, en hvað hefur breyst? Er litið á föðurinn sem mikilvægan þátt í því að verða foreldri í dag?

Ég fylgdist aðeins með því núna þegar sonur minn og tengdadóttir urðu foreldrar ásamt því að við hjónin kynntum okkur hin ýmsu mál sem við höfðum ekki spáð í áður til að geta aðsoðað nýbakaða foreldrana eins og við gátum án þess að skipta okkur of mikið af. Ég ætla að skrifa um þennan samanburð núna í nokkrum pistlum.

Eitt var það sem sló mig var að þjónusta við verðandi foreldra skuli enn heita mæðravernd. Það getur ekki verið í þágu barnsins að aðeins annað foreldrið fái vernd á þessum mikilvæga tíma sem er að verða foreldri. Af hverju heitir þjónustan ekki foreldravernd? Ef ganga þarf út frá foreldri almennt. Jafn þáttur foreldra er lykilatriði fyrir gott samlíf á heimili. Skilaboð heilbrigðiskerfisins til verðandi foreldra ætti þá ekki að hefjast á því að annað foreldrið sé tekið fram yfir hitt í mikilvægi ummönnunar. Þegar ég fæddist þá var pabbi minn óæskilegur skv. heilbriggðiskerfinu.  Þegar okkar börn fæddust þá hafði það breyst í að ég var í aukahlutverki og í besta falli stuðningshlutverki. Nú hátt í 30 árum síðar hefur það lítið breyst hvað það varðar. Feður upplifa sig í algjöru aukahlutverki í allri fræðslu og aðstoð við verðandi foreldra. Móðirin fær sérkennslu og alla athygli kerfisins á meðan faðirinn er ofsa duglegur að mæta og vera með. Þá er ég ekki að gagnrýna ljósmæðurnar sem leggja sig fram heldur er grunnhugsun þjónustunnar út frá heiti hennar sem er mæðravernd.

Eitt annað komst ég að þegar ég skoðaði af forvitni minni hvað hafði breyst frá því ég var aukaleikari í því að konan mín varð móðir. Það er að nú hefur komið í ljós að 8,4% feðra fá fæðingarþuglyndi en 12% kvenna. Það er skimað eftir fæðingarþunglyndi hjá mæðrum en ekki feðrum. Það er til leið um hvað gerist ef þær eru með þunglynd en ekki fyrir feðurna. Þeir eiga bara að harka af sér og hætta þessu væli eins og við værum enn stödd á síðustu öld. Eins komst ég að því að samkvæmt öllum nýlegum rannsóknum þá getur vel undirbúinn og virkur faðir núllað út slæm áhrif sem þunglyndi móður getur haft á barnið. En engin slík forvörn eða aðstoð við verðandi ferður er til. Í raun er ekkert til fyrir verðandi feður annað en að tala við afana og ömmurnar til að fá ráð um hvað er að verða pabbi. Það er nefninlega heilmikið mál og hefur alltaf verið heilmikið mál. Eins og það er heilmikið mál að verða móðir. Þá á eftir að taka inn öll þau form sem eru til í foreldrahlutverkum þar sem samsetning fjölskyldna er allskonar.

Að það verði til góðir og vel undirbúnir foreldrar ætti að vera sameiginlegt verkefni, ríkis, sveitarfélaga, heilbryggðiskerfisins og atvinnulífsins. Mikið hlakkar mig til að sjá hvort hið nýja Barnamálaráðuneyti muni verða til þess að barnið eigi rétt á að eiga foreldra sem eru jafn vel undirbúnir undir foreldrahlutverkið sama hvers skyns þeir eru. Það væri frábær gjöf til ófæddra barna framtíðarinnar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband